Leita í fréttum mbl.is

Hvernig hljómar réttlætið?

Í kjölfar kreppunnar hafa stjórnmálaöfl keppst við að benda á leiðir til þess að afla meiri verðmæta til þess að komast út úr samdrætti og þrengingum. Aðferðirnar hafa verið margvíslegar, s.s. að byggja fleiri álver, skera niður opinber útgjöld, ýmist hækka eða lækka skatta, afskrifa lán, auka ferðaþjónustu, borga Icesave til þess að fá meira af erlendum lánum og styrkja skapandi greinar. Við í Frjálslynda flokknum höfum verið óþreytandi við að benda á auðveldustu leiðina til verðmætasköpunar, þá að sækja aukin verðmæti í vannýtta sjávarauðlindina. Botnfiskveiðin nú er einungis helmingurinn af því sem hún var fyrir tveimur áratugum. Nú er lag, sama lagið og við höfum löngum bent á. Er ekki tímabært að leggja við hlustir?

Áður en lengra er haldið í kapphlaupi verðmætasköpunar er rétt að staldra við og gera sér grein fyrir að fáar þjóðir eru eins stórtækar í að framleiða vörur til útflutnings og Íslendingar. Útflutningsverðmæti þjóðarinnar samsvara um 1,6 milljón króna á hvern landsmann. Verðmætin eru slík að þau ættu að vera ávísun á kóngalíf en ekki langar biðraðir eftir mat. Hlusta! 

Það sem fór úrskeiðis var fyrst og fremst lögleysa, sóun og spilling en alls ekki skortur á útflutningsverðmætum. Nauðsynlegt er að koma á samfélagssátt en til þess þarf fyrst og fremst að koma á réttlæti. Án réttlætis og sanngjarnra stjórnarhátta má ganga að því sem vísu að aukin verðmætasköpun muni ekki nýtast til þess að bæta lífskjör landans. 

Fjórflokkurinn virðist enn berja taktfast og samtaka hausnum við steininn í því að taka ekki á ranglæti samfélagsins. Honum virðist líka hljómurinn í því en sá tónn er falskur.

Ekki er hægt að búast við því að nokkur sátt verði um að stritandi almenningur greiði Icesave á meðan þeir sem eiga sök á bankablekkingum spranga um eins og fínir menn í London og fái í verðlaun skattaafslátt hjá stjórnvöldum. 

Ekki er hægt að búast við því að nokkur sátt verði meðal almennings um að missa vinnuna á meðan fjárglæframennirnir sitja sem fastast í bankakerfinu eða eru ráðnir án auglýsingar inn í stjórnkerfið.

Ekki verður nokkur sátt um að almennir lántakendur fái enga leiðréttingu á meðan spilltir stjórnmála- og fjárglæframenn fá þúsundir milljóna afskrifaðar og hvað þá að útrásarslóðar eins og Ólafur Ólafsson ráði helstu útgerðarfyrirtækjum á meðan stjórnvöld hirða ekki um að koma á móts við álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um jafna nýtingu borgaranna á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Hvað heyra menn eiginlega í turnunum sínum?

Engum vafa er undirorpið að tækifærin til verðmætasköpunar eru svo sannarlega fyrir hendi á Íslandi. Algjör frumforsenda þess að þau nýtist Íslendingum til heilla er að koma á réttlátu samfélagi.  Stuðningsmenn Frjálslynda flokksins hafa lagt þeirri baráttu lið á umliðnum árum og munu gera það áfram. Við kunnum rétta lagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband