Leita í fréttum mbl.is

Tvö kjaftshögg í dag

Íslendingar fengu tvö kjaftshögg í dag. Annað var frá útrásarvíkingunum okkar sem stjórnmálastéttin hossaði lengi vel en Icesave-reikningurinn sem sendur er skuldugum heimilum hljóðar upp á 8 milljónir fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Hitt höggið var hið árlega kjaftshögg frá Hafró en þjóðin hefur verið löðrunguð árlega um nokkurra áratuga skeið með svörtum skýrslum. Fyrsta svarta skýrslan leit dagsins ljós árið 1974 þar sem boðskapurinn var að ef veitt yrði minna fengist 450 þúsund tonna jafnstöðuafli innan örfárra ára. Frá því upp úr 1950 og fram á áttunda áratug síðustu aldar var veiðum ekki stjórnað á Íslandsmiðum og var aflinn á þeim árum að meðaltali ríflega 440 þúsund tonn. Á þessu árabili sveiflaðist aflinn mjög eða úr 350 þúsund tonnum í 550 þúsund tonn. Markmiðið með boðaðri stjórnun var að komast hjá þessum gífurlegu sveiflum og fá rómaðan jafnstöðuafla.

Núna, liðlega þremur áratugum síðar, er boðskapurinn ennþá sá sami, þ.e. að ef minna er veitt af þorski muni fást meira úr hafinu síðar. Eini munurinn er sá að núna er aflinn um 160 þúsund tonn en árið 1974 var hann 375 þúsund tonn og markmiðið nú er nokkuð lágstemmdara, þ.e. í stað 450 þúsund tonna er það núna 300 þúsund tonna afli ef skorið er niður um 10 þúsund tonna afla.

Með vísindalegri ráðgjöf um enn einn niðurskurðinn fylgir að þorskurinn hefur nánast aldrei verið eins léttur og nú og er ofan í kaupið styttri en áður sem bendir eindregið til fæðuskorts. Það á sem sagt enn og aftur að reyna það sem áður hefur verið reynt, að vernda glorsoltinn þorsk.

Það er merkilegt að helstu fjölmiðlar landsins gleypa þessa steypu gagnrýnislaust og hleypa engri líffræðilegri gagnrýni að.


mbl.is Hækkar um 37 milljarða árlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Ég legg til að Hafrannsóknarstofnun verði lögð niður i sparnaðarskyni.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 6.6.2009 kl. 03:08

2 identicon

Hvað myndir þú sem líffræðingur leyfa mikinn þorskkvóta árið 2010 ef þú fengir að ráða?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 10:38

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Það á enginn að leyfa neinn kvóta eða gera framreikninga á aflabrögðum. Í reynd er það náttýran sem ákveður aflann ef menn hafa visku til að setja á fót kerfi sem nýtir það sem náttúran gefur -  þegar hún gefur. Svona kerfi er notað í Færeyjum, þar gengur baráttan út á að halda kerfinu óbreyttu, en vísindaklíkan vill stöðugt vera að skera niður. Ufsakvótinn við Ísland er 35 þús tonn, en Færeyingar veiða 65 þús tonn hjá sér - enginn kvóti. Verðhækkun ufsa hefur bætt þeim upp lækkun í þorski og ýsu. 

Jón Kristjánsson, 6.6.2009 kl. 11:25

4 identicon

Þið mynduð þá vilja ótakmarkaðar veiðar? Frumskógarlögmálið?

Er þá einhver þörf á að útskrifa fiskifræðinga?

Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 6.6.2009 kl. 20:35

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er rétt að breyta áherslum í náminu og leggja meiri áherslu á vistfræði.  Það er orðið löngu ljóst að þau líkön sem unnið er með eru alls ekki að ganga upp enda stangast þau á við viðtekna vistfræði.

Ég tel reyndar að reiknisfiskifræðin sé lent í öngstræti fagskrifræðis sem gengur út á að „sérfræðingar“ uppfræði og móti komandi nýliða í greininni sem munu síðan taka við keflinu og setja enn aðra nýliða á sama bás. Einn helst galli þessarar aðferðar er að ef menn hafa tekið snarvitlausan pól í hæðina í upphafi eins og er með reiknisfiskifræðina ungar vitleysan út enn meiri vitleysu.

Sigurjón Þórðarson, 6.6.2009 kl. 21:25

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Einhversstaðar stendur skrifað: "ÞETTA ERU ASNAR GUÐJÓN".

Jóhann Elíasson, 8.6.2009 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband