Leita í fréttum mbl.is

Steingrímur J. - Það geta ekki allir verið Gordjöss

Klúður og óheilindi Steingríms J. í Icesave málinu eru svakaleg og slaga þau hátt upp í að jafna ábyrgðarlaus vinnubrögð þeirra ráðamanna sem stóðu bankavaktina á meðan brjálæðið vatt upp á sig s.s. Björgvins Sigurðssonar og Jóns Sigurðssonar þáverandi stjórnarformaður FME. 

Steingrímur J. var harður andstæðingur þess að greiða Icesave reikninginn en snarsnérist um leið og hann komst til valda og hélt þeim sinnaskiptum rækilega leyndum fyrir kjósendum fram yfir Alþingiskosningarnar 2009. Að loknum kosningum landaði Svavar Gestsson fyrir hönd Steingríms "glæsilegri niðurstöðu" sem var alslæm þrátt fyrir að vera snöggtum skárri en þau loforð sem Geir Haarde hafði gefið í deilunni.

Megnið af orku Steingríms og ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu hefur farið  í að þvinga þetta "ömurlega mál" í gegnum þingið með hótunum og látum, ef frá er taldar þær stundir sem hafa farið í  Magma æfingar og  björgunaraðgerðir fyrir gjaldþrota fjármálafyrirtæki sem stjórnað var af vafasömum pappírum  s.s. Saga Capital, Sjóvá, VBS, Byr og Spkef.      

Forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson bjargaði þjóðinni frá ósanngjörnum Icesavesamningum með því að vísa verkum ríkisstjórnarinnar í dóm þjóðarinnar . 98% kjósenda hafnaði samningnum þrátt fyrir hótanir og dómsdagsspár; ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ og fræðinganna í Háskóla Íslands.  Allir vita nú hvað mikið mark var takandi á öllum þessum svartnættistali Steingrím J og có.

Eitthvað hafa bloggarar á DV og Eyjunni, espað Steingrímur J. upp í að ybba sig við forsetann í kjölfar umræðu um komandi þjóðaratkvæðagreiðslu og telja þeir honum trú um að hann sé alveg Gordjöss. Steingrímur virðist þótt ótrúlegt sé, jafnvel ennþá telja að málflutningur sinn eða hótanir um afsögn skipti miklu máli þegar kemur að því þegar þjóðin gerir  upp sig varðandi Icesave III. 

Þegar upp er staðið skipta brýningar fjármálaráðherra eða tilraunir Steingríms til hanaslags við stjórnarskrána engu máli, heldur haldgóðar upplýsingar um samninginn sem þjóðin mun greiða atkvæði um. 

Það stendur m.a. upp á stjórnvöld að útskýra hvers vegna í ósköpunum íslenskum skattborgurum er einum ætlað að axla ábyrgð á skuldum einkabanka sem eru tilkomnar vegna gallaðrar í löggjafar Evrópusambandsins og vanrækslu stjórnvalda ekki einungis á Íslandi heldur einnig Bretlandi og Hollandi. 

 


mbl.is Steingrímur íhugaði afsögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. febrúar 2011

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband