Leita í fréttum mbl.is

Vg styrkir auðvaldið

Það er mjög áhugaverð grein eftir Þórarin Hjartarson í Morgunblaði dagsins um svikasögu Vg. Stálsmiðurinn frá Akureyri rekur í greininni hvernig Vg hefur gagnast erlendum lánardrottnum í hörðum innheimtuaðgerðum gagnvart íslenskri alþýðu og tvinnar það saman við hvernig Obama hefur brugðist friðarsinnum með auknum hernaði í Asíu.

Ég ætla að leyfa mér að grípa niður í grein Þórarins:

Úr ráðherrastóli breytti Steingrímur J. málflutningi sínum undurhratt, gagnvart AGS, í niðurskurðarmálum, Icesave, ESB umsókn m.m. Með mælsku sinni náði hann að leggja stefnu íslenska auðvaldsins og AGS fram sem stefnu félagslegra gilda.

og seinna í greininni segir:

Voldug ESB-ríki þröngva ólögmætum skuldbindingum upp á Ísland, beita fyrir sig AGS, en stjórnvöld mæta árásunum ýmist á hnjánum eða liggjandi. Við bjuggumst ekki við miklum landvörnum af hálfu ESB-óðrar Samfylkingar, en aumingjaskapur VG í málinu olli mörgum vonbrigðum. En ég bendi á að VG sveigir sig einnig hér að ríkjandi efnahagsstefnu íslensks auðvalds. Með ríkisstjórnum til hægri og vinstri hefur sú stefna allt frá 8. áratugnum verið mjög eindregin aðlögun að hnattrænu markaðs- og fjármálakerfi. Þess vegna eru íslenskt hagkerfi og stjórnmál mjög berskjölduð gagnvart þrýstingi frá „alþjóðakerfinu“, og ESB-hluta þess sérstaklega.

Það er greinilegt að Icesave-mál Steingríms geta orðið Vg mjög dýrkeypt, þ.e. ef flokkurinn snýr ekki strax algerlega við blaðinu. Það gæti eflaust snúist fyrir mörgum liðsmanni Vg að skipta um gír og berjast skyndilega fyrir hagsmunum þjóðarinnar. Ég er þó viss um að Steingrím munar ekki um að taka enn einn viðsnúninginn enda hefur hann tekið þá marga á síðustu mánuðum. 


Dindill LÍÚ var á fréttavakt Stöðvar 2 í kvöld

Stöð 2 hefur að undanförnu fjallað með furðulegum hætti um svokallað skötuselsfrumvarp sem felur í sér smávægilegar breytingar á umdeildri fiskveiðilöggjöf.  

Í stað þess að Stöð 2 hafi sett málið í samhengi við hvort breytingin kæmi á móts við jafnræði þegnanna og álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um brot á á atvinnuréttindum sjómanna, þá hafa lagabreytingarnar verið matreiddar eftir uppskriftum úr kokkabók LÍÚ.

Í kvöld var kynntur til sögunnar aflakóngur smábáta, Arnar Þór Ragnarsson, sem tók það sérstaklega fram einhverra hluta vegna að hann hefði ekkert á móti Pólverjum. Boðskapur Arnars var í stuttu máli sá að örlitlar breytingar á stjórn fiskveiða í átt til álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna fæli í sér gríðarlegt óréttlæti og óhagkvæmni.

Fréttamaður Stöðvar 2 sá ekki ástæðu til þess að draga þá staðreynd fram að útgerðarfélagið Nóna sem gerir út aflatrillu aflakóngsins hefur að sögn Fréttablaðsins ekki verið rekið með hagkvæmari hætti en svo að félagið stóð í sérstökum viðræðum við banka vegna ofurskuldsetningar tveggja trilla félagsins. Skuldirnar námu í lok árs 2008 5,3 milljörðum króna en félagið tapaði á því ári 2,5 milljörðum. 

Félagið Skinney-Þinganes á 98% hlut í útgerðarfélaginu Nónu en það er vel hægt að rökstyðja að það félag hafi í gegnum tíðina notið pólitískra tengsla við útfærslu reglna við stjórn fiskveiða. 

Stöð 2 sá enn og aftur enga ástæðu til þess að taka það fram að breytingunum er ætlað að mæta breyttu veiðimynstri og auka veiðiheimildir hér fyrir norðan og vestan.

Stöð 2 fjallaði heldur ekki um að það er ekki verið að taka veiðiheimildir af neinum heldur auka þær og aukningin mun skila þjóðarbúinu tekjuaukningu í erlendum gjaldeyri upp á vel á annan milljarð króna árlega og beinar tekjur ríkisins aukast um 240 milljónir króna.

Mér finnst þessi fréttaflutningur með ólíkindum og ekki síður að enginn fjölmiðill skuli fjalla með gagnrýnum hætti um forsendur kvótakerfisins sem átti að skila auknum afla. Eftir áralanga stjórnun með aflakvótum er niðurstaðan endalausar deilur, brottkast og síminnkandi afli. Þorskaflinn nú er rétt um þriðjungurinn af því sem hann var fyrir daga kvótakerfisins og meira að segja einungis helmingurinn af því sem hann var á árabilinu 1918 til 1950.


Bloggfærslur 19. janúar 2010

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband