Leita í fréttum mbl.is

Sjómenn gerðir að glæpamönnum

Nú líður að sjómannadegi og þá er venjan að upphefja sjómenn svolítið, Rás 2 er með samkeppni í sjómannalögum og helstu ráðamenn stíga á stokk og tala um undirstöðu samfélagsins og mikilvægi sjómanna. Samt sem áður hafa þessir sömu menn látið hetjur hafsins búa við reglur sem glæpavæða stéttina, kvótakerfið hefur beinlínis hvatt til brottkasts og sjómenn eins og Níels Ársælsson sem hafa bent á það sem allir vita hafa hlotið þungan dóm.

Í vikunni rakst ég á ágætan kunningja minn, smábátasjómann, sem var á leiðinni fyrir dómara fyrir að hafa, að hans sögn, lagt tvo bala örlítið inn á friðuð svæði. Í þessari sömu viku las ég á ný frábæra bók eftir Ásgeir Jakobsson, Fiskleysisguðinn, sem kom út fyrir þó nokkrum árum þar sem hann fer rækilega í gegnum aðferðir og forsendur svokallaðrar fiskveiðiráðgjafar sem sjómaðurinn frá Skagaströnd braut gegn, þær hafa ekki gengið upp og geta ekki gengið upp. Staðreyndirnar tala sínu máli, þegar til stendur að veiða minna til að veiða meira seinna og markmiðið er 450.000 tonna jafnstöðuafli en árangurinn er þriðjungurinn af því sem lagt var upp er eitthvað ekki í lagi.

Ætli fiskni sjómaðurinn sem hefur verið drjúgur í gegnum tíðina við að afla þjóðinni gjaldeyris verði ekki að velta sömu spurningum fyrir sér og Sókrates forðum, hvort rétt sé að hlíta ranglátum dómi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Þetta er nú orðið ansi lúið "hetjur hafsins" með fullri virðingu fyrir sjómönnum. Hef aldrei lesið "hetjur sjúkrahúsa" enda kærum við okkur ekkert um slíkt titlatog. Sinnum bara vinnu okkar eftir bestu getu.

Finnur Bárðarson, 5.6.2009 kl. 11:28

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er a.m.k. mikill tvískinnungur stjórnvöld skuli leggja gríðarlega fjármuni í eftirlit með sjómönnum þ.e. margfalt meira en í fíkniefnalöggæslu á sama tíma og ráðamenn mæra störf sjómanna.

Sigurjón Þórðarson, 5.6.2009 kl. 11:40

3 Smámynd: Finnur Bárðarson

Sammála þér Sigurjón Það hljómar illa þegar talað er um sjómenn sem heild í þessu samhengi. En eins og dæmin sanna kemur dópið oft sjóleiðina, en bátsverja vil ég ekki kalla, sjómenn. Orðið sjómaður hefur ákveðna og góða skírskotun í hugum okkar.

Finnur Bárðarson, 5.6.2009 kl. 11:54

4 Smámynd: Haraldur Baldursson

Finnur.
Ég hygg að hetjur sé ekkert of stórt orð. Hjúkrunarfræðingar, flestir hverjir, leggja ekki líf sitt og framtíðarafkomu fjölskyldunnar undir þegar mætt er á vakt.

Haraldur Baldursson, 5.6.2009 kl. 14:58

5 identicon

guð minn hvað deyja margir sjómenn á ári? er viss um að hjúkrunarfræðingur sé líklegri til að drepast á leið í vinnu en sjómaður við störf.  þetta er þreytt með hetjur hafsins, laun sjómanna eru fáranlega há og þegar þú talar um að kerfið geri það að verkum að sjómenn hendi fisk þá ertu að fara með rangt mál.  það er fólkið sjálft sem ákveður glæpinn ekki kerfið. 

s (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 18:27

6 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæra S.

Störf á sjó teljast til hættulegustu starfa. Slysatíðni þeirra er mun hærri en í landi. Ég játa það að ég hef ekki tölur á reiðum höndum um fjölda dauðsfalla á ári. Það er þó sorglegt þegar sófasnillingar eins og þú hafa sötrað kaffið nógu lengi og nógu þægilega í gegnum árin til að geta leitt hjá sér þau fjölmörgu dauðsföll á sjó, og já mörg eru þau, í gegnum árin. Hvöt þín til að gera lítið út sjómönnum og störfum þeirra er sorgleg. Hjúkrunarfræðingar og nánast hvert það starfsfólk sem er á tilkall til virðingar. En gleymum samt ekki það er munur á því hvað lagt er undir. Hvað laun sjómanna varðar, þá eru þau alls ekki jafn há og af er látið. Það er flott að týna til þá sjómenn sem eru á aflahæstu skipunum og smyrja það yfir alla stéttina til að sigra í rökræðum, en hljómar samt eins og kaffihúsaspjall á 101. Og glæpavæðing sjómanna er grætileg þvæla fólks sem þekkir ekki nokkurn skapaðan hlut til starfans. Fáðu þér bara kaffibolla og helltu skoðunum þínum frekar á staði sem þú hefur vit og reynslu til.

Haraldur Baldursson, 5.6.2009 kl. 19:12

7 identicon

já haraldur, nú er það þannig að þú veist ekki hvort ég hafi vit eður ei.  sjómenn hafa of góð laun miðað við vinnu, puntur.  hvort sem þú þrætir fyrir það eða ekki þá er fáranlegt að sjá lið sem gerir ekki jack shitt með 2-3 millur í mánaðarkaup.   reyndu svo ekki að segja að ég þekki ekki til starfsins því ég geri það væntanlega mun betur en þú.

s (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 21:33

8 Smámynd: Haraldur Baldursson

Kæri S.

Á meðan þú felur þig á bak við nafnleynd ertu tryggur um að vera óþekktur áfram. Þangað til leyfi ég mér áfram að efast um getu þína og vit.

Haraldur Baldursson, 5.6.2009 kl. 23:32

9 Smámynd: Jóhann Elíasson

s, ef þú "þekkir" svona mikið til starfa sjómanna, hvernig stendur þá á því að þú berð svona mikið bull á borð fyrir okkur sem þó höfum unnið þessi störf.  Ef þú myndir taka til almennt tímakaup í landi þá sæir þú nokkuð snarlega að þessi laun sem þú talar um eru frekar lág.  Tökum sem dæmi 30 daga túr á frystitogara sem gerir 3 milljónir, vinnutíminn er 12 tímar á sólarhring ALLA daga vikunnar og það sem meira er maðurinn er líka á vinnustaðnum í frítíma sínum því eins og gefur að skilja þá getur hann ekkert farið.  Ert þú virkilega enn á því að sjómenn hafi of há laun?

Jóhann Elíasson, 5.6.2009 kl. 23:36

10 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Það er alveg kostulegt að lesa svona fullyrðingar eins og frá s. Það er nú bara svo að laun fiskimanna miðast út aflahluts kerfi og ef sjómaðurinn fengi minna þá fengi útgerðarmaðurinn bara meira. Vissulega geta laun fiskimanna verið góð jafnvel yfir tvær milljónir einstaka mánuði ef að vel fiskast en að slétta það út á alla mánuði ár eftir ár eins og þú gerir s er bara fyrra. En þegar illa veiðist eru launin líka fyrir neðan hungurmörk. Ég er búinn að vera til sjós í yfir 30 ár og verið bæði á aflaskipum meðalskipum og drullukoppum og ef ég myndi bera mig saman í launum þennan tíma við þokkalega góðan iðnaðarmann þá myndi sennilega halla á mig ef eitthvað er.

Þorvaldur Guðmundsson, 5.6.2009 kl. 23:44

11 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Hetjur hafsins og hermenn þjóðarinnar.Á Lýðvarpinu hefur einn ágætur fyrrverandi sjómaður og útgerðarmaður tönglast á þessum orðum síendurtekið nú hátt í þrjár vikur.Þetta er bull.Það er ekkert merkilegra við að vinna á sjó en hver önnur störf og gildir þá einu hvaða störf menn vinna um borð .það er heldur ekkert merkilegt við að að hafa verið á sjó í 50. 60 eða 70 ár. Menn velja sér þetta sjálfir.En því miður eru margir sjómenn eins og skipstjórinn, útgerðarmaðurinn og hægt væri að telja fleira upp, okkur finnst sjálfum svo óskaplega merkilegt að vera á sjó sem er bull.Gleðilegan sjómannadag Sigurjón.

Sigurgeir Jónsson, 6.6.2009 kl. 22:35

12 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ég gleymdi að taka það fram að laun sjómanna verða að sjálfsögðu aldrei of há, enda fer hagnaður útgerðar og sjómanns saman þegar vel fiskast.Þetta mun breytast þegar ríkið verður búiða að þjóðnýta veiðiréttinn með svokallaðri fyrningarleyð. Þá neyðast útgerðir til að segja hlutaskiptakerfinu upp og eftir það verða sjómenn á lúsarlaunum.

Sigurgeir Jónsson, 6.6.2009 kl. 22:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband