Leita í fréttum mbl.is

Veiðar á hrygningartíma - Skrif sjómanns á Vopnafirði

Sæll Sigurjón, mig langar til að koma eftirfarandi á framfæri.
Veiðar á hrygningartíma?
------------------------------------
Að ráði Hafró er þorskveiði á hrygningartíma takmörkuð og yfirlýst af þeirri stofnun að sú ráðstöfun skipti höfuðmáli. Hinsvegar hafa einu takmarkanir á grásleppuveiði verið vegna markaðsaðstæðna.
Grásleppan er nær eingöngu veidd vegna hrognanna og er veiðiálagið mikið og staðbundið. Vissulega er veiðin misjöfn eftir árum, en alls ekki niður á við öll árin, þrátt fyrir sóknina.
Það skilur á milli veiða á þorski og grásleppu að því leyti, að ókynþroska grásleppa er ekki veidd að neinu marki svo vitað sé. Sem sé, ungviðinu er hlíft við veiði. Annað er í gangi hvað þorskinn varðar. Smár þorskur ( 1,5-3,0 kg ) er uppistaðan í bolfiskafla  togveiðarfæra, þ.m.t. dragnót. Krókaveiðarfæri skila álíka stærð, en skilja að auki eftir slóð af dauðvona fiski í sjó og að kalla þau umhverfisvæn stenst ekki skoðun. Einu veiðarfærin sem hlífa smáfiski eru netin.
Sala grásleppuhrogna.
-------------------------------
Undanfarin ár hefur verið offramboð á grásleppuhrognum. Samtök fiskimanna í framleiðslulöndum hafa reynt að hafa samráð um veiði, en með misjöfnum árangri. Verðin hafa verið léleg, enda áhuginn og afkoman eftir því.
Síðasta áratug hafa íslensku hrognin verið að mestu leyti keypt af innlendum niðurlagningarverksmiðjum. Þar hefur samráð um verð verið augljóst, og með því að leggja til tómtunnur og salt hafa verksmiðjurnar tryggt sér hrognin.
Tiltölulega lítið magn hrogna hefur verið á lausu til útflutnings og hafa erlendir aðilar sótt sitt hráefni annað.
Vissulega er þetta innlenda framtak að mörgu leyti jákvætt, en einhver útflutningur þyrfti að vera samhliða í þeim tilgangi að viðhalda orðspori íslenskra hrogna erlendis. Til að svo megi verða þurfa íslenskir veiðimenn að hafa kjark til að salta hluta hrognanna upp á eigin spýtur.
----------------
Að lokum Sigurjón, þá finnast mér þessi skrif eiga erindi á þína heimasíðu, því mér finnst líklegt að smábátasjómenn líti þar við og væri fróðlegt að heyra álit manna. Einhver myndi etv spyrja hvort þessi skrif ættu frekar heima á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. En á þeim bæ er engin umræða í gangi og þrátt fyrir að vera lögskipaður aðili að þeim samtökum, þá var mér meinað aðgengi að heimasíðunni síðast er ég reyndi.
Með kveðju
Vilhjálmur Jónsson
Vopnafirði

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Aðgangur að heimasíðu LS, Vilhjálmur hefur verið lokaður fyrir fleirum en þér. Ég hef nokkrum sinnum ætlað að skrifa þar inn, en ekki tekist.Ég kann engar skýringar á því.Kveðja,Geiri.

Sigurgeir Jónsson, 12.8.2007 kl. 14:40

2 Smámynd: Hallgrímur Guðmundsson

Athyglisverðar pælingar um veiðar á hrygningartímanum. Skildi það vera mikil sókn sem beinist að hrygningarfiski hafi ekki teljandi áhrif á stofnstærð þeirra. Uppsjávarveiðar á torfufiski flokkast ekki undir þessar 
pælingar. Samber veiðar á Grásleppu sem eingöngu er veidd á þeim tíma. Nú veiðar á Laxi eru að svipuðum toga, Lax sem gengur í árnar er hrygningarfiskur. Það virðist vera alveg sama hvað veitt er mikið mis miklu sleppt, og gríðarlegar seiðasleppingar á hverju ári, stærð stofnsins sveiflast upp og niður sama hvað mannskepnan 
gerir. Göngur og veiði Laxins eru í engu samræmi við athafnir okkar mannanna. Lífríkið og utanaðkomandi aðstæður virðast ráða þessu. Sem sagt náttúran sér um sína. Talandi um hvað er umhverfisvænt og hvað ekki er síðan efni annan pistil sem bíður betri tíma.
kv. Halli

Hallgrímur Guðmundsson, 12.8.2007 kl. 14:58

3 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Það er til marks um hvað Sigurjón Þórðar skipar stóran sess í huga fólks þegar kemur að málefnum hinna dreifðu byggða og sjávarútvegsmálum að það setur bréf sín inn á síðuna hans. Hann er ókrýndur sendiherra landsbyggðarinnar. Hagur hennar hefur verið honum mjög hugleikið alla tíð. Auk þess eru sjávarútvegsmál hans ær og kýr. Því er ekki að undra þó sjómenn setji sín bréf inn á síðuna hans, sérstaklega með hliðsjón af því að þeir komast ekki inn á síðu sinna hagsmunasamtaka.

Gunnar Skúli Ármannsson, 12.8.2007 kl. 23:44

4 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er rétt sem Halli bendir á að það er sammerkt með Grásleppuveiðum og Laxveiðum að það eru veiðar sem nær eingöngu eru stundaðar  á hrygningarfiski.  Það er eftir að laxveiðar í sjó var að mestu hætt. 

Seiðasleppingar að frátöldum gönguseiðasleppingum hafa litlu sem engu skilað í aukinni laxveiði í ám og ég hef heldur ekki séð óháða athugun á að veiða og sleppa veiðiaðferðin hafi skilað meiri veiði á laxi.

Ég er þeirrar skoðunar að það séu líffræðileg rök í þá átt að rétt sé að veiða allar stærðir fiska stóra og smáa.  Ef við gefum okkur að veiðar hafi einhver áhrif á fiskistofna sem ég tel reyndar að séu stórlega ofmetin að þá er mikilvægt að veiða úr öllum stærðum þar sem að fiskar lifa jú hverjir á öðrum og fyrir vöxt stærri fiska er mikilvægt að það sé eitthvað af millistórum munnbitum (fiskum) sem henta þeim en ef að veiðar okkar snúa eingöngu að þessum fiski þá er hætt við að það verði einhver óheppileg stór þrep gætu myndast í orkuflæði í vistkerfinu þar sem eins dauði er annars brauð.

Helstu merki um að rétt sé að minnka veiðar og stunda fiskvernd eru  að það séu fáir smáir fiskar sem vaxa mjög hratt.  Nú sýna niðurstöður mælingar að einstaklingsvöxtur er við sögulegt lágmark og stöðugt berast fréttir af lokun veiðisvæða vegna smáfisks, þannig að það er fátt sem ekkert sem bendir til þess að það sé rétt að skera niður þorskveiðar.

Það er rétt að velta fyrir sér hvað menn eiga við með vistvænar veiðar en sumir s.s. ýmsir í VG slá um sig með að hin og þessi veiðiaðferðin sé vistvænni en önnur án þess að skilgreina það með einhverju móti.  Eitt er víst að veiðar í kvótakerfi eru ekki vistvænar þar sem í þeim er innbyggður hvati til brottkasts.

Sigurjón Þórðarson, 13.8.2007 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband