Leita í fréttum mbl.is

Óábyrgur formaður Framsóknarflokksins

Það er furðulegt að fylgjast með formanni Framsóknarflokksins en það er engu líkara en að hann vilji magna upp deilur Íslendinga og Breta. Staðreyndin er sú að við höfum ekkert alltof góðan málstað að verja með Icesave-reikningana sem ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks leyfðu Landsbankanum að vaða uppi með.

Bretland er eitt mikilvægasta markaðsland fyrir íslenskar sjávarafurðir og það eru hagsmunir Íslendinga að tóna deilurnar niður og semja síðan við Breta um eitthvað sem við ráðum við. Það er útséð að við getum ekki borgað allt Icesave-dæmið og það er hagur beggja landa að ná lendingu.


mbl.is Íhugi slit á stjórnmálasambandi við Breta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Davíð hnýtti snöruna

Það var skemmtilegt og að mörgu leyti fróðlegt að lesa bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi. Hún er afrakstur rannsóknarvinnu en er stundum skrifuð í kjaftasögustíl og mikið gert með orðróm og sögusagnir. Kannski verður ekki hjá því komist. Í bókinni rekur hann aðdraganda bankahrunsins og kreppunnar og fer síðan yfir hamfarirnar og eftirleikinn sem fylgdi.

Ég tek undir með höfundi, að Davíð Oddsson muni eigi stóran þátt í hruninu en hann hnýtti sem forsætisráðherra og æðsti ráðamaður þjóðarinnar ásamt öðrum ráðamönnum snöruna sem hann hengdi íslenskt efnahagslíf í, og viðbrögð hans í kjölfar hrunsins voru að mörgu leyti krampakennd eins og Ólafur tíundar nokkuð nákvæmlega. Mér finnst ýmsar aðrar ályktanir sem höfundur dregur oft og tíðum grunnhyggnar, s.s. að fullyrða að bankarnir hafi verið neyddir til að taka sér stöðu gegn íslensku krónunni vegna þess að þeir fengu ekki að gera upp í evru. Það er af og frá og hefði engu breytt. Það má færa fullgild rök fyrir því að það hafi verið nokkuð ljóst hvert stefndi um mitt ár 2007 þar sem umræðan var þá þegar orðin hávær um að bönkunum gengi illa að fjármagna sig með auknu lánsfé.

Davíð Oddsson og ráðamenn hér heima höfðu með útrásarliðinu harðsnúið klapplið sem blés á alla gagnrýna umræðu innanlands og gerði fallið miklu hærra fyrir íslenskt efnahagslíf og særði þjóðina þar af leiðandi miklum mun dýpra sári en hefði þurft að gera. Mér finnst Ólafur gera fullmikinn greinarmun á Davíð Oddssyni og öðrum sérfræðingum Seðlabankans. Auðvitað er eðlilegt að helstu hagfræðingar bankans sem hafa að mestu þagað þunnu hljóði reyni að gera meiningarmun sinn og Davíðs meiri þegar Davíð er fallinn í ónáð og bankinn hruninn. Menn eru að bjarga eigin skinni og gera sitt ýtrasta til að fjarlægjast Davíð og allt það sem hann stóð fyrir. Sömuleiðis er furðulegt að ætla að einhver björgunarleið hafi verið fyrir bankana í október 2008 eins og Ólafur gefur í skyn, hann ýjar að því að einhver önnur viðbrögð en Seðlabankinn sýndi hefðu getað afstýrt ferlinu.

Bankarnir voru dauðadæmdir, gátu ekki fjármagnað sig og höfðu skrúfað upp eignastöðu sína með því að kaupa í sjálfum sér á yfirverði og slá svo lán í sjálfum sér á yfirverði. Þetta gat ekki gengið upp. Mér finnst þann skugga bera á bókina að höfundir gerir lítið úr svikabrellum, eins og þegar Arabíufursti keypti að nafninu til stóran hlut í bankanum.

Höfundur nær sér stundum á strik með líkingamáli úr veiði á laxfiskum sem er vel við hæfi í umfjöllun um mesta flottræfisrugl sem um getur í sögu þjóðar.


Bloggfærslur 9. maí 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband