Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórar í vörn fyrir handónýtt kerfi

Í 10-fréttum birtust tveir bæjarstjórar á Austurlandi og héldu uppi miklum vörnum fyrir kvótakerfið í sjávarútvegi. Það má ætla að þau séu málpípur sérhagsmunaaflanna þar sem þau standa vörð um kerfi sem hefur leikið Austfirðina mjög illa. Réttast væri fyrir þessa ágætu bæjarstjóra áður en þau halda áfram í vörninni að velta fyrir sér hver skuldastaða austfirsku útgerðanna er núna og fyrir 10 árum, hver aflaverðmæti á föstu verðlagi eru nú og fyrir 10 árum, hver aldur togaraflotans er nú og fyrir 10 árum og hvort heimaaðilar ráði för í stærstu útgerðarfyrirtækjunum.

Þau ættu sömuleiðis að velta fyrir sér hvaða nýliðar eru á ferðinni í greininni og hvernig kerfið muni leika byggðirnar eftir 10 ár ef framtíðin verður með svipuðu sniði og þróun síðustu 10 ára.

Við í Frjálslynda flokknum höfum ekki verið sérstakir talsmenn fyrningarleiðarinnar sem er að ýmsu leyti gölluð, en teljum að það ætti að stórauka veiðar og auka frelsi almennt í greininni og sérstaklega í útgerð minni báta.

Bæjarstjórarnir sem um ræðir eru ekki þau einu sem eru að fara á taugum, heldur virðist blað allra landsmanna helga skrif sín sérhagsmunaöflum og kerfi sem skilar færri og færri fiskum á land. Er ekki orðið tímabært að skoða fleiri þætti en eignarhald, t.d. stjórnunina í grunninn? Hver maður sem eitthvað hefur á milli eyrnanna ætti að sjá að það er meira en lítið vafasamt að selja veiðirétt landshorna á milli, t.d. úr Breiðdalsvík í Breiðafjörðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góður pistill Sigurjón.

Allt satt og rétt.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 26.5.2009 kl. 01:06

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Þetta er sko  með ólíkindum að horfa og hlusta á ráðamenn sjávarbyggða koma fram hver af öðrum og halda því fram að það verði ekki veiddur fiskur á Íslandsmiðum ef kvótakerfinu verði breytt. Hvað er að þessu fólki? Flest þessara sjávarplássa eru á hausnum út af því að kvótinn var seldur í burtu. Nú er eg ekki beint meðmæltur þessari leið sem stjórnvöld eru  að boða, það á ekki að þurfa að  taka neitt af  neinum , sem eru að gera út í dag, þeir eru að gera það gott, að eigin sögn, þeir geta þá bara haldið áfram og veitt sinn kvóta. En núna þarf að bæta við c.a 30-40.000 tonnum, sem á að fara í nýliðun í gegnum vistvænar veiðar, og úthluta á sjávarplássin.

Bjarni Kjartansson, 26.5.2009 kl. 01:07

3 identicon

hafa bara ekki útgerðirnar á viðkomandi stöðum gert viðkomandi bæjarstjórnum ljóst að ef hreyft verður við kvótanum "þeirra" þá pakki þeir bara saman og fari ?og svo annað sem ég velti fyrir mér, bæjarstjórinn annar sagði að 90% kvótans hjá einu útgerðarfyrirtækinu á staðnum hafi verið keyptur ? hafa þá ekki einhverjir misst vinnuna þaðan sem hann var seldur ?

zappa (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 01:16

4 identicon

Þetta er eins og í Austur-Þýskalandi sáluga; fáum datt í hug að gagnrýna kerfið fyrr en það hafði verið lagt niður. 

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 09:14

5 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Það er alltaf gaman að lesa skrif fólks um kvótakerfið, flestir hafa mjög takmarkaða þekkingu á því og fleiri enn minni skilning.

Í fysrta lagi þarf fólk að gera ser grein fyrir því að útgerðirnar eiga ekki kvótann, en þær hafa nýtingarrétt. Þessi nýtingarréttur er mjög mikilvægur því hann skapar stöðugleika fyrir útgerðirnar. Ef hann væri ekki til staðar þá mundi enginn banki lána mönnum til fjárfestinga í skipum og við þyrftum að stofna Fiskveiðasjóð upp á nýtt, með tilheyrandi spillingu. 

Það er ekki rétt að kerfið standi í vegi fyrir nýliðun. Ef einhver vill hefja útgerð, þá kaupir hann sér bát og kvóta eða leigir kvóta. Flestir gera hvoru tveggja. 

Þetta á við um allar atvinnugreinar, ef maður vill verða tannlæknir þarf maður að mennta sig og kaupa svo tækin og síðan að ná sér í viðskiptavini. Ef maður vill reka flugfélag þá er það sama uppi á teningnum. 

Svo við skulum hætta þessu bulli um að kvótakerfið standi í vegi fyrir nýliðun í kerfinu.

Það sem þarf að laga í kerfinu er að gera veiðiráðgjöfina sveigjanlegri þannig að náttúran hafi meira um málið að segja en Hafro, svo menn geti landað þeim fiski sem veiðist og þurfi ekki að stunda brottkast. 

Þetta er hægt með því að úthluta mönnum þorskígildum en ekki einstökum tegundum. Menn geti svo veitt hvað sem þeir vilja og aflinn verður síðan reiknaður yfir í þorskígildi og dreginn frá úthlutuðu magni. Með þessu verður útgerð aldrei uppiskroppa með t.d. þorskkvóta, heldur klárast allur kvótinn í einu. Þar með þurfa menn ekki að leigja sér eina tegund til þess að geta veitt aðra.

Sem sagt engin ástæða til að leigja þorsk á 170 kr og landa honum svo á 150. Menn leigja þorskígildi t.d. á 120kr og geta veitt 1 kg af þorski eða 1,7kg af ýsu. Leigan fyrir ýsuna er þá 70 kr/kg. 

Að lokum vil ég benda mönnum á að hætta með skítkast og umræðu sem byggir ekki á neinum rökum og einbeita sér að því að koma með hugmyndir að lausnum. 

Sigurjón Jónsson, 26.5.2009 kl. 10:28

6 identicon

sigurjón jónsson nefndu mér EITT dæmi þess að banki hafi óskað eftir rekstraráætlun frá útgerð og öðru veði en í kvótanum sjálfum þegar þeir voru búnir að ljúga "eignarverðið"á óveiddum fiski uppí 4200 kr/kg ? ég sé að þú ert greinilega einn þeirra sem hafa mjög takmarkaða þekkingu og enn minni skilning á kvótakerfinu a.m.k. miðað við skrif þín um nýliðun innan greinarinnar,þú ættir að byrja að kynna þér aðsókn í stýrimannaskólann undanfarin ár, prófaðu svo að fara í næsta banka og byðja um lán fyrir bát og kvóta.fyrsta fyrirspurn bankans er "hverra manna ert þú væni"

zappa (IP-tala skráð) 26.5.2009 kl. 13:15

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

algerlega sammála þér Sigurjón, þetta voru afskaplega aum rök sem bæjarstjórinn á Seyðisfirði kom með

Óskar Þorkelsson, 26.5.2009 kl. 17:06

8 Smámynd: Rakel Sigurgeirsdóttir

Af hverju standa þessir ágætu bæjarstjórar upp núna og það til að verja þá sem telja sig eiga kvótann? Hvar hafa þessir menn verið hingað til? Ef þeir telja sig þurfa að verja einhvern af hverju hafa þeir þá ekki risið upp þjóðinni allri til varnar eða a.m.k. fyrir íbúa síns bæjarfélags til að gagnrýna aðförina að þeim? ... eigum við kannski frekar að tala um skeytingarleysið gagnvart kjörum þeirra?

Rakel Sigurgeirsdóttir, 28.5.2009 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband