Leita í fréttum mbl.is

Hálfvitagangur í nafni vísinda - Fornleifafræðingar staðfesta ofveiði

Vísindasamfélagið á það til að senda frá sér algera dómadagsdellu í nafni fræða.

Rannsóknir á þorskstofninum í Eystrasaltinu 

Ég rakst á frétt af einni slíkri sænskri „vísindarannsókn“ þar sem fornleifafræðingar stóðu í að grafa upp nokkur 4.500 ára þorskbein á Gotlandi í Eystrasaltinu. 

Markmiðið hjá Svíunum var auðvitað að reikna út stofnstærð þorsksins fyrir nokkur þúsund árum til að geta lagt mat á svokallaða grunnlínu stofnsins (hvað sem það nú er)! Út frá grunnlínunni væri síðan hægt að reikna út ofveiði síðustu ára eða jafnvel árhundruða og sekta svo rækilega sænska sjómenn ef þeir veiða eitthvað umfram ráðlagða veiði. Það er gaman að sjá hve djarfir sænskir reiknisfiskifornleifafræðingar eru að álykta bæði um stofnstærðar- og erfðabreytingar og það út frá nokkrum fiskbeinum.

Hér á landi höfum við ekki farið varhluta af dellu reiknisfiskifræðinnar sem reiknar út stærð fiskistofna áratugi fram í tímann. Fyrir ári síðan ráðlagði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að þorskveiðum yrði hætt í nokkur ár til þess að veiða meira seinna en niðurstaðan var eflaust byggð á reiknilíkönum sem ná nokkra áratugi fram í tímann þó svo hagfræðingunum hafi ekki enn tekist vel til við að spá fyrir um þorskstofn næsta árs.

Einn helsti gúrú reiknisfiskifræðinnar dr. Rosenberg var fenginn til að gera úttekt á aðferðafræði Hafró árið 2001, þegar mörghundruð þúsund tonn töpuðust út úr fiskabókahaldinu og boðaður var enn einn niðurskurðurinn til uppbyggingar á þorskstofninum. Dr. Rosenberg er mjög virtur innan reiknisfiskifræðinnar enda tókst honum að reikna út ofveiði á þorski við Main-flóa á 19. öld. Ekki stóð heldur á því að dr.  Rosenberg vottaði að aðferðir Hafró stæðust þrátt fyrir að viðurkennd væri reiknisskekkja sem nam magni sem samsvarar samanlagðri veiði nokkurra ára.

Eina vandamálið var það sama og áður við Main-flóa á 19. öld - það var veitt of mikið.

Hvernig er það, er ekki orðið tímabært að endurskoða þessa vitleysu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er kannski nokkuð til í gömlu skrýtlunni,  sem sagði að hámenntaðir asnar væru þjóðhættuleg manngerð.

Þórir Kjartansson, 29.8.2008 kl. 14:21

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það kom strax upp í huga minn þegar ég las þessa frétt um stærð þorsstofnsins í Eystrasaltinu hvort þess væri að vænta að Jóhann Sigurjónsson mætti í stígvélum í fornleifauppgröft í Kvosinn og að Hólum í leit að fiskbeinum til þess að geta reiknað út ofveiðina á 15. og 16. öld.

Sigurjón Þórðarson, 29.8.2008 kl. 14:50

3 Smámynd: Jón Kristjánsson

Alveg er þetta dæmalaust og hef ég þó heyrt margt. Það sem veldur mér óhug, eftir að hafa farið á slóðina sem þú vísar á, er að þetta er gert af bandarískum háskóla, birt í "virtu "Bresku vísindatímariti og aðstandendur tala eins og þeim finnist þeir hafa gert merkilega uppgötvun í alvöru rannsókn. Þeim finnst þetta merkilegt og tengja það við efðaþróun í átt að smávöxnum hrygningarfiski! Það ætti að bjóða þeim í Djúpavatn.
Þessar niðurstöður fría okkur við ofveiðina, líka Egil Skalla og Snorra.

- Og ég sem hélt...

Jón Kristjánsson, 29.8.2008 kl. 18:20

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er orðið of mikið af vísindamönnum... eða hvað? Þeir kemba allt sviðið eins og apar að leita lúsa og koma svo með svona bull í örvæntingarfullri tilraun sinni til að réttlæta tilvist sína á "The Payroll" opinberra sjóða.

Vísindamenn sem rannsaka fiskistofna í raunheimum dagsins í dag, viðurkenna að þeir viti í raun ósköp lítið um stofnstærðir, þó þeir heimti samt að farið sé eftir ráðleggingum þeirra "Better safe Then sorry" segja þeir.

Þegar maður les orðið "vísindagreinar" þá veit maður stundum ekki hvort þær ættu ekki frekar heima í "Séð og Heyrt" eða í gulu pressunni eins og sorpdægurblöðin kallast, frekar en virtum tímaritum.

Kveðja að austan,

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.8.2008 kl. 00:51

5 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Einsog fram hefur komið þá er fiskifræðin ung grein og langur vegur frá því að vísindaelítan hafi náð nokkrum tökum á efninu sem talandi er um. Samt heldur elítan því fram að um heilög og nánast óskeikul vísindi sé að ræða.

Staðreyndin er frekar einföld, það er lítið vitað nema akkúrat um líðandi stund og ástandið einsog það birtist okkur dag hvern. Flestar spár um stofnstærðir fram í tímann hafa hrunið algjörlega í höndunum á elítunni.

Áætlunarbúskapur í hafinu fenginn út með stærðfræðilegum aðferðum getur ekki gengið upp, við verðum að horfa út frá líðandi stundu. Lífríkið segir okkur sjálft hvað er í gangi og út frá því eigum við að ákvarða okkar veiðar.

Hvernig sem á því stendur á virðist þvælan alltaf verða meiri og meiri með fleiri sprenglærðum gaurum og vísindaelítan færist alltaf fjær raunveruleikanum.

Ég hef starfað við sjómennsku í rúm 30 ár og sem skipstjóri til fjölda ára. Aldrei hefur mér dottið til hugar að mér að reyna að reikna það út hvað ég fái mörg tonn á hinum og þessum stöðum bara ef ég dýfi niður veiðarfærum þar, ég einfaldlega veit það að útkoman verður alltaf röng. Lífríkið og ástandið í hafinu stjórnar því meira en nokkuð annað hvar er fiskivon og hvað mikið er á svæðinu.

Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að vísindaelítan skuli vera farinn að stunda svona kúnstir, einhvern veginn verða þeir að dreifa athyglinni frá skömminni sem þeir eru búnir að framkvæma. Svo gæti þetta einnig verið ágætis fjármögnunarleið, það er til nóg af fábjánum, bæði pólitíkusum og öðrum fíflum sem trúa því í alvöru að þetta sé hægt og moka fjármagni í delluna.   

Hallgrímur Guðmundsson, 30.8.2008 kl. 10:26

6 Smámynd: Víðir Benediktsson

Einu sinni var því haldið fram að jörðin væri flöt. Það var ekki átakalaust að fá yfirvöld sem aðra að breyta skoðun sinni á því. Sýnist á öllu að ekkert hafi breyst, hafi menn rangt fyrir sér verður það ekki leiðrétt fyrr en þeir eru löngu dauðir.

Víðir Benediktsson, 30.8.2008 kl. 13:09

7 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Sigurjón.

" Það er ekki öll vitleysan eins, heldur aðeins mismunandi "

Vísindin marsera áfram nær gagnrýnislaust ekki aðeins á þessu sviði, heldur mörgum öðrum.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 31.8.2008 kl. 00:25

8 Smámynd: Jóhann Kristjánsson

Detta mér nú allar dauðar lýs.... eru nú menn farnir að grafa upp gömul fiskbein til að ákvarða kvóta?? Ég reyndar þurfti að lesa færsluna nokkrum sinnum yfir,, nudda augun margoft,, og biðja konuna að klípa mig í handlegginn til þess að ég væri viss um að mig væri ekki bara að dreyma. Ég segi nú bara eins og unglingarnir ,,,,

 hvaða tegund af steik eru þessir menn????????

Jóhann Kristjánsson, 1.9.2008 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband