Leita í fréttum mbl.is

Lundinn og heimsendir

Nýlega bárust fréttir af því að örfáir fuglafræðingar sem hafa atvinnu af því að rannsaka lífríki lundastofnsins í Vestmannaeyjum hefðu komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt væri að takmarka mjög lundaveiðar eða banna þær vegna lélegrar nýliðunar. Þessar fréttir komu mér verulega á óvart vegna þess að lundastofninn er sérdeilis langt frá því að vera í útrýmingarhættu, vel á þriðju milljón fugla verpir í eynni en örfá prósent þeirra lenda sem hátíðarmatur á borðum Eyjamanna.

Það sem stakk þó verulega í augu var að fækkunin var af sömu vísindamönnum rakin til minna fæðuframboðs, þ.e. í sandsílastofninum. Það var engu líkara en að ráðgjöfin gengi út á að svelta enn fleiri til bana.

Það verður fróðlegt að kynna sér þessi fræði enn frekar, en enn er ekki að finna á netinu neina skýrslu með gögnum. Ég hef gert ráðstafanir til að redda þeim. Ef það gengur ekki er ég viss um að Árni Johnsen, einn virkasti þingmaður landsins í að veita stjórnvöldum aðhald, muni snara þeim norður með póstinum.

Sá grunur læðist að mér að það sé erfitt að afla rannsóknarfjár nema það sé eitthvað meiriháttar að, og helst að útdauði tegunda eða heimsendir sé á næsta leiti. Það er eins og að venjuleg og verðug rannsóknarverkefni sem felast í að fylgjast með og kortleggja skrykkjóttar sveiflur dýrastofna fái ekki fjármagn.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg Eiður Arnarson

Sæll Sigurjón . ekki vegna lélegrar Lunda veiði heldur vegna lélegrar níliðunar , sem er reyndar mikið álitamál hér . kv .

Georg Eiður Arnarson, 16.5.2008 kl. 07:11

2 Smámynd: Þórir Kjartansson

Þarna gilda kannski aðeins önnur lögmál en með þorskinn, Sigurjón. Þegar vantar nær alveg þrjá til fjóra árganga í lundastofninn hér við suðurströndina ætti ekki að vera miklu fórnað þó menn haldi að sér höndum í veiðinni þangað til að betur árar. Það er jú gamli lundinn, sem þarf að starta nýliðuninni aftur og þeir fuglar sem hafa verið veiddir og étnir gera það ekki.  Annars virðist vera miklu meira af sandsíli nú en undanfarin ár, allavega er mjög mikill sílaburður á kríunni hér í Vík núna en það hefur ekki sést nokkuð lengi svona snemma. Líklega er minni loðnuveiði strax farin að hafa jákvæð áhrif fyrir lífríkið.

Þórir Kjartansson, 16.5.2008 kl. 08:48

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Er ekki fyrir löngu kominn tími á þessar umdeildu lundaveiðar? Að veiða fugl í snörur á flekum hefur verið bannað lengi og þessar veiðar eru ekki sérlega viðkunnanlegar.

Nú eru dýrindistilboð um allt milli himins og jarðar í verslunum sem unnt er að hafa á veisluborðum. Lundi og rjúpa var fæða fátæklinga fyrr á tímum þegar oft voru miklir erfiðleikar að bjarga sér. Nú þarf enginn að líða svo mikinn skort að hann þurfi að ná sér í fugla til að eta.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 16.5.2008 kl. 09:01

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mosi ég hef nú aldrei heyrt þess getið að lundaveiðar séu verulega umdeildar.  Það er að vísu til græningjar sem vilja banna allt og m.a. fiskveiðar

Það verður fróðlegt að fara yfir þessi gögn en afföllin vegna lundaveiða eru svo sáralítil að þau geta ekki haft úrslitaáhrif á stofnsveiflur.

Hitt er svo annað mál að sjómenn sem eru á miðunum hafa sagt mér að nú sé meira af æti og einn þeirra vildi skýra það út með því að minna væri af ýsu sem væri grimm í sandsílinu.

Sigurjón Þórðarson, 16.5.2008 kl. 09:32

5 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Georg þetta er réttmæt athugasemd hjá þér og breytti lítillega textanum í samræmi við það og feitletraði breytingarnar.

Sigurjón Þórðarson, 16.5.2008 kl. 11:06

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Erlendir ferðamenn skilja ekkert í þessum veiðum.

Einu sinni var eg við hvalaskoðun frá Húsavík. Ekki sást mikið til hvala og vildu þeir hvalaskoðunarmenn gera gott úr þessu öllu, sigldu kringum Lundey en þar var allt krökkt af fugli, þ. á m. lunda. Því miður var þarna lundaveiðimaður á ferð og varð hann brátt óvinsælasti Íslendingurinn meðal hinna ferðamanna.

Öðru sinni átti eg leið um Breiðafjörðinn með gamla Baldri, einnig með hóp ferðamanna. Þar mátti sjá heilu breiðurnar af hömum lunda sem veiðimenn höfðu í hugsanaleysi fleygt í sjóinn. Miklar vangaveltur komu upp í hópnum hverju þetta sætti, voru flestir á því að einhver alvarleg veiki hlyti að hafa valdið dauða þessara þúsunda fugla. Eigi vildi eg segja þeim sannleikann né alla söguna því eg sárskammaðist mín sem Íslendingur fyrir svona tillitsleysi landa okkar.

Annað hvort veiðum við hvali og lunda, kannski þangað til allt er búið, byggjum enn fleiri álver og fórnum fleiri fossum og jarðhitakerfum en ættum þá að forðast að auglýsa Ísland sem sérstaka paradís fyrir erlenda ferðamanna.

Betra væri að sýna hófsemi í öllu þessu sem öðru og taka betra tillit til þeirra sem málið kunna að varða og vilja upplifa íslenska náttúru eins og hún er fyrir en ekki einhverja manngerða gerviveröld.

Þá finnst mér ástæða til að draga í efa fullyrðingu þína Sigurjón að einhverjir fuglafræðingar hafi atvinnu af því að rannsaka lífríki lundastofnsins í Vestmannaeyjum. Ætli það séu ekki íhlaupaverkefni sem önnur. Vísindamenn verða að vera hlutlausir gagnvart viðfangsefnum sínum og ekki gerast sekir um að taka glannalegar ályktanir.

Náttúrufræðingar hafa ekki fremur en kennarar verið of vel launaðir til þessa.

Mosi  

Guðjón Sigþór Jensson, 16.5.2008 kl. 11:38

7 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Sem leiðsögumaður til marga ára get ég bara sagt eitt: Það er ekki gott fyrir ímynd okkar sem vistvænt ferðaland að stunda veiðar á þennan hátt eins og lundinn er veiddur. ekki heldur að stunda hvalveiðar. Ég ætla að taka fram að ég er ekki grænfriðungur og tilheyri neinum öfgahópi.

Úrsúla Jünemann, 16.5.2008 kl. 11:45

8 Smámynd: Víðir Benediktsson

Held að Einar K. Guðfinnsson viti manna best allt um lundaveiðar með og án veiðikorts.

Víðir Benediktsson, 16.5.2008 kl. 12:47

9 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mosi það eru nokkrar milljónir 5 ef ég man rétt fyrir árið 2007 sem var varið sérstaklega í rannsóknir á Lunda í Eyjum og hefur farið vaxandi en ég hef ekki tíma til að fletta þessu upp núna, síðan eru færir líffræðingar hjá Hafró sem eru með fingurinn á púlsinum á sjófuglunum en minna heyrist af upphróunum frá Hafró sem vekur vissulega upp spurningar. 

Ég hef farið inn í kjúklingabú og fjölmörg sláturhús, stundað fuglaveiðar.  Eftir þessar heimsóknir mínar í umrædd fyrirtæki furða ég mig á einhverri andúð á veiðum s.s. fugla hreindýra eða hvalveiðum.  Fólk sem hneykslast á lundaveiði snæðir jafnvel í næstu andrá kjúkling með bestu lyst sem aldrei hefur séð sólarljósið.

Sigurjón Þórðarson, 16.5.2008 kl. 12:50

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er nefnilega málið Þorvaldur Guðmundsson, að þessir "Náttúruverndar-Ayatollar" halda að allur maturinn sem við borðum eigi uppruna sinn í neytendaumbúðum í stórmörkuðum.

Jóhann Elíasson, 16.5.2008 kl. 13:08

11 Smámynd: Þórir Kjartansson

Það er alltaf undarlega stutt í það að þeir sem vilja ekki valta yfir allt í náttúrunni og fórna henni á altari auðhyggjunnar, séu uppnefndir sem ofsatrúaðir græningjar. Ekki hef ég neitt á móti því að við veiðum bæði lunda og hvali og tel reyndar að sé skynsamlega að því staðið muni það síður en svo skemma fyrir ferðaþjónustunni.  En það verður að ganga um auðlindir náttúrunnar af hófsemi og virðingu enda engin þörf á rányrkju í okkar allsnægta þjóðfélagi.

Þórir Kjartansson, 16.5.2008 kl. 13:29

12 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður verð eg að segja að umgengni allt of margra Íslendinga um íslenska náttúru er þeim til mjög mikils vansa.

Um helgina var eg ásamt konu minni að bjarga mjög fögrum fuglum sem eru strangfriðaðir úr veiðineti. Um þetta stendur til að rita mjög kröftuga grein og verður hún myndskreytt.

Veiðar og umgengni Íslendinga í íslenskri náttúru er mjög ábótavant og oft er algjör skilningsskortur á þessu rétt eins og þegar menn drápu síðasta geirfuglinn. Í dag eru fyrri tíðar menn vændir um óþarfa dráp á sjaldgæfum fuglum. Þá var það neyðin sem rak fátæka menn til þessa og þá voru engin ákvæði um dýravernd og fuglafriðun nema mjög ófullkomin ákvæði í tilskipun um veiðar frá 1847.

Í dag á tímum upplýstrar umræðu og traustra heimilda er ekki til of mikils mælst að þeir sem vilja stunda veiðar kynni sér til hlítar allt sem máli kann að skipta. Þá má geta þess að svo illa eru menn ekki staddir nú á dögum eins og áður var, að þurfa að fara eins og böðlar um náttúru landsins til að deyða að þarflausu og sér til stundargamans dýr hvort sem það eru fuglar eða hvalir.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 19.5.2008 kl. 12:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband