Leita í fréttum mbl.is

Vonandi nær meirihlutinn áttum

Eitthvað ekki gott hefur hlaupið í meirihluta Vg og Framsóknarflokks í Skagafirði.  Í stað opinna og vandaðra vinnubragða, tíðkast nú í meira mæli leynd og órökstuddar skyndiákvarðanir.  Skagfirðingar sem hafa einskis ills átt von hafa síðustu vikurnar reynt hver af öðrum að bera hönd fyrir höfuð sér vegna gerræðislegra ákvarðanna meirihlutans, með skrifum i Feyki.

Nýjasta flýtiákvörðun meirihlutans snertir alla Skagfirðinga til framtíðar, en það eru glæný áform um viðbyggingu við Árskóla. Framkvæmdirnar munu auka skuldir sveitarfélagsins um a.m.k. rúman hálfan milljarð króna og eru þær sömuleiðis ávísun á enn frekari útgjöld að upphæð hundruð milljóna króna.    Skuldaaukningin mun koma skuldum sveitarfélagsins upp fyrir lögbundið skuldaþak nýsamþykktra sveitarstjórnarlaga. Með frjálslegri túlkun laganna má mögulega koma skuldabagganum niður fyrir rjáfrið.  Með þessari illa ígrunduðu hugdettu er meirihlutinn að koma sveitarfélaginu Skagafirði í þá stöðu sem of skuldsett sveitarfélög landsins eru að reyna með öllum ráðum að komast úr!  

Á fyrsta og eina kynningarfundi oddvita meirihlutans með öðrum sveitarstjórnarfulltrúum, sem haldinn var 22. febrúar,  kom fram að áformað væri að ljúka meðferð málsins að viku liðinni þ.e. á næsta sveitarstjórnarfundi.  Með verklaginu eru oddvitar Vg og Framsóknarflokksins að láta reyna illilega á flest ákvæði sem snúa að fjarmálum í sveitarstjórnarlögum og örugglega á anda og markmið laganna.  Skuldaaukningin gengur þvert á nýsamþykkta fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.  Leyndin og vinnubrögðin í kringum pantaða úttekt á fjárhagslegum áhrifum fyrirhugaðrar skuldsetningarinnar á fjárhag  sveitarfélagsins kastar augljóslega rýrð á trúverðugleika hennar og jafnvel svo að hún getur vart talist hlutlaus. Verst er þó að fyrirliggjandi niðurstöður úr rekstrarreikningi sveitarfélagsins, benda eindregið til þess að hallinn hafi verið talsvert meiri í fyrra en stefnt var að.    Ekkert liggur fyrir um fjármögnun annað en bréf frá Kaupfélagsstjóra frá árinu 2009 og svo er vitnað óljóst í samtöl við forsvarsmenn KS um að hægt verði að fá vaxtalaus lán á byggingartíma.  Engar upplýsingar eru um skilmála eða skilyrði lánveitingarinnar KS.

Vissulega eru byggingaráformin hógværari en þær skýjaborgir sem áður hafa verið til umræðu en engu að síður hljóta þau að kalla á opna umræðu og ábendingar frá foreldrum og ekki síður skattgreiðendum.

Rekstur sveitarfélagsins er mjög þungur eins og fyrr greinir og í stað þess að meirihlutinn einbeiti sér að aðgerðum sem ná endum saman, þá er í skyndi hlaupið til og aukið á fjárhagsvandann.

Vonandi nær meirihlutinn áttum og gefur sér og öðrum tíma í að fara yfirvegað yfir málin út frá þeirri stöðu sem Sveitarfélagið Skagafjörður er í.

Sigurjón Þórðarson,

sveitarstjórnarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra í Skagafirði


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband