Leita í fréttum mbl.is

Neytendafrömuðurinn Björgvin Sigurðsson

Björgvin Sigurðsson talar mikið, svo mikið að hann virðist vera á góðri leið með að kjafta sjálfan Jóhannes Gunnarsson hjá Neytendasamtökunum í kaf. Ég fagna því að sjálfsögðu að lagðar verði auknar áherslur á neytendamálin og hef þá trú að það sé best gert með því að styðja hæfilega við bakið á samtökum á borð við Neytendasamtökin í stað þess að stofna ný og ný embætti.

Þegar litið er yfir það hverju Björgvin hefur komið í verk á þeim skamma tíma sem hann hefur verið ráðherra stendur einungis eitt mál upp úr, bráðabirgðalögin um raflagnir á Keflavíkurflugvelli.

Björgvin hefur látið dæluna ganga viðstöðulítið um hin og þessi mál. Nú í dag lýsti hann yfir vandlætingu á ákvörðun gamla Búnaðarbankans sem ég tek heils hugar undir með honum. Björgvin bætti við að hann hefði áhyggjur af áhrifum hennar á fasteignamarkaðinn. Ég tel rétt að Björgvin íhugi einnig nú áhrif innistæðulausra yfirlýsinga sinna um afnám stimpilgjaldsins.

Daginn eftir þá digurbarkalegu yfirlýsingu viðskiptaráðherra gerði fjármálaráðherra lítið úr þeim orðum að til stæði að afleggja umræddan skatt. Fólk sem stendur frammi fyrir fasteignakaupum er hálfringlað og örugglega hafa einhverjir velt því fyrir sér hvort rétt væri að fresta viðskiptum þangað til búið væri að afnema stimpilgjöldin.

Ég ræð viðskiptaráðherra það heilt að láta framvegis verkin tala.


Má ekki sannreyna kenningar Hafró?

 Tilraun reiknisfiskifræðinnar sem unnið hefur verið með sl. tvo áratugi við að byggja upp þorskstofninn hefur ekki gengið eftir og er rækasta sönnun þess sú að þorskveiðar á yfirstandandi fiskveiðári verða innan við þriðjungur af því sem þær voru áður en uppbyggingarstarfið hófst. Kenningarnar sem forsendur uppbyggingarstarfsins hvíla á eru að því fleiri þorskar sem hrygna þeim mun hærri ættu lífslíkur seiða að vera eða þá að lífslíkur þorskseiða séu alltaf þær sömu og með því að fjölga hrygnum með minnkuðu veiðihlutfalli fáist meiri nýliðun.

Umdeildar kenningar

Þessar kenningar hafa verið umdeildar alla tíð þar sem þær ganga í berhögg við viðtekna vísindalega vistfræði. Forspá reiknisfiskifræðinnar um nýliðun í nánustu framtíð hefur ekki gengið eftir en samt sem áður skirrast þeir sem vinna í þessum reikningum ekki við að reikna stofnstærðir og nýliðun áratugi fram í tímann. Ekki er nóg með að tilraunin við uppbygginguna hafi mistekist og forspárgildi kenninganna sé ekkert, heldur styðja niðurstöður annarra athugana og rannsókna Hafró alls ekki heldur við þá kenningar reiknisfiskifræðinnar sem er þó unnið eftir. Ég á þá við niðurstöður fiskmerkinga og nú nýlegar niðurstöður um át hrefnunnar á þorski. Fréttir bárust af því að 7% af því sem hrefnan innbyrti væri þorskur en hver hrefna étur um 400 til 500 kg á sólarhring. Þetta er gríðarlegt magn sem hún lætur ofan í sig þar sem hrefnurnar eru sagðar vera á fimmta tug þúsunda hér við land og dvelja hér um 200 daga af árinu. Samkvæmt framangreindum forsendum lætur hrefnan í sig um 300 þúsund tonn af þorski árlega. Viðmiðunarstofn þorsks í upphafi árs var metinn um 650 þúsund tonn en reiknisfiskiskifræðin gerir ráð fyrir að svokallaður náttúrulegur dauði sé fasti, þ.e. að 18% deyi árlega af öðrum orsökum en veiðum eða um 130 þúsund tonn af viðmiðunarstofni þorsks þessa árs.

Gengur ekki upp 

Það sér hver maður að það er ekkert samhengi í því að allur náttúrulegur dauði viðmiðunarstofns þorsks reiknist 130 þúsund tonn þegar rannsóknir sýna að hrefnan ein hámar í sig rúmlega tvöfalt það magn. Við afföll sem verða af völdum hrefnunnar bætist síðan það sem étið er af öðrum kvikindum og sjúkdómar auk sjálfsráns þorsksins. Þetta þorskabókhald reiknisfiskifræðinnar gengur með engu móti upp og er skýringin annað hvort sú að niðurstöður rannsókna á áti hrefnunnar á þorski sé kolröng eða þá hin, sem ég tel miklu líklegri, að mat á stofnstærð þorsks og náttúrulegur dauði sé stórlega vanmetið. Niðurstöður rannsókna á fiskmerkingum styðja að um verulegt vanmat sé að ræða á afföllum vegna náttúrulegs dauða af völdum hrefnunnar og annarra afræningja og að náttúrlegu afföllin séu í raun margfalt meiri. Að sama skapi gefa niðurstöður til kynna að veiðar hafi hlutfallslega mun minni áhrif en gert er ráð fyrir í reiknislíkönum sem unnið er með.

Stendur á brauðfótum 

Það er átakanlegt að íslensk stjórnvöld veiti engum fjármunum í athuganir eða tilraunir sem ganga út á að hrekja tilgátuna sem Hafró vinnur eftir þrátt fyrir að veigamikil gögn og sömuleiðis viðtekin vistfræði eins og áður segir gefi sterklega til kynna að tilraun Hafró standi á brauðfótum. Það er engu líkara en að það sé nánast komi í veg fyrir að niðurstöðurnar séu sannreyndar en það gengur þvert gegn vísindalegum vinnubrögðum. Eitthvað af fjármunum er veitt til rannsóknasetra en það virðist sem svo sé búið um hnúta að ekki verði raskað við grundvallarspurningum sem brýnt er að svara og hægt væri að gera með tiltölulega litlum fjármunum. Í stað þess er kröftum rannsóknasetra beint í önnur verkefni sem eru í sjálfu sér góðra gjalda verð, s.s. rannsóknir á beitukóng, sæbjúgum og kísilþörungum.

Greinin birtist í 24 Stundum 3. nóvember


Bloggfærslur 7. nóvember 2007

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband