Leita í fréttum mbl.is

Formaður Fiskifélagsins skammar sjómenn

Íslenskt þjóðarbú sárvantar erlendan gjaldeyri til þess að endar nái saman og hægt sé að standa við nýfengnar byrðar þjóðarbúsins vegna fádæma gáleysis stjórnvalda gagnvart fjárglæfrum örfárra auðkýfinga.Það er skylda ábyrgra aðila í samfélaginu að leita logandi ljósi að auknum tekjum fyrir þjóðarbúið. Sú leið sem blasir við er að nýta betur sjávarauðlindina enda eru veigamikil rök fyrir því að hægt sé að veiða mun meira úr nytjategundum hér við land, s.s. þorski og síld. Í ár stefnir í minnnsta þorskafla við Íslandsstrendur í 100 ár þrátt fyrir að hér hafi verið í notkun kerfi sem hafi í upphafi átt að skila þjóðarbúinu stöðugum afla sem væri liðlega þrefalt meiri en þau 130 þúsund tonn sem ætlað er að sækja á land á núverandi fiskveiðiári. Öll rök hníga sömuleiðis að því að rétt sé að auka síldveiðar en fréttir berast af því að hafnir séu fullar af síld og að hún sé í einhverjum mæli sýkt af sníkjudýri. Í stað þess að veiða síldina og vinna verðmæti úr henni grípur sjávarútvegsráðherra til sérstakrar friðunar á henni.

Helgi Laxdal
Margir þeir sem hafa atvinnu af því að veiða fisk hafa veigamiklar efasemdir um skynsemi þeirra hafta sem lögð eru á veiðar og ganga út á að veiða minna til þess að geta veitt meira seinna. Sjómenn og fleiri hafa séð að þetta seinna hefur ekki komið, heldur bara enn meiri niðurskurður á aflaheimildum.

Reyndar hefur sú aðferð að skera niður veiðar á þorski til þess að byggja upp þorskstofn hvergi í heiminum gengið eftir, heldur hefur þvert á móti sýnt sig að þar sem veitt hefur verið vel ríflega umfram ráðleggingar reiknisfiskifræðinga, s.s. í Barentshafinu og við Færeyjar, hefur það síður en svo leitt til minnkandi veiða úr viðkomandi fiskistofnum. Reiknisfiskifræðingar - sem enn reyna að reikna út afla komandi ára þar sem eina breytan sem að þeirra mati skiptir einhverju máli er veiðin sjálf - endurskoða stöðugt reikniskúnstir sínar þegar dæmið gengur ekki upp, og gerðu það t.d. um síðustu aldamót þegar því var haldið haldið fram að stofninn hefði í raun verið miklu minni en fyrri mælingar gerðu ráð fyrir og nú í haust þegar mælingar sýndu að stofninn hefði vaxið óeðlilega mikið!
Helgi Laxdal, fomaður Fiskifélags Íslands, birti grein í Morgunblaðinu nú um áramótin þar sem hann gerði lítið úr sjónarmiðum sjómanna. Þeir hafa að vonum efasemdir um ráðgjöf sem ekki hefur skilað neinu. Helgi Laxdal taldi að álíka mark ætti að taka á sjónarmiðum sjómanna og tómstundagamni klúbbfélaga á elliheimili norður í landi við að spá í veðrið.
Þetta sjónarmið formanns Fiskifélags Íslands er stórfurðulegt þar sem ekkert er eðlilegra en að hafa ríkar efasemdir um aðferðir og spár reiknisfiskifræðinga rétt eins veðurfræðinga ef spárnar ganga aldrei eftir.
Formaður Fiskifélags Íslands veður villu og reyk þegar hann telur í grein sinni að rökstuddar efasemdir um skynsemi þess að nota togararall Hafrannsóknastofnunar snúist um að margur telji stofnunina stunda falsanir á gögnum. Efasemdirnar snúast fyrst og fremst um aðferðafræðina og túlkun þeirra gagna sem er aflað. Margir sjómenn efast mjög um marktækni þess að meta breytingar á stofnstærð þorsks með því að toga á sömu slóðum ár eftir ár þar sem líkurnar á að umhverfisaðstæður séu eins á milli ára séu engar. Breytingar eru á hitastigi, straumum, útbreiðslu, æti og fleiri umhverfisþáttum sem hafa veruleg áhrif á hvar von er á að finna fisk. Margir líffræðingar efast sömuleiðis um réttmæti á túlkun þeirra gagna og útreikninga sem ráðgjöf Hafró byggir á, s.s. að svonefndur náttúrulegur dauði (dauði af öðrum völdum en veiðum) sé 18% fasti af stofnstærð. Reyndar sýna útreikningar Hafró sjálfir á áti hvala á þorski hér við land að hrefnan ein hámar í sig tvöfalt það magn sem heilög reiknilíkön ætla að farist af öðrum völdum en veiðum. Það rekst því hvað á annars horn í þessum útreikningum sem gefur sterklega til kynna að bæði náttúrulegur dauði og stofnstærð þorsksins sé vanmetið.
Það er ómögulegt að átta sig á því hvaða hvatir ráða því að formaður Fiskifélags Íslands skuli ráðast með svo ómálefnalegum hætti að sjómönnum og öðrum sem hafa vel rökstuddar efasemdir um vafasama ráðgjöf. Væri ekki nær að Fiskifélag Íslands færi málefnalega og með opnum hug í gegnum þá gagnrýni sem fiskveiðráðgjöfin hefur sætt?

Grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Góð grein Sigurjón.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 8.1.2009 kl. 00:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband