Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

ESB-hvalrót Vinstri grænna

Það er vitað fyrir víst að eitt af því sem fylgir inngöngu í Evrópusambandið er að hvalveiðum verður hætt - sem ætti að vera hvalgulrót fyrir Vinstri græna. Það var annars merkilegt að fylgjast með fréttaskýringaþættinum á RÚV í gær þar sem Benedikt Jóhannesson og Eiríkur Bergmann iðkuðu ESB-trúboð sitt af kappi. Benedikt „upplýsti“ þjóðina um að þjóðin veiddi árlega um 2 milljónir tonna af sjávarfangi en raunin er sú að eftir áralanga „uppbyggingu“ fiskistofna er veiðin nær því að vera 1 milljón tonna.

Við missum yfirráð, sérstaklega í núverandi kerfi, yfir fiskimiðunum ef við göngum í ESB. Bretar sem eru auðvitað margfalt áhrifameiri en Íslendingar reyndu að reisa skorður við eignarhaldi Spánverja á breskum útgerðum og setja kvaðir við löndun afla innan breskrar lögsögu, þ.e. að afla yrði landað innan hennar, en Bretum varð ekkert mjög ágengt. Íslenskar útgerðir hafa nýtt sér EES-samninginn og sópað upp úthafsveiðikvóta annarra þjóða, s.s. Breta og Þjóðverja, og það hefur þótt merki um hraustlega útrás fyrirtækja á borð við Samherja. Það væri algert stílbrot og í raun furðuleg krafa ef Íslendingar ætluðu að banna öðrum það sem þeir leyfa sjálfum sér.


mbl.is Þrjár útgerðir fengu hrefnuveiðileyfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparimerkjagifting Steingríms og Jóhönnu

Að afloknum kosningum er komið í ljós að fyrirheitin sem gefin voru fyrir kosningar voru bara um hagkvæmnissamband til að komast í gegnum kosningarnar sjálfar. Trúlofun Jóhönnu og Steingríms var bara eins og sparimerkjagiftingarnar forðum, stofnað til hennar í hagkvæmnisskyni til að leysa út verðmæti. Nú voru kosningaúrslitin verðmætin.

Ég hef enga trú á því að meðan ástand mála er eins og það er sé meginmálið Evrópusambandið. Miklu stærra mál er að leysa úr ríkisfjármálum, ná niður vöxtum og koma í veg fyrir að fólk hlaupi frá skuldum sínum. Stjórnvöld hafa á síðustu mánuðum sett mörg hundruð milljarða í að bjarga sparifjáreigendum en yngra fólkið er skilið eftir með skuldaklafa sem engir aðrir en frjálslyndir lögðu fram tillögu um hvernig mætti leysa með afnámi verðtryggingarinnar og lækkun vaxta, að því að ógleymdu að auka tekjurnar.

Það kæmi mér ekki á óvart að Steingrímur og Jóhanna hlypu hvort frá öðru rétt eins og ófá dæmi voru um af fólki sem var búið að eyða öllum merkjunum sínum.


mbl.is Stjórnarsáttmáli í smíðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagfræðistóðið á 1. maí

 Í skugga hrunsins gengur verkalýðshreyfingin núna fram með kröfu um réttlátara samfélag. Menn vilja gera upp sakir við þá sem bera ábyrgð á hruninu, s.s. útrásarvíkinga, keypta fjölmiðlamenn og stjórnmálastéttina sem var meira og minna á víkingajötunni. Björgvin G. Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Illugi Gunnarsson rifu í sig úr jötunni.

 Hins vegar hefur lítil umræða enn sem komið er beinst að verkalýðshreyfingunni sjálfri en hún hefur lent í klónum á hagfræðingagengi, mönnum eins og Ásmundi Stefánssyni sem fjarlægði orðræðuna frá venjulegu launafólki, gerði hana illskiljanlega, og valsaði síðan úr hreyfingunni, var m.a. ríkissáttasemjari, og inn í banka og sjóði.

 Hagfræðingarnir hjá ASÍ voru í samkrulli með leppum stórfyrirtækjanna og útrásarvíkinganna í fjáfestingum í fyrirtækjum sem greiddu ofurlaun og ástunduðu vafasama viðskiptahætti eins og komið hefur á daginn. ASÍ tók aldrei kröftuglega undir tillögur til breytinga á kvótakerfinu sem markaði upphaf hrunsins fyrir meira en 20 árum, hefur lagt heilu sveitirnar í rúst og brýtur í bága við mannréttindi. Hagfræðingarnir hjá ASÍ trúðu á að kerfið væri forsenda hagræðingar og uppbyggingar fiskistofna og hafa ekki hleypt í gegn málefnalegri umræðu, hvað þá uppbyggilegri gagnrýni.

 Það verður fróðlegt að fylgjast með ræðu Gylfa Arnbjörnssonar á eftir og sjá hvort hann misnotar aðstöðu sína og hvetur til inngöngu í Evrópusambandið en með því grefur hann undan fjölda starfa í sjávarútvegi og úrvinnslu í landbúnaði. Það er glapræði að ætla að ganga í Evrópusambandið og boða það með núverandi kerfi í sjávarútvegi sem gerir skuldugum fyrirtækjum sem vart eru rekstrarhæf kleift að selja fiskimiðin úr landi.

 Núna, 1. maí 2009, á baráttudegi verkalýðsins, er tímabært að byggja réttláta launaþegahreyfingu. Minna má það ekki vera. Mér finnst Vilhjálmur Birgisson vera trúverðugur leiðtogi sem hreyfingunni veitti ekki af að fá í alfremstu röð sína. Stefna hagfræðinganna var alltaf andvana fædd, við þurfum menn sem koma úr grasrótinni, Vilhjálm Birgisson sem hefur staðið fyrir mikilli tiltekt í Verkalýðsfélagi Akraness.

 Megi baráttan lifna og lifa. Til hamingju með daginn.


mbl.is „Sannleikur grundvallaratriði"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband