Leita í fréttum mbl.is

Hvenær verður skot skeið?

Forsætisráðherrann var í dag að kvarta undan einelti fréttastofu Stöðvar 2 sem minnti á að Samfylkingin hefði ekki staðið við það kosningaloforð að aflétta þeim ósið að sendiherrar gætu jafnframt verið á fullum eftirlaunum. Fleiri fulltrúar ríkisstjórnarinnar kvörtuðu í blöðunum í dag, lærður aðstoðarráðherra skrifaði grein í 24 stundir um efnahagsmál og bjóst ég sannast sagna við lærðri grein um væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Því miður var því ekki að heilsa, heldur var hann að kvarta undan Framsóknarflokknum sem truflaði að einhverju leyti þá stefnu ríkisstjórnarinnar að gera ekki neitt.

Það sem ég hins vegar varð mjög hugsi yfir eftir að hafa hlýtt á viðtal við forsætisráðherrann í hádeginu var hversu hróðugur hann er yfir þeirri stefnu sinni í efnahagsmálum að gera ekki neitt. Hann hafði m.a.s. reiknað út gróðann af stefnunni sem var upp á þúsundir milljóna. Gróðinn fólst í því að björgunaraðgerðirnar fyrir bankana væru núna miklu ódýrari en þegar staðan var hvað verst. Það er hins vegar spurning hvað fyrirhyggjuleysið og stefnuleysi ríkisstjórnarinnar hafi kostað þjóðarbúið nú þegar.

Það sem mér er núna hugleiknast - þegar forsætisráðherra talar um eitthvert verðbólguskot þótt verðbólgan hefur verið langt yfir markmiði stjórnvalda síðustu þrjú árin og nú stefnir í mjög mikla verðbólgu á þessu ári - er að vita hvenær skotinu léttir. Hvenær breytist verðbógluskot í verðbólguskeið?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágæti Sigurjón -- Bara ein athugasemd: Kosningaloforð Samfylkingarinnar um eftirlaunalögin var að endurskoða allt málið, ekki eingöngu þetta atriði um tvöföldu launin, sem reyndar var arfur frá fyrri lögum en versnaði auðvitað þegar lífeyriskjör ráðherranna stökkbreyttust. Það væri sennilega einfalt að laga bara það atriði, og það reyndi Halldór Ásgrímsson á síðasta kjörtímabili. Þá höfnuðu okkar flokkar því, annarsvegar sem of lítilli lagfæringu, hinsvegar vegna þess að Framsókn þorði ekki að gera þá lagfæringu afturvirka. Ég legg til að menn sýni örlitla biðlund í eftirlaunamálinu, þar á Sjálfstæðisflokkurinn auðvitað bágt, en endurskoðun er í stjórnarsáttmálanum og Samfylkingin hefur síður en svo gefið þetta upp á bátinn. -- Annars er gaman að sjá þig í pólitískum skrifum o --  þakka þér hressilegt samstarf og ágæt kynni á síðasta kjörtímabili. // Mörður

Mörður Árnason (IP-tala skráð) 9.5.2008 kl. 17:17

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Mörður, þakka þér fyrir þessa upplýsandi athugasemd. Ég sé að vandamálið er tæknilegs eðlis en ekki af af pólitísku áhugaleysi beggja stjórnarflokkanna. Ég á von á að menn finni lausn á því sem og mannréttindabrotum stjórnvalda á sjómönnum.

Mér finnst ankannalegt að þú skulir ekki vera á þingi, ekki bara vegna elju þinnar þegar þú varst þingmaður heldur líka vegna þess að þú lentir ofar í prófkjöri en tveir núverandi þingmenn, Steinunn Valdís og Ellert.

Ég reikna með að þú verðir á KR-vellinum á morgun. Ég óska þér góðrar skemmtunar þar þótt ég myndi hvetja Grindvíkinga ef ég væri á staðnum. Sjálfur missi ég af honum þar sem ég verð á hestaíþróttamóti í Skagafirði.

Sigurjón Þórðarson, 9.5.2008 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband