Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn er báknið

Í grein í Viðskiptablaðinu dags. 2 mars sl. fer Diljá Mist þingmaður Sjálfstæðisflokksins mikinn í að gagnrýna heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga landsins. Það væri að sjálfsögðu hið besta mál ef gagnrýnin væri málefnaleg í stað þess þá fer hún mikinn í að flytja ósannar tröllasögur um ósanngjarnar kröfur um fjölda vaska.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins virðist standa í þeirri meiningu að eftirlitin setji reglurnar og séu í stöðugu stríði við atvinnurekendur. Auðvitað er það ekki svo þar sem ráðherra setur reglur og starf okkar í heilbrigðiseftirlitinu fer að stórum hluta í að leiðbeina atvinnurekendum, en reynslan er sú að að 99% af rekstraraðilum vilja fylgja reglum, einkum þegar komið er að hreinlæti. Þessi barátta Sjálfstæðisflokksins gegn sóttvörnum og öryggi matvæla er því óskiljanleg vitleysa.

Í greininni boðar Diljá Mist að setja á svið leikþátt á Alþingi, þar sem hún spyrji ráðherra og vopnabróður út í þungt regluverkið. Málið er að Guðlaugur Þór umhverfisráðherra hefur ekki einfaldað hlutina en skrifaði t.d. sjálfur undir skráningarreglugerð nr. 830/2022 sem hefur þvælt gríðarlega leyfisveitingaferil fyrirtækja. Til að gæta fullrar sanngirni þá tók hann við drögunum að reglugerðinni frá forvera sínum en hefur ekki enn haft sig í að lagfæra reglugerðina þrátt fyrir umkvartanir minni fyrirtækja á borð við hárgreiðslustofur ofl.
Það væri ekki úr vegi að spyrja Guðlaug Þór í leiðinni út í hvers vegna hann lætur hjá líða að setja reglur sem tryggja betur en þær sem eru nú eru í gildi, að stórir olíugeymar séu vökvaheldir? Er Sjálfstæðisflokkurinn með einhverja götun á regluverkinu þegar komið er að stærri aðilum?

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að líta sér nær þegar komið útblásnu bákninu en til fámennra stofnanna sveitarfélaganna.  Nærtækara væri að skoða t.d. fjölgun ráðuneyta og óundirbúna uppstokkun þeirra. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar kostaði útþenslan og uppstokkunin gríðarlega fjármuni sem auk þess olli óskilvirkni í stjórnsýslunni.
Fjölgun hefur orðið á póltískum aðstoðarmönnum, sendiherrum, pólitískum skýrslugerðum hjá ráðgjafafyrirtækjum. Varla er til svo aum stofnun hjá hinu opinbera að þar sé ekki að finna á launaskrá fjölmiðla- og samskiptafulltrúa, sem sendir upplýsingar um ágæti stofnunarinnar til annað hvort ríkisfjölmiðils eða ríkisstyrktra fjölmiðla!

Barátta Sjálfstæðisflokksins gegn eigin gullhúðun tók á sig grátbroslegt yfirbragð demantsskreytingar. Í stað þess að það færi af stað vinna í hverju og einu ráðuneyti með að markmiði að taka í burtu reglugerðarvörtur á borð við framangreinda skráningarreglugerð, þá var auðvitað settur af stað nýr demantsskreyttur starfshópur.


Formaðurinn var sjálfur varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins - demanturinn Brynjar Níelsson og með sér til fulltingis hefur hann nokkra lögfræðinga utan úr bæ í stríðinu gegn eigin regluverki. 


Bloggfærslur 4. mars 2024

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband