Leita í fréttum mbl.is

Trúboði á ÍNN kynntur sem hlutlaus sérfræðingur á RÚV

Omega og ÍNN eru forvitnilegar sjónvarpsstöðvar og áhorfendur velkjast ekkert í vafa um það á hvaða stefnumiðum stjórnendur róa, hvort sem um er að ræða Eirík Sigurbjörnsson eða Ingva Hrafn Jónsson. Mér finnst að það eigi að gera aðrar kröfur til ríkismiðilsins, m.a. út af nefskattinum til hans, að ég tali nú ekki um vegna þeirra krafna sem koma fram í lögum um Ríkisútvarpið ohf. um að gæta ,,fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð" og ,,veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga fréttaþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða" (II. kafli, 3. gr.).

Mér fannst í nokkuð einhliða umfjöllun RÚV áðan skorta nokkuð á fagmennsku þá sem ÍNN og Omega gera sig venjulega ekki sekar um, þ.e. þær stöðvar koma til dyranna eins og þeir eru klæddar. Helsti ,,hlutlausi" sérfræðingur RÚV um áhrif aðildar Íslands að ESB var enginn annar en Aðalsteinn Leifsson sem hefur birst með síbyljuáróður í gervi upplýsinga á ÍNN-sjónvarpsstöðinni.

Dagskrárgerðarmönnunum var vissulega vandi á höndum við gerð þáttarins sem fjallaði um víðtæka hagsmuni þjóðarinnar á hálfri klukkustund. Þeim er vorkunn. Það kom mér þó á óvart hve hátt undir höfði skógarhöggsiðnaðinum var gert.


Ríkisstjórnin lætur undan þrýstingi

Það er algjörlega óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ætla að taka Icesave-málið út úr nefnd á svo viðkvæmu stigi. Ríkisstjórnin er augljóslega að láta undan útlendum þrýstingi, s.s. hollenska utanríkisráðherrans. Það er eftirtektarvert að þingmenn Samfylkingarinnar virðast vera æstir í að samþykkja þetta sem allra fyrst, en þeir hafa sjálfir samviskubit yfir sofandahætti sínum á meðan Icesave-æxlið óx. Þeir virðast vera reiðubúnir að láta þjóðina og komandi kynslóðir blæða.

Þingmenn Vinstri grænna virðast sumir hverjir ekki átta sig á málinu og hafa jafnvel látið sig hverfa á sjóinn eða annað þegar málið er til umfjöllunar.

Það grátlegasta í stöðunni er að þeir sem bera mestu ábyrgðina á hruninu og sátu ekki einungis við spilaborðið heldur útdeildu spilapeningum og tóku jafnvel til sín líka - drjúgur hluti af þingflokki Sjálfstæðisflokksins - standa nú ásakandi með vísifingurinn reiddan og benda af offorsi á þá sem ætla nú að fara leiðina sem þeir stungu sjálfir upp á í október.

Þjóðin á betra skilið, m.a. að farið sé gaumgæfilega yfir stöðuna, og mörg hundruð milljarða ábyrgð rædd í þaula. Liðið sem grét sig inn á þing og þóttist öllu ætla að bjarga ætti að sjá sóma sinn í að mæta í vinnuna.


Bloggfærslur 22. júlí 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband