Leita í fréttum mbl.is

Óútfyllt ávísun til að losna við uppgjör

Hrunið er bein afleiðing af samkrulli spilltrar stjórnmálastéttar og fjárglæframannanna í útrásarbönkunum. Almenningur hefur orðið vitni að því að furðu lítið hefur breyst í íslensku samfélagi á þeim rúmu tveimur árum sem liðin eru frá hruni nema, jú, að lífskjör almennings eru stórskert. Enn eru sömu aðilar á ferðinni í viðskiptalífinu, og sömu kerfin og hagsmunabandalögin halda saman sem áður. Skýringarnar á þessari stöðnun eru þær að fjórflokkurinn sigraði í síðustu alþingiskosningum og fékk 59 sæti gegn fjórum. Sameiginlegir hagsmunir stjórnmálamanna og fjárglæframannanna hafa farið saman um að   forðast hreinskiptið uppgjör og gera raunverulegar breytingar á íslensku samfélagi. Ógöngurnar sem Icesave-málið hefur ítrekað ratað í eru angi af þessu getu- og viljaleysi stjórnvalda til að verja hagsmuni
íslensks almennings, enda hafa þau óhreint mjöl í pokahorninu. Á síðustu misserum hefur stór meirihluti Alþingis, svo undarlegt sem það er, miklu frekar verið harður málsvari þess að íslenskir skattgreiðendur beri einir alla ábyrgð og áhættu af Icesave-málinu í stað þess að halda á lofti málstað íslenskra skattgreiðenda. Icesave-málið er bein afleiðing af gölluðu innistæðutryggingakerfi og óvönduðu eftirliti með glæfralegu fjármálakerfi sem búið var að vara við um árabil. Ósanngjarnt er að íslenskir skattgreiðendur séu einir látnir sitja upp með að tryggja tjón vegna kerfisins og endurgreiða fjármuni sem aldrei rötuðu til landsins. Miklu nær væri að Evrópusambandið hefði forgöngu um að tjóninu væri að einhverju leyti skipt af sanngirni í stað þess að beita Íslendinga þrýstingi og jafnvel síendurteknum
hótunum.  
Svo rammt hefur kveðið að þessum róðri innanlands gegn hagsmunum Íslands í Icesave-málinu að margir standa í þeirri trú að sú aðgerð stjórnvalda að tryggja innistæður í bönkum á Íslandi hafi að einhverju leyti skaðað þá sem áttu fjármuni inni á Icesave-reikningum Landsbankans. Þessu er algerlega öfugt farið þar sem Bretar fá mörghundruð milljörðum króna hærri upphæð endurgreidda   en ef Íslendingar hefðu látið hjá líða að setja umdeild neyðarlög sem deilt er um, þ.e. á sjöunda hundrað milljarða króna í stað þess að fá á tólfta hundruð milljarða króna. Íslendingar hafa því gert vel við Breta í umræddu uppgjörsmáli sem snýst um fjármuni sem eins og áður segir runnu að öllum líkindum ekki frá Bretlandseyjum og skiluðu sér ekki hingað til landsins.
Efnahagsörðugleikar Íslands eru miklir og víst er að samþykkt Icesave verður til þess að óréttlátar og ólögvarðar skuldbindingar sem enginn veit hvað verða háar verða að kröfum á hendur komandi kynslóðum sem hægt verður að innheimta.
Íslendingar eiga að afþakka það kinnroðalaust að taka á sig skuldir fjárglæframanna þann 9. apríl nk. þó svo að stjórnmálamenn sem hafa meira og minna verið á spillingarjötunni forðist umfram allt heiðarlegt uppgjör við hrunið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega Sigurjón.

Enda einróma niðurstaða á mínu heimili að hafna öllum frekari skuldbindingum. Við erum þrjú hér sem kjósum nei. Þetta er ekkert flókið, skyndilega er ekkert eigið fé til og við fáum um leið stökkbreyttar skuldir og vexti til 40 ára.

sr (IP-tala skráð) 7.4.2011 kl. 09:59

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér SIgurjón. Burt með fjórflokkinn og spillinguna, og Neiið mitt verður stórt n.k. laugardag.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 10:04

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Við verðum nú að kjósa já svo Vilhjálmur Egilsson geti hangið áfram í þeirri trú að hann gerði rétt með að verðlauna Icesave sem viðskipti ársins rétt fyrir hrun.

Frábær ádrepa Sigurjón. Ég skil ekki hvað fólk er að velta þessu fyrir sér.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.4.2011 kl. 10:19

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha J'on   Ég vil frekar verðlauna hann fyrir áróðurinn sem hann fór með í sjónvarpinu, það varð sennilega áhrifaríkara en allar aðrar  fortölur og gerðist á nóinu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2011 kl. 10:25

5 Smámynd: Haraldur Baldursson

Nei, skilaði okkur fullveldi 1918.
Nei, skilaði okkur lýðveldi 1944.
Nei, skilaði okkur 200 mílna landhelgi 1976..............
Nei, forðar okkur frá þjóðargjaldþroti 2011 !!!

Haraldur Baldursson, 7.4.2011 kl. 20:23

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég held nú að Ásthildur sé með þetta hafi ég skilið hana rétt.

Árni Gunnarsson, 7.4.2011 kl. 23:40

7 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm Árni min þú skildir mig alveg hárrétt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.4.2011 kl. 01:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband