Leita í fréttum mbl.is

Eyfirðingar harðir á móti kvótakerfinu - grein eftir eyfirskan sjómann

Eyjafjarðarsvæðið og Norðurlandskjördæmi eystra hefur löngum verið talið vagga Framsóknarflokksins og varpstöðvar frá fornu fari. Það er ekki fjarri lagi og hér var einnig vagga Samvinnuhreifingarinnar og Kaupfélaganna. Flestir voru háðir sínu Kaupfélagi bæði með vinnu og nauðsynjar, raunar þurftu menn varla að leita annað. Á Akureyri voru Sambandsverksmiðjurnar mjög stór vinnustaður sem ásamt KEA sá til þess að flestir hefðu vinnu þó launin væru vissulega lág.

Síðar komst Útgerðarfélag Akureyringa á legg, en í því fyrirtæki áttu fjölmargir bæjarbúar hlut ásamt Akureyrarbæ.

Allt til þessa dags hefur Framsóknarflokkurinn verið í forystuhlutverki í kjördæminu sem og bæjarmálum á Akureyri, en margt hefur þó breyst frá því sem áður var.

Sambandsverksmiðjurnar eru horfnar, KEA lítið annað en peningaskúffa með fjármunum sem bændur og aðrir félagsmenn töldust áður eiga og sjálft gulleggið, Útgerðarfélag Akureyringa selt undir forystu Framsóknarmannsins og fyrrum bæjarstjóra Jakobs Björnssonar í andstöðu við meirihluta bæjarbúa.

Nú er svo komið að flest öll stóru fyrirtækin sem áður voru í eigu Akureyringa hafa verið seld úr bænum og þau sem enn eru til eru með höfuðstöðvar fyrir sunnan.

Það skal því engan undra þó fjarað hafi undan fylgi Framsóknarflokksins á kjörtímabilinu sem þrátt fyrir að hafa verið í ríkisstjórn hefur ekkert beitt sér í atvinnumálum hér fyrir norðan.

Raunar er staðan sú að atvinnuleysi á svæðinu hefur verið með því mesta á landsvísu um árabil. Í febrúar var atvinnuleysi á landinu 1.3%, en 2.3% á Norðurlandi eystra.

Ekki bætir úr skák að svæðið er láglaunasvæði sem stendur langt að baki t.d. suðvestursvæðinu.

Margir telja að um sé að kenna slappri verkalýðsbaráttu og athyglisverð er sú staðreynd að nær öllum verkalýðsfélögum á Akureyri er stjórnað af Framsóknarmönnum.

Það þótti mörgum sárt þegar bærinn seldi hlut sinn í ÚA og óttuðust mjög um framtíð fyrirtækisins. Sá ótti hefur ekki reynst ástæðulaus. Fyrir nokkrum árum var fyrirtækið selt útgerðarmanni frá Rifi sem þegar hófst handa við “hagræðinguna”.

Skrifstofufólki flestu var sagt upp og þau störf flutt til Reykjavíkur. Frystiskip voru seld þar sem tugir sjómanna og þeirra fjölskyldur urðu af miklum tekjum og margir þeirra hafa enn ekki komist í skipspláss eða orðið að flytja úr bænum.

Þá hefur einnig verið dregið verulega saman í ísfiskflota fyrirtækisins auk þess fækkað hefur í áhöfnum þeirra skipa sem enn eru á sjó. Hinn nýji eigandi er einnig talinn einn stærsti kvótaleigusali landsins.

Framtíðaráætlanir hans virðast vera mjög á reiki varðandi fyrirtækið. Um tíma ætlaði hann að láta smíða nokkra línubáta og skipta togurum út fyrir þá, en nú virðist sú áætlun ekki lengur í gildi.

Öllum að óvörum festi hann síðan kaup á mjög stórum frystitogara frá Noregi fyrir nokkru, en hann á fyrir einn stærsta frystitogara landsins Guðmund í Nesi sem gerður er út frá Rifi.

Því er nú spurt, hvar fæst kvóti fyrir hið nýja og afkastamikla skip sem hlýtur að verða að skila miklum afla í land til að dæmið geti gengið upp.

Er nú komið að því að loka frystihúsinu á Akureyri, einum af síðustu stóru vinnustöðum í bænum og færa þá vinnslu út á sjó? Þar færu 100-150 störf.

Hver veit og raunar hefur enginn neitt um það að segja nema eigandinn sjálfur.

En á sama tíma og störfum á Akureyri hefur fækkað beinlínis vegna aðgerða Framsóknarflokksins tala þeir fjálglega um að þeir ætli að fjölga störfum. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra hælir sér jafnvel af því að hafa nú nýlega flutt ein 5 störf við skjalaþýðingar fyrir ráðuneytið norður til Akureyrar!

Akureyri sem var kvótahæsti bær landsins er nú að missa þann titil einnig. Guðmundur Kristjánsson eigandi ÚA hefur tekið þá ákvörðun að flytja skráningu á Akureyrartogunum til Reykjavíkur og skráningarnúmer þeirra munu breytast úr EA í RE. Þar með fer allur kvóti þeirra eða ÚA til Reykjavíkur. Svo einfalt er það nú í því fiskveiðistjórnunarkerfi sem við líði er að flytja björgina á milli byggðarlaga.

Og ástæðan sem Guðmundur tilgreinir fyrir þessum flutningi er sú að formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar sé ekki nægilega jákvæður og of stífur við að framfylgja kjarasamningum. Skemmtileg skilaboð það, að ekki þurfi að fara eftir kjarasamningum í Reykjavík.

Frjálslyndiflokkurinn mun leggja höfuðáherslu á atvinnumál í kjördæminu og veitir ekki af að snúa þeirri óheillaþróun við sem átt hefur sér stað á liðnum árum.

Sjávarútvegur var og á að geta verið áfram hin raunverulega stóriðja í kjördæminu. Álver á Reyðarfirði og væntanlega á Húsavík er góð viðbót og ætti að tryggja þessu stóra kjördæmi góða framtíð.

Til þess að svo megi verða er þó nauðsynlegt að losa um tök hinnar dauðu handar Framsóknarflokksins sem svo allt of lengi hefur staðið í vegi fyrir framförum og nýjum tímum á Eyjafjarðarsvæðinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Eggertsson

Ágæt samantekt.  Framsóknarflokkurinn er löngu búinn að glata uppruna sínum og hugsjónum.  Hann þar alveg á sama báti og Sjálfstæðisflokkurinn, -og vonandi sekkur sá bátur fljótlega með þeirri ræningjaáhöfn.  Allar þeirra gerði undanfarin ár hafa miðast við að hlaða undir valdaklíkur flokkanna, valdar ættir og volduga vini.  Þeir hafa enga sómatilfinningu lengur.  Gróðapungar, eins og títtnefndur Guðmundur frá Rifi er til skammar fyrir land og þjóð.  Eflaust eru þar einhverjir sem lofsyngja hann fyrir snilldina við að plata Akureyringa, en hann svikin hans eru bara geymd en ekki gleymd. 

Kjartan Eggertsson, 13.4.2007 kl. 22:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband