Leita í fréttum mbl.is

Hvað sagði Jóhanna í stjórnarandstöðu um sama mál?

Það er ekki í fyrsta sinn sem þetta mál kemur upp að lífeyrissjóðir hygðust skerða greiðslur til öryrkja, en haustið 2006 voru þessi áform uppi, en þá beindi Jóhanna Sigurðardóttir spjótum sínum fyrst og fremst að ríkisstjórninni - Nú sem félagsmálaráðherra segist Jóhanna nánast ekkert geta gert í málinu.  Það virðist greinilega ekki gilda það sem sagt var fyrir 2 árum nú þegar Jóhanna er setst í mjúkan stól félagsmálaráðherra.

Jóhanna Sigurðardóttir flutti eftirfarandi ræðu á Alþingi þann 16. október 2006:

 Ríkisstjórnin hefur oft hlunnfarið öryrkja í stjórnartíð sinni. Þeir hafa þurft að sækja rétt sinn og bætt kjör til dómstóla landsins. En það er þyngra en tárum taki að öryrkjar sjái sig knúna til að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þeirrar gífurlegu kjaraskerðingar sem lífeyrissjóðirnir ætla að beita fátækasta fólkið í landinu. Maður spyr: Heyra þær samfélagslegu skyldur, félagslega samhjálp og tryggingavernd, sem eru hornsteinn lífeyriskerfisins sögunni til? Það er engu líkara en við séum komin aftur til fortíðar, fyrir daga lífeyriskerfisins og verkalýðhreyfingarinnar þegar fátækt fólk var hýrudregið og illa farið með það.

Svipta á öryrkja stórum hluta lífeyristekna sinna á afar hæpnum forsendum, sem hlýtur að ganga gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Með þessu er verið að gera grundvallarbreytingar á þeirri tryggingavernd og samtryggingu sem lífeyrissjóðirnir hafa staðið fyrir. Þannig eru um 77% þeirra 2.300 einstaklinga sem í þessu lenda með heildartekjur undir 125 þús. kr. á mánuði. Tveir af hverjum fimm eru með tekjur undir 88 þús. kr. Að fullu falla niður greiðslur hjá 745 öryrkjum sem höfðu greiðslur undir 1 millj. kr.

Þeir sem til mín hafa leitað vegna þessa eru fullir örvæntingar og ótta um afkomuöryggi sitt eftir þessa breytingu. Þetta fólk sér fram á að ef ekki verður snúið til baka með þessa skerðingu missi það íbúð sína, geti það ekki staðið undir leigu, ekki leyst út lyfin sín og ekki átt fyrir brýnustu matvöru út mánuðinn. Ábyrgðin af þessari aðför, sem verður að stöðva, liggur líka hjá hæstv. fjármálaráðherra sem varla hefur blindandi skrifað undir samþykktir lífeyrissjóðanna, ekki bara vegna þess að þær svipta lífeyrisþega stórum hluta framfærslu sinnar heldur líka, hæstv. forseti, vegna þess að undirskrift ráðherrans hefur í för með sér hundruða milljóna kr. útgjöld fyrir ríkissjóð.

 


mbl.is Ráðuneyti ráðalaust fyrir jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Páll Jóhannesson

Ef þú værir í ,,mjúka" stól ráðherrans hvað myndir þú leggja til að ríkisstjórnin gerði?

Páll Jóhannesson, 6.12.2007 kl. 18:13

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Páll:

Þessi ákvörðun lífeyrissjóðanna er búin að vofa yfir öryrkjum í haust og eflaust hafa stjórnvöld vitað af hvað stæði til með lengri fyrirvara en þeir sem urðu fyrir barðinu á henni.  Haustið 2006 beitti Jóhanna sér og setti þrýsting á þáverandi stjórnvöld og stjórnendur lífeyrissjóðanna um að skerða ekki kjör þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og reiða sig á umrædda sjóði.

Ég hef því miður ekki orðið var nokkurn þrýsting stjórnvalda á umrædda sjóðsstjóra en það væri vafasamt fyrir þá að hunsa vilja stjórnvalda þar sem sjóðirnir reiða sig algerlega á lögbundin framlög sem launagreiðendum er skylt að láta af hendi.  Stjórnir sjóðanna eru skipaðar til helminga af fulltrúum atvinnurekenda og launþegahreyfinga en ég gæti sem best trúað því að báðir stjórnarflokkarnir eigi einhver ítök í umræddum stjórnum og gætu hæglega beitt sér ef pólitískur vilji væri á annað borð til þess.  

Það er engu líkara en að Jóhanna Sigurðardóttir hafi látið sig þessi mál í léttu rúmi liggja eftir að hún komst í stólinn mjúka. 

Það sem gerist nú er að öllum líkindum ef að ég þekki kerfið rétt, að skerðing lífeyrissjóðanna verður til þess að tekjutengdar bætur hins opinbera munu eitthvað hækka og það fer af stað einhver furðuleg hringekja með þúsundkalla sem teknir eru annað hvort beint með sköttum eða lögboðnum (launasköttum) með viðkomu í fjárfestingasjóðum lífeyrissjóðanna.

Þetta er algerlega óþolandi að lífsafkoma fjölda fólks sé sett í óvissu og sérkennilegan feril sem fáir skilja fyllilega.

Það voru fullgild rök fyrir stjórnvöld að beita sér til þess að  fá lífeyrissjóðina að hætta við umrædda ákvörðun s.s. að ný ríkisstjórn væri að endurskoða núverandi lífeyriskerfi. 

Niðurstaða mín er að það hafi vantað pólitískan vilja og ég er ekki endilega viss um að viljann hafi vantað hjá Jóhönnu en hún hefur greinilega sofnað í mjúka stólnum.

Sigurjón Þórðarson, 7.12.2007 kl. 00:47

3 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hef ekki geð í mér til að mótmæla í einu eða neinu þessu sem þú setur fram.  Þótti samt ekkert gaman að mæla gránu í mót á mínu bloggeríi, en satt er & verður bara satt, þó að það sé sárt.

Steingrímur Helgason, 7.12.2007 kl. 01:28

4 Smámynd: Páll Jóhannesson

Sæll aftur! þar sem ég er öryrki eftir ýmis áföll á undanförnum árum þekki ég kerfið býsna vel og ég skil hvað þú ert að fara með þessari umræðu. En eftir stendur spurningin mín ,, Ef þú værir í mjúka stól ráðherrans hvað myndir þú leggja til að ríkisstjórnin gerði?".

Páll Jóhannesson, 8.12.2007 kl. 14:31

5 Smámynd: Páll Jóhannesson

Af hverju þessi þögn, hefur þú engin svör?

Páll Jóhannesson, 10.12.2007 kl. 08:50

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sæll Páll.

Ég var ekki í tölvusambandi um helgina ég var í öðru.  Ég hélt að það hefði komið fram í máli mínu að beita fyrst lífeyrissjóðina þrýstingi og ef það dygði ekki þá þarf að breyta lögum.

Sjálfum finnst mér þetta brýnna mál heldur en raflagnirnar á Keflavíkurflugvelli sem að Samfylkingin setti bráðabirgðalög á í sumar sem leið.

Sigurjón Þórðarson, 10.12.2007 kl. 09:34

7 Smámynd: Páll Jóhannesson

Sæll Sigurjón! Réttindamál öryrkja  og aldraða hafa verið í molum lengi, lengi. Það er á ábyrgð Alþingis, þótt lífeyrissjóðirnir spili þar stóra rullu það þekki ég af eigin raun.

Það er hins vegar afar dapurlegt að Alþingi Ísland sem og allir þeir sem setið hafa á hinu há Alþingi skuli endalaust finna leiðir til að koma sér frá rót vandans og tala sig út frá aðalmálinu sem er staða þessara hópa í dag. 

Dapurleikinn birtist hvað mest í því að það skiptir engu máli hvar í flokk menn standa engin vill í raun rétta hlut þessa fólks, þunnt lag af smjörklípu skal duga. Og það sem meira er hörmuleg afstaða stjórnarandstöðu flokka hverju sinni hafa aldrei komið með ábyrgan málflutning og lausnir, þeir segja ,,setjum lög" gott og vel hvaða lög á að setja?

Ég segi að staða þessara hópa sé alfarið á ábyrgð allra þá meina ég allra stjórnmálaflokka sem komið hafa mönnum inn á Alþingi. Nýjasta útspil stjórnvalda er góðra gjalda verð en það þarf meira til. Og það sem öllu skiptir er að ég (sem öryrki) og aðrir sem skipa sér í þennan þjóðfélagshóp þarf skýr svör. Okkur líður ekki betur þótt við fáum svör á borð við ,,setja lög" ,,ekki eins og stjórnin er að gera" við viljum skýr svör. Okkar hagur vænkast ekki með góðum fyrirheitum, heldur aðgerðum sem komast til framkvæmda.

En ef ég tek saman það sem ég er að reyna segja þá er í raun hægt að segja með sanni að Alþingi Íslands (hér er átt við alla þingmenn allra flokka) stendur á sama um afdrif þessa fólks, þingmenn skortir bara kjark til að segja það upphátt.

Páll Jóhannesson, 10.12.2007 kl. 10:14

8 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég er ekki sammála þér Páll og skil ekki hvers vegna þú vilt gera alla flokka samábyrga fyrir núverandi ástandi m.a. Frjálslynda flokkinn sem hefur ekki enn setið í stjórn en lagt fram margar tillögur sem myndu nýtast þessum hópum s.s. hækkun skattleysismarka og um tryggan lágmarkslífeyri.

Fyrir síðustu kosningar lagði þáverandi stjórnarandstaða sameiginlega fram tillögur og þá var 1. flutningsmaðurinn engin önnur en Inibjörg Sólrún Gísladóttir sem er sú sama og snéri við blaðinu í kvótamálum eftir kosningar.

Sigurjón Þórðarson, 13.12.2007 kl. 10:55

9 Smámynd: Páll Jóhannesson

Eftir stendur fullyrðing mín, það gerist aldrei neitt sama hverjir sitja við stjórnvöllinn. En svona hvað vilt þú gera núna nákvæmlega? þeirri spurningu er enn ósvarað.

Þarna endurspeglast munurinn á okkur, þú ert tengdur stjórnmálaflokki, ekki ég.

Páll Jóhannesson, 13.12.2007 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband