Leita í fréttum mbl.is

Var formaður fjárlaganefndar í spreng?

Í morgun þá hlotnaðist mér sá heiður að fá að fylgjast með "störfum" fjárlaganefndar Alþingis  í gegnum fjarfundarbúnað. Á dagskrá nefndarinnar var að fara yfir álitsgerð Daggar Pálsdóttur um skerðingu á réttindum sjúklinga vegna fyrirhugaðs niðurskurðar á hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga. 

Dögg fór skilmerkilega í stuttu en hnitmiðuðu máli yfir vel rökstudda greinargerð sína og Bjarni Jónsson forseti sveitarstjórnar gerði sömuleiðis vel grein fyrir afdrifaríkum afleiðingum niðurskurðarins fyrir samfélögin og stofnanir.

Næst var komið að ræðuhöldum þingmanna þar sem þeim var m.a. gefinn kostur á að spyrja út í álitsgerð Daggar og nýttu einstaka þingmenn það ágætlega s.s. Kristján Þór Júlíusson. Björn Valur Gíslason setti hins vegar á mikil ræðuhöld um  sinn gamla heimabæ Ólafsfjörð og heimspekilegar og djúpar vangaveltur um það hvort að það hafi verið brotin á sér mannréttindi sem barni, þar sem aðgangur að sjúkrahúsum hafi verið takmarkaðri þar en t.d. á Akureyri.  Inn í þessar pælingar fléttaði varaformaður fjárlaganefndar margvíslegar og oft flóknar spurningar sem erfitt var að henda reiður á.

Ræðuhöld Þórs Saari komu mér einna mest á óvart en tók á fundinum tók hann einarða afstöðu með vanhugsuðum niðurskurðartillögum sem runnin eru undan rifjum AGS.  Taldi þingmaðurinn tillögurnar sem rústa heilbrigðisþjónustu í heilu landshlutunum góðar til að vekja fólk upp og jafnvel koma því inn í nútímann.

Þegar hér var komið við sögu þá var komið að kaflaskiptum og gestum fundarins ætlað að veita svör við spurningum og heimspekilegum ræðum þingmanna.  Áður en gestum gafst færi að ljúka upp raust sinni þá tók formaður fjárlaganefndar það skýrt fram að nánast enginn tími væri til þess að svara og var engu líkara en hún væri í miklum spreng og yrði að komast sem fyrst út af fundi til að létta á sér.

Á þeim örstutta tíma sem gestum gafst til svara náði þó að leiðrétta ákveðna vanþekkingu og misskilning þingmanna á staðháttum s.s. benti yfirlögregluþjónninn á Sauðárkróki Stefán Vagn Stefánssyni, Þór Saari á að það tæki talsvert lengri tíma en hálftíma þrjúkorter að keyra frá Sauðárkróki og til Akureyrar enda er vegalengdin rúmir 120 km og yfir fjallveg að fara.

Ég var nokkuð undrandi á léttúð sumra þingmanna og áhugaleysi þeirra á að fá svör við þeim spurningum sem þeir þó spurðu á fundinum, sérstaklega í ljósi alvarleika málsins.  Löngu tímabært er að sjónvarpa á netinu frá fundum þingnefnda en ég er viss um að ef almenningur í Skagafirði og Þingeyjarsýslum hefði getað fylgst með fundinum þá hefði bæði verið mikið áhorf og annar bragur á fundinum.  

 

 

 

 

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Baldursson

Dæmigerð valdníðsla að skera tímann við nögl.
Frásögnin verður samt alltaf "áttum gagnlegan fund þar sem allir fengu að koma sínum sjónarmiðum að".

Þessi ríkisstjórn kallar sig ekki réttu nafni. Í stað Norrænnar Velferðastjórnar þyrfti hún að  gangast við nafni ástundunnar sinnar "Ríkisstjórn næstu viku", því eins og þjóðinni fer að verða ljóst, þá er lausnar að vænta í næstu viku...við öllu...í næstu viku...já eftir helgi...í næstu viku...

Haraldur Baldursson, 23.11.2010 kl. 12:50

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Sigurjón.

Ef rétt er, þá er eitrað peð í (Borgara)Hreyfingunni.

Þú lýstir algjörum fávitahætti Þórs Saari, og  ef maðurinn telur sig hafa vald til að valtra yfir landsbyggðina, þá er ljóst að hann er hluti núverandi valdastéttar.  Og laumupeð frá AGS.

Það er ótrúlegt dómgreindarleysi kjaftastéttar Reykjavíkur að halda að landsbyggðin svari ekki fyrir sig, og það á þann hátt að hún sker á afætutengslin suður.

Bjargi sér þá sem bjargað getur, þeir sem framleiða þurfa ekki að hafa áhyggjur.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.11.2010 kl. 14:01

3 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Ómar, ég skil satt best að segja ekki þetta viðhorf sem kemur fram í garð þeirra landsmanna sem búa utan Höfuðborgarinnar.

Ég reikna með að fyrirtæki í Skagafirði afli vel á annan tug milljarða í gjaldeyristekna og samt skín í gegn viðhorf hjá fjárlaganefndinni að ríkið sé verið að halda úti einhverri þjónustu fyrir beiningamenn í meiri mæli en réttlætanlegt sé, þegar íbúum er gefinn kostur á sjúkrarými fyrir aldraða og sjúkrarými fyrir þá sem eru að jafna sig eftir aðgerð eru í líknandi meðferð.    

Sigurjón Þórðarson, 23.11.2010 kl. 16:33

4 Smámynd: Ómar Geirsson

Já, þeir vilja reka sig á.

Og munu gera það.

Fólk lætur ekki bera foreldra sína á gaddinn, fólk mun ekki fara 50 ár aftur í tímann og þurfa að sækja einföldustu læknisþjónustu til Reykjavíkur.

Fólk mun verjast.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 23.11.2010 kl. 18:13

5 identicon

Sæll Sigurjón.

Þarna ferð þú með algerlega rangt mál hvað mig varðar og þú ættir að taka þennan hluta færslu þinnar út. Það getur verið að það sé ekki heil brú í tillögum ráðuneytisins en það hefur heldur ekki verið mikið hald í þeim svörum sem við höfum fengið frá sjúkrahúsunum á landsbyggðinni og það er engin heildarstefna til heldur. Þetta er orðið svona hefðbundið kjördæmaþras og landsbyggð á móti Reykjavík dæmi. Menn geta svo sem haldið því áfram ef þeir vilja en það skilar engu nema e.t.v. niðurskurði á ófaglegum forsendum sem kemur engum að gagni þegar upp er staðið. Það yrði svo sem ekkert nýtt en ég tek ekki þátt í því og er ekki í neinu liði þar.

Þór Saari (IP-tala skráð) 25.11.2010 kl. 21:40

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Sæll Þór mér finnst í sannleika sagt gott að vita til þess að ég hafi misskilið þig á fundinum en ég get upplýst um það að ég var ekki einn um það. Í framhaldinu finnst mér rétt að Hreyfingin greini skýrt og skorinort frá afstöðu sinni til málsins svo að hún verði ekki misskilin.

Kveðja

Sigurjón

Sigurjón Þórðarson, 25.11.2010 kl. 22:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband