Leita í fréttum mbl.is

Vinkonan Ingibjörg Sólrún og Skagfirðingar

Skagfirðingar sem og margir íbúar landsbyggðarinnar eru í áfalli eftir að fjárlagafrumvarp Steingríms J. Sigfússonar var lagt fyrir þingið. Niðurskurði ríkisins á heilbrigðisþjónustu er einkum ætlað að bitna á starfsemi í hinum dreifðu byggðum og þá sérstaklega mikilvægri heilbrigðisþjónustu. Hér í Skagafirðinum er ætlunin að minnka fjárframlög næsta árs um 30% þrátt fyrir að stofnunin hafi mátt þola umtalsverða skerðingu í ár. Svipaða sögu er að segja af sambærilegum stofnunum hringinn í kringum landið; heilbrigðisstofnuninni á Húsavík er ætlað að skera niður um 40%, heilbrigðisstofnuninni á Ísafirði um 18% og Húnvetningar mega þola umtalsverðan niðurskurð þriðja árið í röð.  

Með fjárlagafrumvarpinu birtist ný stefnumótun stjórnvalda sem felur í sér að íbúar hinna dreifðu byggða fá stórskerta heilbrigðisþjónustu. Ný stefna stjórnarflokkanna hefur hvergi verið rædd eða þá farið í gegnum hvort sparnaður á t.d. Blönduósi eða Sauðárkróki verði ekki einungis til þess að kostnaður aukist á öðrum stað í heilbrigðiskerfinu. Sömuleiðis hefur ekki verið farið málefnalega yfir það hvernig ætlaður sparnaður muni færast á sjúklinga og verði þá mögulega til aukins samfélagslegs kostnaðar þegar heildardæmið er gert upp.

Ég er viss um að mörgum Skagfirðingum leikur, líkt og mér, forvitni á að vita um afstöðu stjórnarþingmanna landsbyggðarinnar til þeirrar nýju stefnu Guðbjarts Hannessonar að grafa sérstaklega undan heilbrigðisþjónustu í héraði. Það var því með ákveðinni eftirvæntingu sem ég opnaði grein Ólínu Þorvarðardóttur í héraðsvefnum Feykir.is undir fyrirsögninni Þverbrestur þingsins og vænti þess að fá fram afstöðu þingmannsins til þess máls sem brennur á Skagfirðingum. Ekki var því að heilsa að Ólína greindi frá sínum sjónarmiðum í blóðugum niðurskurði, heldur taldi hún sig eiga það brýnasta erindi við íbúa Norðurlands vestra að skýra í löngu máli frá því hvers vegna hún vildi koma vinkonu sinni Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hjá því að standa reikningsskil gjörða sinna fyrir landsdómi.
Löng og vandræðaleg varnargrein Ólínu á þessum tímapunkti sýnir svo ekki verður um villst hversu sjálfmiðaðir  þingmenn Samfylkingarinnar eru og eiga erfitt með taka á málum vegna vafasamrar fortíðar forystunnar, hvort sem það er skuldavandi heimila eða til að sýna sanngirni og skynsemi við niðurskurð á ríkisútgjöldum.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband