Leita í fréttum mbl.is

Það sem ekki var sagt

Þögn S og D

Það sem var markvert við ræður formanna Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var ekki það sem var sagt heldur það sem var ósagt. Hvers konar stjórnmálaleiðtogar eru það sem hlaupa yfir helsta ágreinings- og óréttlætismál síðari tíma, þ.e. kvótakerfið í sjávarútvegi? Eru það miklir stjórnmálaleiðtogar?

Í ræðu „jafnaðarmannaleiðtogans" Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur kom nákvæmlega ekkert fram um mesta óréttlætismál Íslandssögunnar, kvótakerfið sem hefur farið ránshendi um sjávarbyggðirnar. Ekkert einasta orð. Og fiskveiðar eru, vel að merkja, aðalútflutningsgrein landsmanna, meira en helmingur af vöruútflutningi kemur úr þessari atvinnugrein. Það er alls ekki trúverðugt hjá jafnaðarmanni að hlaupa yfir þetta óréttlæti.

Það er greinilegt að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur ekki borið sitt barr síðan hún lagði leið sína inn á fund LÍÚ haustið 2005 til að friðmælast við þau samtök sem vilja með kjafti og klóm vernda glórulaust kerfi í sjávarútvegi.

Geir Haarde hefur líklegast stokað út sinn öfugmælakafla um ábyrga stefnu í nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar en hann hefur verið drjúgur við að fara með öfugmæli um einhvern árangur kerfis sem hefur þrefaldað skuldir sjávarútvegsins á áratug á meðan tekjur hafa staðið í stað.

Það sem hefur að öllum líkindum orðið til þess að hann stökk yfir þennan öfugmælakafla er að nýjar niðurstöður Hafró sýna að svokölluð uppbygging á þorskstofninum hefur algerlega brugðist. Nýjar niðurstöður úr vorralli Hafró gefa til kynna að íslenska þjóðarbúið verði af tugmilljarðatekjum vegna minnkandi þorsk- og ýsuveiði ef farið verður að ráðum Hafró eins og Sjálfstæðisflokkur hefur gert gagnrýnislaust um áratugaskeið.

Það er auðséð að hvorki Samfylking né Sjálfstæðisflokkur treysta sér til að taka á málum og ætla að eftirláta öðrum að taka af skarið. Frjálslyndi flokkurinn kveinkar sér ekki undan ábyrgð frekar en óvinsælum ákvörðunum ef þær eru réttar og mun glaður taka til hendi í þessum málaflokki.Við erum þegar byrjuð að bretta upp ermarnar og hlökkum til að láta verkin tala ef við fáum til þess umboð. Vindum ofan af kvótakerfinu og færum byggðunum aftur atvinnuréttinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ágæti Sigurjón. Ég veit vel, að þessi athugasemd mín er á skjön við skrif þitt hér og efni þess. En - hvernig stendur á því, að stjórnmálamenn, þingmenn, geta skipt um skoðun á helstu málum, þar á meðal fiskveiðistjórnarmálum, eins og hendi sé veifað? Ég er eldri en tvævetur og hef horft upp á sitthvað í þeim efnum. Þannig var ég t.d. á sínum tíma ritari á fundi kjördæmisráðs nokkurs fyrir vestan þegar kosið var í sæti á framboðslista. Maður nokkur þar vildi vera áfram í þriðja sætinu á eftir Einurunum tveimur. Þá var enn sérstakt Vestfjarðakjördæmi. Þessi ágæti varaþingmaður sóttist eindregið eftir þriðja sætinu. En - konur risu upp og sögðu eitthvað á þá leið, að þeim fyndist ótækt að eintómir miðaldra jakkafatakallar væri í efstu sætunum. Kona var boðin fram, kosið var á fundinum, og atkvæði voru jöfn. Aftur var kosið og þá vann konan með minnsta mun. Maðurinn sem sóttist eftir þriðja sætinu sat beint fyrir framan mig, enda fyrsti varaþingmaður. Ég sá hvernig hann dökknaði og þrútnaði í framan þegar niðurstaða kosningarinnar var ljós. Hann er kurteis maður og sagði ekki aukatekið orð. En - á þessari stundu öðlaðist hann allt aðrar skoðanir á helstu samfélagsmálum. Hann er núna formaður Frjálslynda flokksins. Þessi maður er einn þeirra sem mér þykir vænst um af fólki mér óskyldu. Ég hef þekkt hann í áratugi og vann með honum mjög lengi í pólitísku starfi. Ég veit að þetta er hlýr og góður og góðviljaður maður. Persónulegt viðhorf mitt til hans, væntumþykja og hlýja, hafa ekkert breyst. Mér finnst þetta hins vegar eitt af skýrustu dæmum þess, hvernig pólitíkusar skipta um skoðanir eftir því hvernig vindur blæs hverju sinni. Mér finnst eiginlega hálfleitt að taka einmitt þennan góða mann sem dæmi í þessum efnum, en skylt er skeggið hökunni, eins og þar stendur. E.t.v. kemur að því, að ég birti hugleiðingar mínar um þessi mál og önnur þeim skyld. Ég hef ýmsu kynnst á langri ævi. Og - rétt að taka fram, að það snýst ekki um neina flokkapólitík.

Hlynur Þór Magnússon, 21.4.2007 kl. 11:43

2 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ég þakka fyrir þessi skrif og mun bera þau undir GAK en ég get getið þess að í samtölum mínum við fyrrum flokssmenn Guðjóns í Sjálfstæðisflokknum þá hafa þeir tjáð mér að Guðjón Arnar hafi ítrekað reynt að ná fram breytingu á stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum sem er byggðunum fjandsamleg. Stefnan hefur heldur ekki leitt af sér uppbyggingu fiskistofna eða hvað þá elft þjóðarhag.

 Hitt er svo annað mál að ég fæ ekki nokkrun botn í að fólk sem ætlar að búa í sjávarbyggðunum að það geti hugsað sér að styðja kvótaflokkana Sjálfstæðis og Framsóknarflokks. Flokkarnir hafa meinað fólki að sækja sér björg í hafið og nýlega hækkað rafmagnsreikninginn upp úr öllu valdi. 

 Mér hefur stundum verið hugsað til Einars Odds sem býr á Sólbakka og horfir niður á byggðina á Flateyri  sem hefur farið mjög hallloka undan kerfi sem Einar Oddur hefur stutt með ráð og dáð.

Ég hef oft pælt í því hvort að Einar Oddur og félagi hans Einar Kristinn hafi einhverja sómatilfinningu þ.e. að verja kerfi sem hefur rústað þeirra heimabyggðum.

Þetta er vægast sagt ömurlegt hlutskipti sem þessir tveir Vestfirðingar hafa kosið sér og ég er sannfærður um að sagan muni ekki fara mjúkum höndum um þá Einarana.

Sigurjón Þórðarson, 21.4.2007 kl. 13:29

3 Smámynd: Kristján H Theódórsson

Varðandi inn legg Hlyns Þórs!

Sé ekki í raun hvernig Guðjón hafi í raun þurft að kúvenda skoðunum sínum þótt hann yfirgæfi sinn gamla flokk ef hann sá litla möguleika á að ná fram breytingum á stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum. Guðjón getur auðvitað best svarað fyrir það sjálfur ,hvaða stefnu hann aðhylltist meðan hann var innanbúðar hjá íhaldinu!  Hans hlutur er a.m.k. miklu skárri en þeirra Einaranna ,sem þóttust berjast gegn kerfinu og fengu kosningu hvað eftir annað útá andóf við kvótakerfið, en lippuðust svo niður er þingsætunum var náð, svo maður tali nú ekki um þann sem er nú í ráðherrastólnum sem máli skiptir en gerir samt ekkert af viti!

Enn ei mótrökin við athugasemd Hlyns eru þau, að auðvitað er það engin hneisa að skipta um stefnu , ef maður telur sig hafa verið á rangri leið!

Kristján H Theódórsson, 21.4.2007 kl. 18:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband