Leita í fréttum mbl.is

Byggjum á traustum grunni

Frjálslynd og óháð eru skýr valkostur fyrir kjósendur í Skagafirði  sem vilja að sveitarfélaginu verði stjórnað af ábyrgð næstu fjögur árin. Í forystusveit Frjálslyndra er metnaðarfullt framsýnt ungt fólk, s.s. Hrefna Gerður Björnsdóttir lögfræðingur og Ingvar Björn Ingimundarson formaður skólafélags FNV, sem vill láta gott af sér leiða fyrir samfélagið.

Fjórflokkurinn leggur á borð fyrir kjósendur langa margendurunna  óskalista þar sem stefnt er að margra milljarða byggingum en skilaboð Frjálslyndra eru einföld og skýr. Í fyrsta lagi munu Frjálslynd og óháð tala hátt og snjallt fyrir hagsmunum Skagafjarðar. Á tímum minnkandi ríkisútgjalda mega sveitarstjórnarfulltrúar búast við að harðsóttara verði að verja fjárframlög til mikilvægra stofnana í Skagafirði, s.s. Heilbrigðisstofnunarinnar, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Háskólans á Hólum, Vegagerðarinnar og Veiðimálastofnunar. Það er gríðarlega mikilvægt að sveitarstjórnin skynji hlutverk sitt og vinni samhent að því að verja af hörku sameiginlega hagsmuni og störf.

Í öðru lagi munu Frjálslynd og óháð ná jafnvægi í fjárhag sveitarfélagsins áður en ráðist verður í stórframkvæmdir. Við viljum gera það í samvinnu við stjórnendur og íbúa sveitarfélagsins. Aukinn skilningur er á því að vísasta leiðin til að tryggja uppbyggingu og opinber störf sé að bæta rekstur sveitarfélagsins og treysta fjárhagslegan grunn.  

Tækifærin í Skagafirði til leiks og starfa eru óþrjótandi. Atvinnulíf er fjölbreytt. Má nefna öflugan landbúnað, sjávarútveg, fiskeldi og ferðaþjónustu, auk margvíslega stofnana og fræðslusetra sem fyrr var getið um. Skagafjörðurinn skartar blómlegum Sauðárkróki, búsældarlegum sveitum frá Fljótum í norðri og fram til dala og fallegu þéttbýli, Hofsósi, Hólum og Varmahlíð. Mikil áskorun og tækifæri felast í því að samræma og móta stefnu fyrir dreifbýlan og víðfeðman Skagfjörð.

Augljóst er að hægt er að efla ferðaþjónustuna  með aukinni samvinnu og bættri aðkomu og  upplýsingum þegar komið er inn í Skagfjörðinn.

Frumforsenda þess að sveitarfélagið verði kröftugt leiðandi afl til framfara og samvinnu er að það standi á traustum fjárhagslegum grunni.  

Í Skagafirði eru svo sannarlega tækifærin og það er kjósenda að velja fulltrúa Skagfirðinga til varnar og sóknar fyrir hagsmuni sína þann 29. maí næstkomandi. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óska ykkur til hamingju með áttunda mann í sveitarstjórn Skagafjarðar sem og Skagfirðingum öllum.

Las lýsandi grein um framboðsfund í Skagafirði sem eflaust hefur verið í svipuðum dúr og margir aðrir. Þar var öllu lofað af flestum en lítill áhugi hjá hinum sömu að ræða hvernig afla skyldi fjár til eflingar loforðanna.

Í þessari sömu grein kom fram að vaxtakostnaður sveitarfélagsins næmi 900.000-kr dag hvern. Á kjörskrá eru 3.024, gerum ráð fyrir að 75% þeirra séu virkir á vinnumarkaði sem mundu þá vera 2.268 mans sem þurfa að greiða 900.000/2.268 = 397-kr í vexti dag hvern gegnum útsvari sínu. Á ársgrundvelli yrði þetta 144.841-kr sem er svakaleg blóðtaka fyrir hvaða sveitarfélag sem er því vaxtagreiðslur eru hrein fjárútlát sem skapa engin störf og engar tekjur innan sveitarfélagsins.

Lengi hefur vantað skýra framsetningu á fjárhagshlið sveitarfélaga svo almenningi gefist kostur á að sjá glögga mynd af stöðu þeirra og kostnaðarliðum svo hann geti myndað sér rökréttari skoðun á þeim og þrist í framhaldi á fulltrúa sína um úrbætur og aðhald.

„Frumforsenda þess að sveitarfélagið verði kröftugt leiðandi afl til framfara og samvinnu er að það standi á traustum fjárhagslegum grunni"

Bestu kveðjur að austan; Kristján Sigurðsson

Kristján Sigurðsson (IP-tala skráð) 30.5.2010 kl. 15:23

2 Smámynd: Jens Guð

  Til hamingju með kosningasigurinn.  Ég efaðist reyndar aldrei um að þessi yrði útkoman.  Það fullyrti ég við Sigga,  bróðir þinn,  jafnvel áður en eiginleg kosningabarátta hófst. 

Jens Guð, 30.5.2010 kl. 22:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband