Leita í fréttum mbl.is

Frambjóðandi Samfylkingarinnar spyr og svarar sjálfum sér

Frambjóðandi Samfylkingarinnar ber fram þá spurningu á opinberum vettvangi hvort Frjálslyndi flokkurinn sé á móti vistvænum veiðum. Í framhaldi af spurningunni vitnar viðkomandi í grein þar sem fram kemur að Frjálslyndi flokkurinn styður frjálsar handfæraveiðar, enda hefur flokkurinn borið fram tillögu þess efnis á Alþingi, ekki einu sinni heldur oft. Það sem frambjóðendur Frjálslynda flokksins gera sérgrein fyrir er að augljóst er að það er hægt að stórauka þorskveiðar á Íslandsmiðum. Það er sömuleiðis vægast sagt vafasamt að grauta saman veiðiheimildum handfærabáta og togveiðum eins og Samfylkingin virðist gera einhverra hluta vegna. Togveiðar hafa sjaldan eða aldrei verið minni en einmitt núna á miðunum í kringum Ísland.
Mig furðar nokkuð á því, en geri í sjálfu sér ekki athugasemd við það, að Þórður Már virðist skella upp úr í hvert sinn sem hann les grein eftir mig um sjávarútvegsmál, hvort sem er um ábyrgð Samfylkingarinnar á mannréttindabrotum eða þegar ég geri athugasemdir við að Samfylkingin sverti störf togarasjómanna. Hagsmunasamtök bæði íslenskra og erlendra sjómanna hafa séð ástæðu til að boða mig á fundi og biðja mig að halda erindi um stjórn fiskveiða og hvaða ástæða er fyrir því að fiskistofnar mælast minni eftir því sem minna er veitt. Skoskir og írskir sjómenn beittu sér fyrir því að ég, Jón Kristjánsson fiskifræðingur og Jørgen Niclasen, núverandi utanríkisráðherra Færeyja, héldum tölu í fiskveiðinefnd Evrópusambandsins fyrir nokkru.
Von mín er sú að frambjóðendur Samfylkingarinnar fari yfir þessi mál í alvöru, enda eru m.a. nýjar fréttir frá Færeyjum sem gefa skýrt til kynna að þorskstofninn sé á uppleið þrátt fyrir kröfu reiknisfiskifræðinga um að skera veiði niður um 50%. Það að auka veiðar núna þegar verulega kreppir að ætti að skoðast í fullri alvöru en ekki því glensi sem þjakar þennan frambjóðanda Samfylkingarinnar.
Í lokin er rétt að geta þess að ég sækist ekki eftir sæti á Alþingi vegna þess að ég sé á höttunum eftir þægilegri innivinnu, eins og frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi virðast telja. Ekki veit ég hvers vegna þeir telja að seta á löggjafarþinginu sé ávísun á eitthvert hóglífi. Þau ár sem ég sat á þingi lagði ég mig allan fram í vinnu og heiti fólki að gera það áfram ef tækifærið býðst.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Ben

Hvar stendur þú í þessu máli? Viltu breyta kerfinu eða ekki? Þú ferð út og suður og engin leið að átta sig á því hvert þú ert að fara. Í staðinn fyrir að vera að reyna að skíta út málflutning Þórðar Más, held ég að þú ættir frekar að reyna kynna þér betur hvað Samfylkingin vill gera.

Samfylkingin er búin að fara ýtarlega yfir þessi mál, sem dæmi, var svipaður fjöldi í sjávarútvegshóp á landsfundi Samfylkingar fyrir viku síðan og sat landsþing Frjálslynda Flokksins fyrir stuttu. Karlar og konur frá öllu landinu, breið samstaða var um að það væri lífsnauðsyn fyrir þjóðina að fá réttin yfir fiskveiðiauðlindinni aftur.

Það er aðalatriðið, þ.e. að skilgreina eignarhaldið, fiskveiðistjórnunina sem slíka  þarf einnig að skoða. Samfylkingin hefur, eftir því sem ég best veit, ekki lýst sig andsnúna aukinni sókn, það er ekki það sem er verið að taka á í samþykkt frá landsfundi sem heitir "Sáttagjörð um fiskveiðar" og má finna hér, heldur er fyrst og fremst verið að tala um að skilgreina eignarhaldið og hvernig má best færa þjóðinni yfriráðarétt yfir fiskveiði auðlindinni aftur.

Það er ljóst Sigurjón, að málfutningur þinn verður þér og þínum örflokk, (sem fyrrum félagi þinn Eiríkur Stefánsson, líkti við apaplánetuna í pistli á útvarpi sögu í gær) ekki til framdráttar.  Þar á bæ virðast menn reyna að klóra yfir ruglið og spillinguna með því að ráðast á frambjóðendur annara flokka og rífa niður skrif þeirra og stefnu um mál sem eru lífsnauðsyn þjóðinni og FF hefur mjóum rómi barist fyrir frá stofnun.

Að halda því fram að Samfylkingin sé að grauta saman handfæraveiðum og togveiðum er í besta falli barnalegt minn kæri Sigurjón, við erum á sama máli hér, þ.e. Samfylkingin vill gefa handfæraveiðar frjálsar eins og FF og helst hafa þær utan kvóta.

Samfylkingin hefur vilja, slagkraft og bolmagn til að gera e-ð í þessu réttlætismáli og afnema nútíma þrælahald auðvaldsins.

kv.

Einar Ben, 3.4.2009 kl. 23:00

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurjón.

Mín skoðun á því hver er og hefur verið athafnasamasti þingmaður þjóðarinnar sem sest hefur á Alþingi hefur ekkert breyst, en þar trónir þú númer eitt.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 3.4.2009 kl. 23:01

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Einar Ben, þessi "sáttagjörð um fiskveiðar" er bara lélegur "brandari" og marklaust kosningaplagg.  Ég bloggað aðeins um þetta bull, sjá hér, það var bara lítið sem ég skrifaði enda ekki réttlætanlegt að eiða miklu púðri í þetta kjaftæði.  Ef Samfylkingin hefur einhvern tímann viljað vera eitthvað þá hefur það mistekist alveg hrappalega.

Jóhann Elíasson, 4.4.2009 kl. 07:57

4 identicon

Góðan daginn.

Aftur er skautað framhjá raunveruleikanum og gildir einu hvort Guðjón Arnar eða Samfylking á í hlut: Það er fullreynt að opinberir aðilar valda ekki því hlutverki að úthluta veiðiheimildum.

T.d. er hugmynd um Auðlindasjóð ávísun á byggðaeyðingu. Hverjir myndu leigja af sjóðnum aflaheimildir? Jú, þeir sem hefðu efnin til þess eða aðgengi lánsfjár. Og hvaðan leigðust þær aflaheimildir? Líklegast þaðan sem efnin voru minni. Og hvert væri svo framhaldið annað en samþjöppun aflaheimilda á færri staði.

Við sem vinnum við kerfið í dag erum vafalaust ekki alsæl með það, en meiri opinber afskipti eru að mínu mati ekki til bóta, og má í því ljósi vitna til áralangrar reynslu af úthlutun byggðakvóta.

Með kveðju, Vilhj

Vilhjálmur Jónsson (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 08:27

5 identicon

Áður en farið ar að skíta út tillögur Frjálslyndra ættuð þið sem það gera að lesa ykkur svolítið til. Þar er áætlað að taka hlut af lönduðum afla og leggja í sjóð sem yrði síðan gerður upp svipað og gert var með Fiskveiðasjóð. Þannig að það yrðu þeir sem nenna að róa til fiskjar og leggja sig eftir því að ná árangri sem fengju að njóta aflareynslu sinnar en ekki þessir svokölluðu kvótakóngar. Enginn þyrfti að leggja út fyrir kvóta fyrirfram og enginn yrði að sæta afarkostum vegna okurkarla sem hirða arðinn af þeim sem nenna að vinna.

Pétur (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 16:04

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Einar Ben., mér finnst það vægast sagt mjög jákvætt að ágætur kunningi minn Eiríkur Stefánsson finni sig í Samfylkingunni og sé búinn að gefast upp á okkur öpunum í Frjálslynda flokknum eins og hann kýs að kalla okkur fyrrum félaga sína, ef marka má tilvitun þína í pistil flokksbróður þíns.  Ég missti því miður af pistli Eiríks.

Hvað varðar þá áráttu talsmanns Samfylkingarinnar að sverta togveiðar og telja þær sói á verðmætum og valdi gríðarlegum spjöllum þá hefði ég talið það vera réttara hjá Samfylkingunni að draga þær fullyrðingar til baka og biðjast afsökunar á þeim í stað þess að vera saka mig um útúrsnúninga.

Þetta eru orð frambjóðenda Samfylkingarinnar sem að mínu mati segja allt sem segja þarf um neikvæð viðhorf til togveiða en reyndar má tína fleira til:

Þá eru ótalin þau gríðarlegu verðmæti sem kastað er fyrir borð á togurum. Nýtingin á þorskinum er innan við helmingur af heildarþyngd á frystitogurum en hinu er hent í sjóinn þannig að einungis það verðmætasta er nýtt, hrikaleg spjöll á lífríki hafsins sem risavaxin trollin valda þegar þau eru dregin með gríðarþungum lengjum og hlerum á fullri ferð eftir hafsbotninum, auk mengunarinnar sem af þessu hlýst.

Sigurjón Þórðarson, 4.4.2009 kl. 20:01

7 identicon

Sigurjón. Ég er ekki hissa á því að Þórður hlæji að heimskulegum málflutningi þínum. Ég er búinn að fylgjast með orðaskiptum ykkar frá byrjun og það verður varla sagt annað en að þetta hafi verið fín skemmtun.

Þú toppar sjálfan þig enn einu sinni með þessari færslu. Það var kjarninn í grein Þórðar (þeirri sem þú ert nú að svara) að þú sért að tala á móti sjálfum þér með því að setja út á hugmyndir hans um vistvænar veiðar. Þess vegna vitnaði Þórður í fyrri greinaskrif þín þar sem þú dásamaðir áhrif þeirra. Þetta virðist þú ekki skilja frekar en margt annað. Það er hlægilegt að fylgjast með skrifum þínum sem eru pínleg. Þú ert hrakinn út í horn hvað eftir annað og hefur samt ekki vit á að hætta.

Þú þykist hafa áhuga á því að kvótakerfinu verði breytt. Það vita það allir sem hafa fylgst með Þórði að hann ætlar sér að koma á breytingum á kerfinu. Og það sést best af þeirri stefnu sem fékkst samþykkt á landsþinginu að þar fylgir hugur máli. Það eina sem þú getur hins vegar er að reyna að gera lítið úr málflutningi manns sem ætlar sér að koma á breytingum á kerfinu og hefur unnið í að fá gríðarlegan stuðning innan stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi til þess að koma á þeim breytingum. Þú ættir að hafa vit á því að beina málflutningi þínum að þeim sem eru á móti kerfinu.

En ég held að Þórður væri reyndar ekkert á móti því að taka á þér áfram. Mér sýnist að hann hafi góðan húmor fyrir svona jólasveinum eins og þér.

Bjarni Sig (IP-tala skráð) 5.4.2009 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband