Leita í fréttum mbl.is

Kjaftæðið í Reyni Trausta

Enn hneigjast því miður eftir hrun íslenskir fjölmiðlar til að reka ákveðna stefnu fyrir mönnum og málefnum í stað þess að segja fréttir og fara nokkurn veginn rétt með. Gengið er jafnvel svo langt að skálda upp einhverja atburðarás sem stenst enga skoðun.

Í Mogganum er kvótakerfið enn best í heimi þrátt fyrir að það skili einungis broti af þeim botnfiskafla sem veiddur var á Íslandsmiðum fyrir daga kerfisins og brjóti þar að auki í bága við jafnræði borgaranna!

Í DV er rekinn harður áróður fyrir aðild landsins að Evrópusambandinu með samþykkt Icesave. Sömuleiðis á Björgólfur Thor, ábyrgðarmaður Icesave-ósómans, einhverra hluta vegna öruggt skjól á síðum blaðsins. Eitt sem notað er í áróðri þess fyrir Evrópusambandsaðild Íslands er að halda því á lofti að það sé órækur vottur um þjóðernishyggju að vera efins um inngöngu í ESB. Ekki fer á milli mála í umfjöllun blaðsins að þjóðernishyggja eða þjóðræknishyggja sé af hinu vonda og nánast notað sem skammaryrði. Dæmi um alvarleg brot og hættulega tilburði, að mati hreintrúarmanna DV, í átt að þjóðhyggju er að geðjast að íslenskum mat og flagga íslenska fánanum.   

Nýlega greindi ritstjóri DV, Reynir Traustason, frá kenningu sinni um að meint endalok Frjálslynda flokksins hefðu orðið vegna þjóðernishyggju Frjálslynda flokksins sem kjósendur hafi hafnað. Nú er það svo að Frjálslyndi flokkurinn er starfandi stjórnmálaflokkur sem hefur ekki sagt sitt síðasta orð og á kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum. Algerlega er út í hött að gera því skóna að slæmt gengi flokksins í alþingiskosningunum á vordögum 2009 megi skrifa á meinta þjóðernishyggju.  Flokkurinn beitti sér fyrir nauðsynlegri umræðu um málefni erlends vinnuafls á haustdögum 2006 sem andstæðingar flokksins reyndu að gera tortryggilega og sverta þá sem ræddu þau mál sem brunnu á almenningi eins og Heimir Karlsson benti líka réttilega á í útvarpsþættinum þar sem Reynir lét dæluna ganga um þjóðernishyggju Frjálslynda flokksins. Reyndar var aðalmál Frjálslynda flokksins í aðdraganda kosninga 2007 afnám verðtryggingar, kvótamál og váleg staða í efnahagsmálum þjóðarinnar. Staðreyndin er sú að þá fulltrúa flokksins sem lágu undir þungum ásökunum, s.s. Jón Magnússon, vegna málflutnings í umræðu um útlendinga var ekki að finna á framboðslistum Frjálslynda flokksins vorið 2009. Reyndar virðist þingmaðurinn fyrrverandi, Jón Magnússon, hafa verið endurreistur og hvítskúraður við það eitt að ganga á ný í Sjálfstæðisflokkinn og sýnir það ágætlega tvískinnunginn í umræðunni.

Gengi Frjálslynda flokksins vorið 2009 má miklu frekar rekja til ósættis í þingflokknum í aðdraganda kosninganna, svo og að stjórnarflokkarnir Vg og Samfylkingin tóku upp baráttumál Frjálslynda flokksins í sjávarútvegsmálum sem ríkisstjórnin hefur reyndar síðan svikið. Kosningasvikin hafa m.a. leitt til þess að varaþingmaður Samfylkingarinnar sagði sig úr flokknum og megn óánægja er með störf Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra.

Kenning Reynis Traustasonar er því eins og hvert annað kjaftæði sem stenst enga skoðun.  Væntanlega er þetta rugl sett saman til  þess að greiða götu Íslands inn í ESB og mögulega má vera að óvild DV stjórnist af einarðri afstöðu Frjálslynda flokksins gegn kvótakerfinu.


Bloggfærslur 29. ágúst 2011

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband