Leita í fréttum mbl.is

Bjarni Ben. dregur lappirnar

Það er greinilegt að Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, hefur mjög vondan málstað að verja þegar hann tekur þá afstöðu að meina þeim sem sæti eiga í allsherjarnefnd Alþingis að sjá gögn sem heyra undir nefndina.

Nefndarritari allsherjarnefndar hefur ítrekað neitað að afhenda mér gögn og er sú ákvörðun tekin í samráði við formann nefndarinnar. Ég óskaði strax eftir skriflegri skýringu á þessari ólýðræðislegu ákvörðun og mátti mér skiljast að ritarinn ætlaði að hafa samráð við formann nefndarinnar um gerð þess rökstuðnings. Hann hefur ekki ennþá komið. Ef hann kemur verður hann ábyggilega tímamótaplagg í lögfræðilegri vitleysu.

Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða og formaður allsherjarnefndar er kominn í mjög þrönga stöðu. Það sést best á því að hann neitar að mæta í fjölmiðla og ræða málið og getur ekki rökstutt skriflega þau fáheyrðu vinnubrögð að nefndarmaður fái ekki að sjá gögn sem heyra undir þá nefnd sem hann situr í.

Þetta sýnir að það er ekki seinna vænna að skipta um ríkisstjórn. Þessir flokkar hafa setið allt of lengi og eru orðnir eins og heimaríkir hundar og líta svo á að lýðræðið sé ekki til fyrir fólkið heldur bara flokkana.


VG viðkvæmir fyrir umræðu um sjávarútvegsmál

Frambjóðendur Frjálslynda flokksins hafa mátt sæta ýmsum rangfærslum og útúrsnúningum á þeirri stefnu flokksins að ætla að sporna við óheftu flæði  erlends vinnuafls.   Í þeim útúrsnúningum hafa frambjóðendur VG í Norðausturkjördæmi gengið ótrúlega langt.

 

Ætla mætti að þeir sem fara út fyrir allt velsæmi í að gera fólki upp skoðanir í tengslum við skynsamlega stefnu Frjálslynda flokksins í vinnumarkaðsmálum gætu tekið rökstuddri gagnrýni á stefnu sína eða réttara sagt stefnuleysi sitt í sjávarútvegsmálum.

 

Á fundi í Tjarnarbæ í Ólafsfirði spurði ég hvað aðrir stjórnmálaflokkar, þar með talið  VG, væru að meina með byggðastefnu ef þeir ætla ekki að breyta þessu kvótakerfinu sem eyðir byggðinni skipulega.

 

Sannleikanum verður hver sárreiðastur. Einn frambjóðandi VG brást mjög illa við þessari rökstuddu gagnrýni minni á stefnuleysi og vondar tillögur VG í sjávarútvegsmálum og missti sig í eitthvert tal um óábyrga stefnu Frjálslynda flokksins. 

 

Hvað hefur núverandi stefna í sjávarútvegsmálum sem VG ætlar að hlaupa undir bagga með fært íbúum Fjallabyggðar? Nú búa 500 færri íbúar í Fjallabyggð en gerðu samtals í Ólafsfirði og Siglufirði fyrir  áratug síðan. Íbúar nú væru á fjórða þúsund ef íbúaþróun hefði verið hér með sama hætti og annars staðar á landinu -  í stað liðlega 2.200.

 

Þetta er staðreyndir málsins og einnig að Frjálslyndi flokkurinn hefur skynsamar og raunhæfar breytingar á kvótakerfinu sem munu færa byggðunum atvinnurétt sinn á ný.

 


Bloggfærslur 1. maí 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband