Leita í fréttum mbl.is

Merktur mannréttindabrotum og útdauða


 
Nýjasta nýtt er að sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson vill efla íslenskan sjávarútveg með því að kynna hann sem sjálfbæran og vistvænan. Óvíst hvort ráðherra verði kápan úr því klæðinu þar sem sviðsstjóri veiðiráðgjafarsviðs Hafró kvað upp þann dóm í vor að þorskstofninn hefði aldrei verið jafn lítill, en nokkru áður höfðu sérfræðingar Hafró látið þess getið að það þyrfti að friða stofninn svo að hann dæi ekki út. Það eru reyndar sárafáir sem starfa í atvinnugreininni sem sjá hlutina jafn svarta og sérfræðingarnir sem sjávarútvegsráðherra ætlar að kalla til vitnis um sjálfbærni fiskveiðanna.

Það eru miklu meiri líkur á því að erlend umhverfissamtök sem sum hver eru alfarið á móti fiskveiðum muni nýta sér í baráttunni gegn íslenskum afurðum að það kerfi sem notað er til að stýra veiðum sé álitið af Sameinuðu þjóðunum ósanngjarnt, brjóta í bága við mannréttindi og hafa neikvæða ímynd rétt eins og alþjóðleg merki sem þrífast á barnaþrælkun.
 

Fjarstæðukennd rannsókn
Það er greinilega mikil örvænting hjá stjórnvöldum að leita að einhverjum skýringum á því hvers vegna ekki koma fleiri nýliðar inn í veiðina þrátt fyrir að stöðugt sé veitt minna og minna úr þorskstofninum í þeirri viðleitni að byggja upp stofninn en árangurinn er hrikalegur, ráðgjöfin hljóðar upp á þrefalt minni veiði en áður en þetta einkennilega uppbyggingarstarf hófst. Nú berast fréttir af því að ráðherra hafi gert að sérverkerkefni sínu að kanna hvort virkjanir á Suðurlandi hafi áhrif á ferskvatnsflæði til hafs og efnainnihald yfirborðslaga á hrygningarslóðum og þar með komið í veg fyrir fæðunám þorsklirfa. Það er auðvitað fráleitt að telja að virkjanir hindri að vatn berist til hafs en mögulega getur það að litlu leyti breytt efnainnihaldi vatnsins. Fjarstæða er að það hafi einhver áhrif langt úti í hafi.

Það er engu líkara en að ráðherra hafi ýtt öllum sem hafa einhverja þekkingu á líffræði þorsksins til hliðar í dauðaleit að skýringu á því hvers vegna reiknilíkönin sem gefa til kynna að uppbygging sé ætíð á næsta leiti gangi ekki upp. Fyrir það fyrsta hefst ekki fæðunám hjá þorskinum fyrr en um þremur vikum eftir klak og hefur þorskegg og lirfa að jafnaði borist langt frá þeim stað sem hrygning fór fram og í öðru lagi hefur ekki verið sýnt fram á nokkurt samband á milli magns þorskseiða og mikillar nýliðunar. Þessar niðurstöður voru svo skýrar að Hafró afréð að leggja af sérstakt seiðarall.

Er ekki orðið tímabært að skoða nánar og fara yfir vel rökstuddar röksemdir þeirra sem hafa bent á svo árum skiptir að núverandi aðferðafræði og fiskatalning Hafró sé dæmd til að mistakast enda stangast hún á við viðtekna vistfræði, þ.e. að ætla að fjölga og stækka stofn þegar mælingar sýna að einstaklingsvöxtur er við sögulegt lágmark?

Við hvað er ráðherra hræddur?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég held Sigurjón að við séum bara sammála í sjávarútvegsmálum ;)

Óskar Þorkelsson, 11.7.2008 kl. 19:16

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég held reyndar Óskar að við séum sammála um miklu fleira og jafnvel mál innflytjenda en andstæðingar flokksins með aðstoð fjölmiðla hafa reynt að afvegaleiða minn málflutning.

Sigurjón Þórðarson, 11.7.2008 kl. 21:00

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já líklega er það svo Sigurjón.

Óskar Þorkelsson, 11.7.2008 kl. 21:26

4 Smámynd: Jóhann Kristjánsson

Margt(ef ekki flest allt) er stjórnvöldum óljóst. Eitt er þó ljóst að aðferðafræði hafró á heima á þjóðminjasafninu þó svo stjórnvöld hafi ekki fattað það ennþá.

Jóhann Kristjánsson, 14.7.2008 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband