Leita í fréttum mbl.is

Stjórn Frjálslynda flokksins styður sjómenn í mannréttindabaráttu

Stjórn Frjálslynda flokksins styður heilshugar þá sjómenn sem hyggjast berjast fyrir rétti sínum og alls almennings og róa til fiskjar með handfæri, án kvóta. Sjómennirnir eru í fullum rétti enda ótvírætt varðir af jafnræðisreglu stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og eru réttindin tryggð í alþjóðasamningum sem íslenska lýðveldið hefur undirgengist. Undir það hafa tekið æðstu valdhafar framkvæmdarvaldsins í málefnum dómsmála og sjávarútvegsmála, sbr. þskj. 6 á 136. löggjafarsamkomu lýðveldisins.

Stjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, gáfu sjómönnunum í mannréttindabaráttunni, sem margir eru ungir að árum, skýr fyrirheit fyrir síðustu alþingiskosningar um að jafnræði íslenskra þegna yrði virt við nýtingu sameiginlegrar fiskveiðiauðlindar þjóðarinnar. Engin rök eru fyrir því að nokkrir almannahagsmunir geti legið því til grundvallar að takmarka handfæraveiðar, s.s. vegna meintrar ofveiði. Algerlega útilokað er að ofveiða fiskistofna með handfærum.

Sjómennirnir í mannréttindabaráttunni eru með fullgild veiðileyfi og eru því í fullum rétti til þess að nýta sameiginlega auðlind landsmanna. Stjórn Frjálslynda flokksins skorar á ráðherra mannréttinda og sömuleiðis ráðherra sjávarútvegsmála að vera samkvæma sjálfum sér, sbr. fyrrgreint þingskjal, og virða að fullu mannréttindi sjómannanna og styðja frjálsar handfæraveiðar. Stjórn Frjálslynda flokksins skorar sömuleiðis á fjármálaráðherra og forsætisráðherra að styðja verðmætaöflun sjómannanna í mannréttindabaráttunni, en aukin veiði mun án efa auðvelda ráðherrunum stjórn efnahagsmála.

Ríkisstjórn Íslands ætti að hafa það hugfast að frjálsar handfæraveiðar eru einföld og góð leið til þess að tryggja trausta byggð í dreifðum byggðum landsins og þær njóta almenns stuðnings meðal landsmanna.

19. október 2011

Sigurjón Þórðarson, Ásta Hafberg og Grétar Mar Jónsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyr Heyr!!!!

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.10.2011 kl. 17:34

2 Smámynd: Haraldur Baldursson

Heyr heyr (segi ég líka) !!

Haraldur Baldursson, 20.10.2011 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband