Leita í fréttum mbl.is

Ferjan og fiskurinn í Grímsey - verður eitthvað að flytja?

Það er mikill hráskinnaleikur sem fram fer af hálfu stjórnarliða í umræðu um nýja ferju til Grímseyjar og nú virðist sem það eigi að kenna sveitarstjórn Grímseyjarhrepps um að kostnaður við endursmíði ferjunnar fari upp úr öllu valdi. 

Enn og aftur tekst Sjálfstæðisflokknum að klúðra endurbótum á skipakosti þjóðarinnar, s.s. varðskipum og hafrannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni.

Það hefði mátt ætla að stjórnvöld hefðu lært eitthvað af fyrri axarsköftum, s.s. þegar Björn Bjarnason sendi varðskipin til viðgerða til Póllands. Þegar búið var að taka saman kostnaðinn við ferðalög og ýmsan aukakostnað reyndist hann hærri en sem nam tilboði frá Slippnum hér á Akureyri.

Nú stefnir sem sagt í að endurbætur á gamalli ferju verði dýrari en að smíða nýja Grímseyjarferju sem hefði verið sniðin að þjónustu við atvinnuveg og íbúa Grímseyjar. 

Það sem skiptir þó öllu máli fyrir Grímseyinga er að það verði veigamiklar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Forsenda fyrir áframhaldandi blómlegri byggð í Grímsey er auðvitað að það verði tryggt að það geti orðið nýliðun í sjávarútvegi og að byggðunum verði tryggður ákveðinn réttur til sjósóknar.

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt tillaga sem gekk út á að afnema byggðakvóta. Það skýtur auðvitað skökku við að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komi í tugatali til Grímseyjar til að boða óbreytt kvótakerfi sem grefur örugglega undan sjávarbyggðunum og þar með talið Grímsey.

Ef kvótakerfinu verður ekki breytt er undir hælinn lagt hvort það verði einhverjir flutningar til og frá Grímsey.

Frjálslyndi flokkurinn boðar skynsamlegar breytingar á stjórn fiskveiða sem mun koma sjávarbyggðunum vel, s.s. að taka aukategundir út úr kvóta, heimila frjálsar handfæraveiðar og auka þorskafla og nota það svigrúm til þess að tryggja nýliðum aðgang að greininni. 

Það felast gríðarleg tækifæri í því að breyta núverandi kvótakerfi, ekki einungis fyrir íbúa sjárvarbyggðanna heldur landsmenn alla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband