Leita í fréttum mbl.is

Einar Kristinn einstaklega flinkur í vitleysunni

Einar Kristinn skrifar bloggfærslu í dag þar sem skín í gegn reiði og svekkelsi yfir að innlendir fjölmiðlar skuli ekki sýna einhverri vitleysisgrein um íslenskan sjávarútveg og góðan árangur kvótakerfisins í Economist meiri áhuga en þeir gera. Það hefði eflaust mátt skilja þessa gremju sjávarútvegsráðherra ef ekki hefði verið tekið viðtal við hann í gær þar sem hann sagði að nauðsynlegt væri að fella niður skuldir í íslenskum sjávarútvegi - þeim hinum sama og byggði á svo einstaklega góðu kerfi.

Þeir sem hafa fylgst með Einari vita að hann er snöggur að skipta um skoðun. Skömmu fyrir kosningar hefur hann vanalega barist gegn kvótakerfinu en eftir að hann er tryggilega kominn með þingsæti er hann skyndilega hlynntur því. Fyrir nokkrum vikum var hann harður andstæðingur Evrópusambandsins - nú er hann á góðri leið með að verða harður fylgismaður.

Hvaðan skyldi Economist hafa fengið upplýsingar í þessa furðulegu grein, hverjir veittu upplýsingarnar? Þorskafli Íslands hefur vart verið minni í heila öld. Mér finnst ekki ólíklegt að leitað hafi verið upplýsinga hjá Ólafi Klemenssyni, mótmælanda mótmælanna og hagfræðingi Seðlabankans, og Ragnari Árnasyni hagfræðingi sem er álíka snjall og sjálfur Sölvi Helgason.

Ragnar fann út að vegna góðrar stöðu þjóðarbúsins í fyrra væri rétt að hætta þorskveiðum í líklega þrjú ár til þess að fá enn meiri þorskafla einhvern tímann seinna. Það er hins vegar búið að reyna þau niðurskurðarfræði með þeim árangri að þorskafli er með minnsta móti. Þetta eru ráðleggingar hagfræðingsins þvert á viðtekna vistfræði.

Nú verður spennandi að sjá í blöðunum á morgun hvort Einari Kristni hefur tekist að gráta út einhverja umfjöllun um þessa fáránlegu grein í Economist.


Eina vörn Íslands gegn Johnsenunum í Sjálfstæðisflokknum er að kjósa í vor

Eina vörn landsins gegn því að Johnsenarnir í Sjálfstæðisflokknum nái að afskrifa skuldir á flokksfyrirtækin er að kosið verði í vor. Ef boðað verður til kosninga munu ráðamenn ekki þora að fara í víðtækar og umdeildar afskriftir eins og Árni Johnsen og Einar K. Guðfinnsson hafa boðað í dag. Þá þyrftu stjórnmálamenn að hafa hreint borð og leggja fyrir þjóðina einhverja áætlun um  hvernig eigi að fara út úr vandanum og tryggja að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Það er hróplegt rugl sem Einar býður upp á, að afskrifa skuldir sjávarútvegsins. Ég reikna með að eitt þeirra fyrirtækja sem lúra efst í kollinum á honum sé sjávarútvegsfyrirtæki í Bolungarvík sem er í eigu sama aðila og á hið fræga félag Stím en það skuldar hátt í 20 milljarða skv. yfirlýsingu forráðamanna félagsins. Það er miklu nær að fá uppstokkun í sjávarútveginn og að nýir aðilar komi að rekstrinum í stað þeirra sem hafa skuldsett allt upp í rjáfur og ætla svo þar að auki að láta skuldirnar falla á þjóðina og halda svo áfram eins og bindishnúturinn hafi aldrei losnað.

Sérhagsmunaklíkurnar í Sjálfstæðisflokknum reyna með öllum ráðum að komast hjá kosningum í vor og eru í þeim tilgangi tilbúnar til að gera hvað sem er, ganga í Evrópusambandið og jafnvel þar með að kljúfa flokkinn.


Bloggfærslur 5. janúar 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband