Leita í fréttum mbl.is

Konur bættar um þorsk

Umræðan um þorskkvóta næsta árs hefur farið út um víðan völl. Fáránlegustu tillögurnar hafa komið úr Háskóla Íslands en Hagfræðistofnun þeirrar stofnunar lagði til að þorskveiðum yrði hætt í nokkur ár til að fá meira seinna. Við sem höfum fylgst með „ráðgjöf“ umliðinna ára vitum að þetta „seinna“ hefur enn ekki komið heldur aðeins meiri niðurskurður. Og varla annars að vænta þegar töfraorðinu „seinna“ er kastað inn í umræðuna.

Nú keppast stjórnarflokkarnir Sjálfstæðisflokkur og Samfylking við að boða „mótvægisaðgerðir“ til að aðstoða byggðir sem munu fara illa út úr niðurskurðinum sem á auðvitað þegar fram í sækir að skila þrisvar sinnum meiri afla.

Samfylkingin boðar tillögur sem fela í sér að fiskveiðiheimildum sem ætlaðar eru byggðarlögum sem standa höllum fæti verði ráðstafað til hæstbjóðenda og fjármunum sem fáist úr þeirri sölu verði síðan ráðstafað til að aðstoða sömu sveitarfélög. Nú berast þær fréttir frá ríkisstjórninni að þessi vinna sé svo langt komin að það sé verið að vinna tillögur til þess að skipta fjármununum jafnt niður á karl- og kvenkynsþorpsbúa.  

Það á að bæta konur um nokkra þorska.

Eflaust væri þetta allt gott og blessað ef það væri búið að ígrunda forsendur niðurskurðarins en svo er alls ekki enda hafa stjórnvöld enn ekki rætt við þá sem hafa lagt fram vel rökstudda gagnýni á veiðiráðgjöfina, hvað þá haft fyrir því að fara yfir hana. Jón Kristjánsson fiskifræðingur lagði t.d. fram gögn sem enginn hefur hrakið, gögn sem sýna að stór hrygningarstofn sé langt í frá að vera ávísun á nýliðun - samt er haldið áfram og boðaðar sérstakar mótvægisaðgerðir fyrir konur.

Miklu nær væri að auka frelsi í handfæra- og línuveiðum, nota gjöful fiskimið þar sem þau eru og leyfa t.d. íbúum að veiða innan 4 mílnanna. Skaðinn væri enginn fyrir heildarhagsmuni, en ávinningurinn fyrir íbúa sjávarbyggðanna mikill. Sem sagt hagur allra, íbúa til sjávar, sveita og þéttra byggða, kvenna sem karla.

Margir þingmenn stjórnarflokkanna eru ekki óvanir að ræða miklu flóknari hluti en uppbyggingu fiskistofnanna og þeim ætti því ekki að verða skotaskuld úr því að rökstyðja forsendur veiðiráðgjafar Hafró. Ég vísa þá m.a. til þess að margir eiga það til að setja á langar (og lærðar?) ræður um áhrif koltvísýrings á hlýnun jarðar.

Það hlýtur að mega gera þær kröfur til kjörinna fulltrúa að þeir fari á gagnrýninn hátt yfir forsendur ákvarðana sem hafa gríðarleg áhrif á hag þjóðarinnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Skúli Ármannsson

Gott hjá þér Sigurjón. Eins og ég skil þetta þá eiga verst settu byggðirnar að kaupa kvóta á uppboði og fá síðan bæði peningana og kvótann til baka. Ég held ég verði seint stjórnmálamaður.

Gunnar Skúli Ármannsson, 4.7.2007 kl. 20:53

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ótrúlegur málflutningur alveg hreint. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.7.2007 kl. 08:59

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sko, ef þú ert eithvað að gagnrýna þessa sjálfsögðu aðgerð, þekkir þú ekkert til reynsluheims kvenna.

Auðvitað kemur niður á konum, að sjómenn (karlar og konur) komist ekki á sjóinn. 

Það er ekkert útla´talaust, að karllufsurnar sitji slímsetu á eldhúsbekkjum sjávarútvegs-þorpa víðsvegar um landið.

Auðvitað misa konur einnig úr vinnu við þá örfáu fiska, sem rata á færiböndin en fara ekki með trukki eða flugi út í lönd til að forframast og ,,hvítna í hafi" í útlöndum.

Svo er það að athuga, að einhverjar bætur verða að koma fyrir andlegt álag, að hafa viðhengin ætíð heima, táfýlan á við í argasta lúkkar.

Iss ekki sé ég neitt eftir þeim aurum, sem settir verða í bætur til kvenna víðsvegar um  sjávarbyggðir landsins, þekki nefnilega allmarga karla þeirra persónulega og get klárlega borið um, að þeir eru hundfúlir, ef þeir komast ekki á sjóinn í svona viku, hvað þá heilu mánuðina.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 5.7.2007 kl. 11:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband