Leita í fréttum mbl.is

Stjórnmálastéttin í kreppu

Niðurstaða rannsóknarskýrslu Alþingis fól í sér margvíslega gagnrýni á stjórnarhætti, fjölmiðla sem og hagsmuna- og fræðasamfélagið. Flestir ef ekki allir þingmenn hafa lofað bót og betrun á starfsháttum og sumir auðlegðar- og kúlulánaþingmennirnir hafa jafnvel gert það tárvotir og skreytt heit sín svo að loforðaflaumurinn úr barka þeirra er orðinn velgjulegur.

Þegar til á að taka eru efndirnar engar sem sást best á aumum verkum Guðbjarts Hannessonar sem stjórnaði svokallaðri sáttanefnd í sjávarútvegi sem ætlað var að innleiða réttlátar breytingar á stjórn fiskveiða.  Ekki ætla ég að hafa mörg orð um afurð Guðbjarts sem er nýbakaður ráðherra og félaga hans í meirihluta nefndarinnar en þjóðin hefur hvorki siðferðislega né fjárhagslega efni á að halda áfram með núverandi stjórnkerfi fiskveiða eins og ekkert hafi í skorist.

Það sem Guðbjartur og meirihluti svokallaðrar sáttanefndar flaskaði algerlega á var að taka forsendur núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis til endurskoðunar en kvótakerfið skilar einungis á land þriðjungnum af þeim þorskafla sem veiddist að jafnaði fyrir daga kerfisins.  Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hafði nefndin ekki nokkurt þrek til þess að fara yfir galnar forsendur kerfisins sem stangast á við viðtekna vistfræði og heilbrigða skynsemi sem segir að vafasamt sé að ætla að nokkurt vit sé í því að draga það sem má veiðast við Grímsey frá því sem má veiða á Breiðafirði, hvað þá við Vestmannaeyjar.  Það liggur í augum uppi að ef stjórnvöld ætla sér að festa í sessi aflamarkskerfi ætti að sníða af helsu galla þess, s.s. brottkast, og fara að sjálfsögðu yfir það hvers vegna kerfið sem byggir á reiknisfiskifræði skilar ekki upphaflegum markmiðum sínum um stöðugan aukinn fiskafla.

Auðvitað hefði það átt að vera algjört forgangsverk fyrir íslensk stjórnvöld að líta til Færeyja þar sem ágæt sátt ríkir um stjórn fiskveiða öfugt við hér.  Færeyska dagakerfið byggir á því að sókn sé stöðug en aflinn ræðst þá af því sem lífríkið gefur en ekki hæpinni ráðgjöf reiknisfiskifræðinga.  Nú er þorskstofninn á uppleið við Færeyjar þrátt fyrir að alltaf hafi verið veitt umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins síðustu tvo áratugina. Reyndar hljóðaði ráðgjöfin síðustu þrjú árin upp á algert veiðibann en samt hefur stofninn sveiflast upp og niður og er núna kominn í uppsveiflu.  Þetta segir mér einungis eitt, það að reynslan frá Færeyjum sýnir að ráðgjöf reiknisfiskifræðinganna er röng. Það sama ætti algjört árangursleysi hér við land að sýna.

Borðleggjandi er að þjóð sem glímir við gjaldeyrisskort á að fara gaumgæfilega yfir öll rök sem hníga að því að hægt sé að sækja í auknum mæli í vannýtta fiskveiðiauðlind.


Bloggfærslur 20. september 2010

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband