Leita í fréttum mbl.is

Æsir tófan upp hungrið í fálkanum?

Þessi pistill fjallar ekki um samskipti Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins, heldur galna líffræði. Nú liggur fyrir veiðiráðgjöf Náttúrufræðistofnunar Íslands um að veiða megi 38.000 rjúpur í haust. Ráðgjöfin byggir á reiknilíkani sem svipar að öllu leyti til reiknilíkans Hafrannsóknastofnunar, þ.e. að áætlað sé að fyrirframákveðinn fasti drepist af náttúrulegum orsökum, sem sagt öðrum orsökum en veiðum. Síðan eru veiðar lagðar við þennan fasta sem ættu þá að vera heildarafföll stofnsins. Það er alveg ljóst að þetta reiknilíkan Náttúrufræðistofnunar gengur engan veginn upp þar sem það hafa tapast út úr stofninum 400 þúsund rjúpur á síðustu tveimur árum sem svarar til fjórfalds varpstofns í vor. Í hnotskurn er ekkert mark takandi á því líkani sem umhverfisráðherra notar til veiðistjórnunar.

Í bréfi Náttúrufræðistofnunar Íslands til umhverfisráðherra, dags. 6. september 2007, var ýmislegt sem flokkast undir galnar líffræðilegar vangaveltur, s.s. að skotveiðar magni upp aðra þætti affalla. Þetta eru sérlega furðulegar vangaveltur þar sem tekið er fram í bréfinu að afföll séu svipuð á friðuðum svæðum og þar sem veiðar eru leyfðar. Þetta er álíka og að telja að fálkinn magni upp matarlystina í tófunni.Það er orðið löngu tímabært að taka þessi líkön til endurskoðunar þar sem þau virðast vera jafn vitlaus hvort sem er í undirdjúpunum eða háloftunum.

Í mínum huga er alveg ljóst að grunnhugsunin í þessum líkönum er röng, þ.e. að áætla að náttúrulegur dauði sé einhver fasti og að öll önnur afföll skrifist síðan á veiðar. Í tilfelli rjúpunnar verður þessi skekkja augljós þar sem hún flögrar ofan jarðar og veiðin er þekkt stærð. Þegar afföll verða mun meiri en líkanið gerir ráð fyrir er farin gamalkunnug leið til að skýra út skekkjuna, þ.e. með því að endurmeta fyrri stofnstærð og segja stofninn minni en fyrri mælingar sýndu, og síðan er farin hin nýja stórundarlega leið að telja að veiðar magni upp önnur afföll. Er ekki orðið löngu tímabært að setja stórt spurningarmerki við þessa reiknileikfimi? Frá því að umrætt stofnstærðarlíkan var tekið í notkun hafa tapast út 400.000 fuglar og það á tveimur árum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það sem ég var að benda í þessari grein var að líkanið notað er til grundvallar veiðiráðgjafarinnar er ekki að ganga upp og þess vegna ónothæft til þeirra verka.

Það er einn mikilvægur punktur sem má ekki gleymast og er rétt að undirstrika en hann er að afföll rjúpu vegna skotveiða eru mikið minni en önnur afföll rjúpnastofnsins.  Það er þvi af og frá að ætla að veiðarnar séu ráðandi um framvindu stofnsins. 

Ég hef átt í talsverðum bréfaskriftum við fjölda veiðimanna víðs vegar um landið og hafa þeir sumir bent á að þeir telji sig sjá að það sé meira af rjúpu þar sem varg s.s. tófu og mink sé haldið niðri.

Það væri hægt að rannsaka þessa tilgáu þeirra með því að leggja áherslu á eyðingu vargs á ákveðnum reitum á friðaða svæðinu á Sv horni landsins og sömuleiðis að mætti gera svipað tilraun á þeim svæðum þar veiðar eru leyfðar og athuga hvort að með veiðum á vargi fáist staðbundin aukning á rjúpu.

Að lokum skal það tekið fram að þó svo slík tilraun sýndi fram á að vargur hefði veruleg áhrif á stærð rjúpnastofnsins þá tel ég af og frá að rétt sé að fara í framhaldinu í einhverjar útrýmingaherferðir og staursetningar á hendur vargnum - Rjúpnastofninn er ekki í neinni hættu.

Sigurjón Þórðarson, 2.10.2007 kl. 16:18

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég og konan mín höfum verið á ferð um norðausturhornið í sumar og t. d. fór konan mín bæði í Fjörður og Flateyardal. Okkur var sagt að aldrei hefði verið svo lítið af rjúpu þar og á svæðinu austur um til Öxarfjarðar, - segja mætti að hún virtist horfin af þessum svæðum.

Það hlýtur að vera hægt að taka mark á svona frásögnum og þá skipta reiknilíkön ekki máli, - það getur varla verið viturlegt að skjóta rjúpur á þeim svæðum þar sem svona er ástatt.  

Ómar Ragnarsson, 2.10.2007 kl. 18:22

3 Smámynd: Eiríkur Stefán Eiríksson

Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki rétt hjá Sigurjóni að gert sé of mikið úr áhrifum veiði á rjúpnastofninn, þótt vafalaust höggvi veiðimenn einhver skörð í stofninn. Þetta bendi ég á því að hér á höfuðborgarsvæðinu - alfriðuðu fyrir rjúpnaveiði - eru greinilega gríðarlegar sveiflur í stofnstærðinni.

Sjálfur geng ég um með hundinn minn í næsta nágrenni Mosfellsbæjar og nú er genginn í garð sá tími þegar ég reyni að fá Funa til að taka nefið upp úr jörðinni og horfa á rjúpurnar. Þær eru merkilega fáar í Hamrahlíðinni í ár, hvað svo sem síðar verður á þessu hausti. Er búinn að sjá sama hópinn - fimm rjúpur - tvo daga í röð. Fyrir réttu ári voru margir hópar á sama stað og mest taldi ég um 50 rjúpur í gönguferð og það nokkra daga í röð. Veðráttan hefur reyndar verið með allt öðrum hætti í haust en fyrrahaust en staða mála ætti að skýrast á næstunni. Varla hafa friðuðu rjúpurnar flogið út fyrir öryggismörk til að láta skjóta sig. Það var fálki á ferðinni í Hamrahlíðinni í byrjun ársins og rjúpnahræ, sem þar voru, bentu til þess að hann hafi setið að veisluborði.

Eiríkur Stefán Eiríksson, 2.10.2007 kl. 18:32

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ómar, Eiríkur og Þorvaldur og aðrir þeir sem kunna að hafa áhuga á sjá brestina í líkaninu sem er hér til umræðu þá get ég sent þeim útreikninga mína sem sýna fram á gapandi vitleysu í líkaninu.

Hvað varðar að  meta fjölda rjúpa á landinu eftir reynslu gönguferða einstaklinga þá er það vandmeðfarið.

Ég var t.d. á ferð í Fljótunum í dag og varð var við rjúpu og reyndar sá ég fálka líka í Sléttuhlíðinni.  Á þriðjudaginn í síðustu viku var ég í Hofsósi og átti erindi í grunnskólann og þar á hlaðinu voru gæfar rjúpur þannig að eitthvað fuglalíf er hér í Skagafirðinum.

Hér að neðan eru línur Austfirðings sem ég fékk í rafpósti um helgina.

Sæll Sigurjón

Ég er sammála þér varðandi ráðgjöf UST í rjúpnamálum. Finnst einnig mjög einkennileg fækkun rjúpu á friðuðu svæði og sérstaklega hversu haldlítil svör sérfræðinga við því eru. Hér fyrir austan skýtur hver sem betur getur en samt fjölgar rjúpu. Var mikið á ferðinni í haust í leiðsögn og mín tilfinnig er sú að meira sé af fugli en í fyrra. Ég hef grun um að mikil tófuveiði hér á Héraði sé ein skýringin á þessu.

Fljótsdalshérað hefur haldið vel utan um vargeiðingu síðustu ár enda er greitt hátt verð fyrir unnið dýr og því hvatning fyrir veiðimenn að halda sér við efnið. Reyndar held ég að hugarfarsbreytingar sé þörf hjá veiðimönnum almennt í þessum efnum.

Sigurjón Þórðarson, 2.10.2007 kl. 21:55

5 Smámynd: Einar Ben Þorsteinsson

Var að koma úr göngum á Austurlandi....það hefur aldrei verið meira af rjúpu!!!

Einar Ben Þorsteinsson, 3.10.2007 kl. 00:31

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég hef heyrt þá tilgátu að rjúpnastofnin sveiflist upp og niður eins og sólblettatíðni á 11 árum. Ég man bara ekki hver setti þessa tilgátu fram, en eins og Sigurjón bendir á þá er full ástæða til að öðlast betri skilning á þessu því veiðarnar gera það hreint ekki eins og Eiríkur og fleiri hafa bent á.

Svo undarlega sem það kann að hljóma fyrir einhveja þá er þessi 11 ára sveifla í sólblettatíðni mjög áberandi hjá radíóamatörum. Radíómerki berast nefnilega áberandi illa þegar 11 ára hringurinn fer á botninn.

Ég er einn þeirra sem hef þá trú að sólblettatíðni hafi meiri áhrif á lífríkið en við vitum um. Einnig er líklegt að áhrif sólar séu meiri á hlýnun og kólnun jarðar en menn hafa hingað til haldið. Sveiflur í hitastigi jarðar hljóta að taka mið af breytilegu hitastigi uppsprettu lífs okkar, sólarinnar. Af þessum sökum er ég einn þeirra sem tel fráleitt sannað að maðurinn sé megin orsök hlýnunar jarðar, því það er vitað að jörðin hefur bæði verið miklu hlýrri og miklu kaldari en nú er. Þetta sanna borkjarnar á heimskautasvæðum svo ekki verður um villst. Árhringir elstu trjáa gefa líka sömu vísbendingar.

Haukur Nikulásson, 3.10.2007 kl. 08:55

7 identicon

Í þessu samhengi er allavega glapræði að ætla að vísa í veiðimenn, það er eins og að hlusta á sjómenn um hversu mikill fiskur sé í sjónum... mikil hagsmunatengsl þar í gangi... Við verðum að hafa eitthvað viðmið og ef það er rétt að þessi líkön sem stuðst er við eru röng, þá verðum við allavega að hafa eitthvað áþreyfanlegra en orð manna út í bæ fyrir því að allt sé að fara til fjandans eða ekki... 

Frelsisson (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 09:06

8 identicon

Það er rjúpa í lóðinni hjá Skúla í Barra, Egilsstöðum! Já og nokkur stykki sá ég með ferjunni út í Hrísey. Næsta mál á dagskrá að afnema með öllu ferjutollinn.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 3.10.2007 kl. 14:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband