Leita í fréttum mbl.is

Að hafa alltaf réttast fyrir sér

Ekki fylgir því mikið erfiði að hafa alltaf réttast fyrir sér í opinberri umræðu ef talsmönnum viðkomandi sjónarmiða er einum hleypt að borðinu. Leikurinn ætti að vera enn auðveldari ef talsmennirnir sveipa sig fræðistimpli, vitna í rannsóknir og ég tala nú ekki um að vera gert kleift að komast algerlega hjá því að svara málefnalegri gagnrýni.

Framangreind staða er einmitt uppi hjá fiskihagfræðingunum í Háskóla Íslands sem stunda það trúboð að mikil hagkvæmni og þjóðhagslegur ábati fylgi framseljanlegum fiskveiðikvótum. Þrátt fyrir framangreint forskot er mikill efi í huga almennings um kvótakerfið. Margir gera sér grein fyrir því að kerfið hefur algerlega brugðist því upprunalega markmiði sínu að auka þorskaflann og sömuleiðis að fræðimennirnir sem átt hafa sviðið hafa verið kostaðir af sérhagsmunasamtökum sem hafa viljað vernda kerfið sitt.

Erlendir fræðimenn eru farnir í ríkari mæli að setja spurningarmerki við  trúarsetningar í fræðum Ragnars Árnasonar hagfræðings um að framseljanleg veiðiréttindi leiði sjálfkrafa til þjóðhagslegs ábata og ábyrgrar nýtingar fiskistofna. Bent hefur verið á hversu rýr röksemdafærsla liggi fyrir framangreindum fullyrðingum. Eftirlitskostnaður hefur vaxið mest hjá þeim þjóðum sem hafa gengið hvað lengst í að einkavæða réttinn til fiskveiða, s.s. Ný-Sjálendingum og Íslendingum. Ef ábyrgð hefði aukist hefðu umsvif Fiskistofu dregist saman í stað þess að blása út á sama tíma og fiskveiðar hafa minnkað.

Margir hægrimenn á Íslandi eru haldnir þeim misskilningi að kvótakerfið byggi á lögmálum frjáls markaðar þar sem samkeppni hvetur til aukinnar hagkvæmni í rekstri. Það er af og frá en kerfið einkennist mjög af fákeppni og stöðnun. Framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, Pétur Pálsson, viðurkenndi á fundi Samtaka atvinnulífsins þann 9. febrúar sl. að af 20 kvótahæstu útgerðum sem ráða yfir 84% kvótans séu aðeins tvö yngri en 30 ára. Varla þarf frekari vitnanna við um að kvótakerfið er lokað kerfi þar sem fákeppni ræður ríkjum. Allt tal um að megnið af veiðiheimildum hafi skipt um hendur  á síðustu árum er vægast sagt orðum aukið.

Sömuleiðis er allt tal um að það verði að festa núverandi kvótakerfi til langs tíma í sessi furðulegt í ljósi þess að í raun er með því verið að festa í sessi fákeppni og stöðnun í atvinnugreininni. Engu að síður felur kerfið í sér gríðarlega óvissu um framtíð heilu byggðarlaganna eins og sorgleg dæmin sanna þar sem byggðarlögin eru sett undir geðþóttavald handhafa veiðiheimildanna. Óvissa byggðarlaganna hefur falið í sér að fáir hafa treyst sér til þess að fjárfesta í fasteignum eða afleiddum atvinnurekstri sjávarbyggðanna og ekki hefur bætt úr skák stöðugur samdráttur veiðiheimilda frá því að kvótakerfið var tekið upp.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Helsti galli of margra sjálfstæðismanna felst í því hversu ógagnrýnumaugum er litið á stefnu forystunnar.
Það gríðarleg synd, því flokkurinn er að stærstum hluta til skipaður miklu sómafólki.
Það sem gerast þarf, ekki bara hjá xD, er að fólk fari að rýna í opinbera umræðu og láta sig mál varða. Í frelsinu sem við gerum kröfu til felst ábyrgð okkar til að verja það. Við verðum að veita stjórnvöldum, "fræðaheiminum" og allri almennri umræðu aðhald með því að leggja okkur eftir upplýsingum og með því að mynda okkur sjálfstæða skoðun á málum.

Haraldur Baldursson, 24.2.2011 kl. 19:53

2 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Þetta er vel orðað Sigurjón og á sannarlega erindi í umræðuna. Það er einstakt að heyra Sjálfstæðismenn tala upp kvótakerfið sem er eins og skrípi í stefnu flokksins og átti aldrei erindi þangað.

Maður hefur staðið á öndinni að lesa skrif Ragnars það er ekki heil brú í þeim skoðunum sem hann hefur verið að reyna að lýsa eins og hann skrifi af einhverjum öðrum kenndum en sannfæringu.

Ólafur Örn Jónsson, 24.2.2011 kl. 20:59

3 identicon

Ég vann í 24 ár hjá Háskólanum og bar í upphafi mikla virðingu fyrir akademíunni, sem auðvitað er að flestu leiti virðingarverð. En undir fyrirlestri hjá þessum hagfræðiprófessor varð mér þó ljóst að til eru háskólagengin fífl - jafnvel með doktorspróf.

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband