Leita í fréttum mbl.is

Er Fréttablaðið í blaðamennsku, Kio Briggs og Plank?

Í gær hringdi í mig blaðamaður og óskaði eftir áliti mínu á máli Pausl Ramses. Ég svaraði spurningunum eftir bestu getu og tók fram að mál sem þessi væru viðkvæm og erfið.  

Það sem var megininntak þess sem ég kom á framfæri við blaðamanninn var að Paul Ramses hafi fengið sömu meðferð og aðrir sem hefðu verið í sömu sporum. Ég tók fram að eftir því sem ég best vissi hefði hann ekki óskað eftir því að fjallað yrði um mál sitt og konu sameiginlega af Útlendingastofnun. Ákvörðun um framsal Pauls hefði verið tekin í janúar á þessu ári en henni hefði verið frestað af tillitssemi.

Ég nefndi að mér þætti mjög miður að barátta fyrir landvist Pauls væri á stundum rekin með mjög rætnum hætti 1  2  3 4  þar sem spjótum væri beint persónulega að starfsmönnum Útlendingastofnunar og dómsmálaráðherra, sérstaklega þegar viðkomandi hafa annars vegar ekkert komið að málinu eða hins vegar leyst úr því með svipuðum hætti og sambærilegum málum.

Ritsjórn Fréttablaðisins ákvað einhverra hluta vegna að birta ekki umrætt viðtal en í þess stað snúa út úr skrifum mínum á blogginu þar sem ég svaraði sjálfskipuðum talsmanni mannúðar og umburðarlyndis sem fullyrti að á Útlendingastofnun væri ,,uppfull af þurrum skrifstofukellingum" sem framfylgdu þar að auki aríastefnu.

Hér er svar mitt við þessum ómerkilega áburði sem ritstjórn Fréttablaðsins setur í samhengi við að ég vari við fréttaflutningi af máli Pauls Ramses! 

,,.. ég tel vafasamt og rauninni mjög rangt að tala um aríastefnu.

Útlendingastofnun er að framfylgja reglum þjóðfélagsins.  Það eru ýmsir sem fjölmiðlar hafa borið á höndum sér sem ekki hafa reynst merkilegir þegar málin hafa verið skoðuð ofan í kjölinn s.s. Planton og Kyo Briggs."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sigurjón. Hvað væl er þetta? Þú verður bara að standa við þessa samlíkingu á Paul Ramses við dæmda stórglæpamenn eða draga í land.

Mikið hvað þið eruð alltaf misskildir Frjálslyndir og sama má reyndar segja um dómsmálaráðherrann.

Afstaða hans til afgreiðslu málsins þegar það kom upp fór ekkert á milli mála. Afstaða hans til slíkra mála almennt fer heldur ekkert á milli mála. Höfundur hugtaksins "Baugsmiðill" á líka afar bágt með að kveinka sér undan rætinni umræðu.

Andrés Jónsson (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 12:10

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ef það er eina vörn Samfylkingarinnar að snúa út úr orðum mínum þá verður það einfaldlega að vera svo, en mig langar að fá að vita í framhaldinum hvort að Andrés sé tilbúinn að skrifa undir þau orð stuðningsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli, að í Útlendingastofnun vinni fjöldi uppþornaðra kerlingar sem framfylgja einhverri aríastefnu.

Sigurjón Þórðarson, 10.7.2008 kl. 13:16

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þar sem þú gerðir athugasemdir í gær á minni síðu með dæmum um rætnar árásir á Björn Bjarnason get ég ekki orða bundist að segja að mér finnst það rætið að nefna nafn Paul Ramses í sömu andrá og tvo glæamenn. Þótt það eigi að vera gagnrýni á fjölmiðla hlýtur þetta að koma því inn hjá fólki að að Paul sé af sama sauðahúsi. Það finnst mér rætnara en allt annað sem ég hef séð í málinu. Svo finnst mér reyndar að ekki eigi að líta fram hjá því að þáð eru persónur en ekki máttarvöldin sem taka ákvarðanir í þessu máli. Það er ekkert að því að á það sé minnt þó ekki mæli ég rætnum málflutningi bót. En gagnrýni á persónur er ekki sjálfkrafa rætinn málflutningur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 10.7.2008 kl. 14:18

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég þakka þér athugasemdina, Sigurður. Hún gefur mér til kynna að textinn í pistlinum sé ekki nægilega skýr. Þar að auki hefur Fréttablaðið gert sér að leik að rangtúlka orð mín.

Ég nefndi hvorki Kio Briggs né viðmælanda Kastljóssins, morðingjann Plank, í sömu andrá og herramanninn Paul Ramses, heldur var ég að svara athugasemd stuðningsmanns stefnu Samfylkingarinnar sem hafði uppi stór um starfsfólk Útlendingastofnunar og stefnu íslenskra stjórnvalda sem hann kallar aríastefnuna. Þá lét ég þau orð falla sem eru í gæsalöppunum hér fyrir ofan.

Í lokin væri ágætt fyrir fjölmiðla að hafa bak við eyrað að kanna betur akkúrat þetta mál, hvort meðframbjóðendur Pauls í Kenía hafi líka sætt ofsóknum.

Sigurjón Þórðarson, 10.7.2008 kl. 14:59

5 Smámynd: Þarfagreinir

Sigurjón -

Ég er sammála því að hér er verið að túlka orð þín á nokkuð ómaklegan hátt. Þú ert einungis að vara við því að ekki er endilega allt sem sýnist í þessum efnum, og að það geti verið varasamt að reka svona mál á tilfinninganótum í fjölmiðlum. Það er rétt að þessum yfirlýsingum Pauls Ramses um pólitískar ofsóknir er tekið nokkuð gagnsrýnislaust af mörgum - þetta er nokkuð sem ég held að þyrfti að skoða betur (en jafnframt tel ég að ekkert hefði átt að standa í vegi fyrir því að skoða það þá hér, í stað þess að senda manninn til Ítalíu).

Þó má benda á að Kio Briggs og Plankton höfðu það sameiginlegt að vera sakaðir eða dæmdir glæpamenn, þegar fjölmiðlafár var í kringum þá. Það gildir ekki um Paul Ramses, svo ég viti til. Samlíkingin er því óheppileg - því auðvitað hljóta þessi orð þín að vera túlkuð á þann hátt að þú sért þarna að tengja alla þessa þrjá herramenn saman að alla vega einhverju leyti.

En nóg um það ... þú hefur viðurkennt að þetta hefði mátt vera betur orðað, og ég fellst á að þarna hafa fjölmiðlar séð sér leik á borði að blása ummæli þín upp ...

Þú sjálfur reifar hér ummæli drengs að nafni Jón Grétar Borgþórsson, og segir hann í athugasemd 'stuðningsmann Samfylkingarinnar'. Reyndar kallarðu hann í næstu athugasemd á eftir 'stuðningsmann stefnu Samfylkingarinnar', sem ég skil nú ekki alveg hvað á að þýða. Þarna finnst mér þú með fremur ómaklegum hætti reyna að spyrða þennan dreng og hans ummæli við Samfylkinguna. Ég sé nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að hann sé talsmaður eða stuðningsmaður flokksins. Ef þú ert með vísbendingar í þá veru væri gott að fá þær fram.

Fólk úr ýmsum flokkum (sem og fólk sem tengist engum sérstökum flokki) hefur gagnrýnt framgöngu yfirvalda í þessu máli. Gott ef ég hef ekki meira að segja séð fleiri en einn Frjálslyndan gera það.

Þú fellur hins vegar, að mér sýnist, í þá gamalreyndu gryfju ykkar Frjálslynda að búa þér til einhvern sérlegan óvin úr Samfylkingunni í þessu máli. Samkvæmt þínum málflutningi mætti halda að það séu eiginlega bara meðlimir og stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem hafa verið í því að gagnrýna yfirvöld í þessu máli - og þetta gengur svo langt að menn verða jafnvel sjálfkrafa stuðningsmenn Samfylkingarinnar ef þeir gagnrýna yfirvöld í málinu (sbr. téðan Jón Grétar)!

Það er margt til í þeim málflutningi þínum að þeir sem hvað harðast ganga fram í nafni mannúðar í málinu mættu vel gæta sinna eigin orða - en þetta missir töluvert marks þegar þú reynir um leið að láta í það skína að umræddir mannúðarsinnar séu meira og minna allt bara eitthvað 'Samfylkingarpakk'.

Þetta finnst mér heldur hjákátlegt - verð nú bara að segja það.

Með vinsemd og virðingu og allt það ...

Þarfagreinir, 10.7.2008 kl. 17:14

6 identicon

Sigurjón,

Þú verður að gera þér grein fyrir einu. Blaðamenn á Fréttablaðinu eru ekki að lesa bloggið þitt til að vita hvaða skoðanir þú hefur og að þær séu hluti af einhverri málefnalegri umræðu í samfélaginu. Svo er ekki. Áhuginn felst í að finna eitthvað til að gera málflutning þinn ótrúverðugan og til að gera lítið úr skoðunum þínum og þá þér. Sama á við um málflutning flokksbræðra þinna. Fréttablaðið virðist vera með sérstaka deild í þessu. Ekki má gleyma að rasistastimplinum sem búið er að koma á ykkur. Þið eruð á móti kvótakerfinu og það er hættulegt hjá litlu þjóðinni en er mannréttamál hjá Sameinuðu þjóðunum. Athugaðu, Fréttablaðið og aðrir fjölmiðlar eru í pólitík og þú ert ekki í liðinu þeirra.

Það er fróðlegt að kíkja á þetta hér.  Í blogginu Ramses v. Björn Bjarnason segirðu mál þess fyrrnefnda sé rekið á mjög tilfinningasömum nótum. Einnig að þú ætlir ekki að hætta þér úti í þá umræðu (kannski af bituri reynslu (útlendingamál), þökk sé xS og Fbl.). Þú svarar síðan athugasemd manns við bloggið með því að telja að fjölmiðlar hafi borið ákv. menn á höndum sér. Fréttablaðið slítur þetta úr samhengi og tvinnar saman í ritskoðun sinni á þér og býr til greinina: “Sigurjón tilfinningasami” “Flokksbróðir Jóns, Sigurjón Þórðarson, vill meina að mál Pauls Ramses hafi verið rekið á tilfinningasömum nótum og á bloggsíðu sinni varar hann við fréttaflutningi af málinu; fjölmiðlar hafi jú "borið á höndum sér" menn á borð við Kio Briggs, sem ákærður var fyrir fíkniefnainnflutning á sínum tíma, og Premyslaw Plank, sem var framseldur til Póllands vegna gruns um að hafa myrt mann með sveðju. Það er skrýtin afstaða að finna að tilfinningasömum málflutningi en í sömu andrá draga pólitískan hælisleitanda í dilk með sakfelldum og grunuðum glæpamönnum.” (Var Kio ekki sýknaður?).

Ég fæ ekki séð að þú sért, í fyrsta lagi að vara við fréttaflutningnum, í öðru lagi að þú finnir að hinum tilfinningasama fréttaflutningi þegar þú lýsir honum sem mjög tilfinningasömum. Í þriðja lagi ertu ekki “í sömu andrá” (a.v. í bloggfærslu og h.v. í svari við aths.) að draga Ramses í dilk með þessum misyndismönnum þegar þú ert kannski að reyna að draga ákv. fjölmiðlaumfjöllun í einhvern dilk, sem er algjört aukaatriði. Ef blaðið er ekki að slíta það sem þú segir úr samhengi og spinna við það til að gera þér skoðun þá veit ég ekki hvað það er. Þeir hreinlega búa þér til skoðun í máli Ramsesar. Og það rasistaskoðun, svo skemmtilegt sem það nú er. Fréttablaðið gleymdi auðvitað að þú vildir ekki hætta þér úti í umræðu um mál Ramsesar. Málið er að blaðið hreinlega stóðst ekki freistinguna að snúa útúr fyrir þér til að ná höggi.  Reyndar svoldið gott högg ef úti í það er farið. Það má ekki gleymast lesendum Fréttablaðsins að þú og Jón eru rasistaliði blaðsins. Það er aðalatriðið!

Málið er að Fréttablaðið er mjög lélegt dagblað, með enn lélegri og leiðinlegum leiðurum, alveg sérstaklega um sjávarútvegsmál þar sem mikið er lagt á sig.

Eyjolfur (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 20:08

7 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Þvílíkt og annað eins Sigurjón. Þú hefur fengið heilan helling af dómurum til að fara í gegn um þetta allt saman með þér. Frábært.

Hver les Fréttablaðið ? Ég bara spyr, það fer beint í bláu tunnuna á mínu heimili.

Það er svo lélegt að engin heilvita maður les það og engin heilvita maður ætti að ræða við blaðamenn Fréttablaðsins, því þeir eru bestir í rangtúlkun.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 11.7.2008 kl. 00:15

8 Smámynd: Snorri Bergz

Guðrún: Ég las Fréttablaðið í morgun. En það var aðeins af þeirri ástæðu að hin blöðin voru ekki komin!

En það er alls ekki útilokað að Paul Ramses sé ekki sá sem hann gefur sig út fyrir að vera og að hann hafi þarna haft vinstra liðið í landinu að fíflum á einu bretti. Sjá t.d. þessa grein.

Ég er ánægður með að Sigurjón skuli ekki ofurselja sig hysteríu. Svona mál eiga að fá lagalega og rétta meðferð, en ekki þannig að eitthvað fólk úti í bæ sé að taka lögin í eigin hendur.

Auðvitað má mótmæla, ef talið er að illa hafi verið staðið að málum, en ég efast um að margir úr þessum mótmælendahópi hafi vitað mikið um mál Ramsesar.

Sumir mótmæla bara til að mótmæla, þám gamlir '68-kommar og stefnulaus reköld úr Samfylkingunni.

Snorri Bergz, 11.7.2008 kl. 10:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband