Leita í fréttum mbl.is

Þakkir til oddvita Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði

Mér er ljúft að þakka einlægar hamingjuóskir oddvita Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði í ágætri grein á feyki.is, til mín vegna formannskjörs í Frjálslynda flokknum. Frjálslyndi flokkurinn er það afl í íslenskum stjórnmálum sem hefur borið hag almennings fyrir brjósti. Ekki verður á móti mælt að ef stefna flokksins hefði orðið ofan á við stjórn landsins á síðasta áratug stæði þjóðin nú í allt öðrum og miklu betri sporum. Frjálslyndi flokkurinn barðist gegn einkavinavæðingunni,
verðtryggingunni, skuldsetningu þjóðfélagsins, illræmdu kvótakerfi og hér í Skagafirði fyrir ábyrgari fjármálastjórn.

Ég þakka einnig nokkur vel meint heilræði um hvað eigi að ræða og þó sérstaklega yfir hverju eigi að þegja. Mér finnst sömuleiðis þakkarverð hreinskilni hjá leiðtoganum að greina kjósendum opinberlega frá þeirri skoðun sinni að það hafi verið fyrir styrk og stjórnvisku Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda hrunsins sem þjóðin hafi bjargast frá alþjóðlegu bankahruni! Ég er þessu ekki sammála og er sannfærður um að skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis muni staðfesta sök Sjálfstæðisflokksins og samstarfsflokka hans á liðnum árum. Ég óttast þó að skoðun oddvitans á stjórnarfari liðinna ára breytist lítið sem ekkert við lesturskýrslu Rannsóknarnefndarinnar, hvað þá að hann telji sér þarft að horfast í augu við þær staðreyndir að hér er landið undir stjórn Alþjóðgjaldeyrissjóðsins, þrjú af tíu stærstu gjaldþrotum heims eru íslensk og öll fjármálafyrirtæki landsins eru hrunin, eignir lífeyrissjóða stórlaskaðar og sveitarfélög stórskuldug. Mörg stórfyrirtæki eru komin í faðm í ríkisreksturs eða á leiðinni þangað. Það er kannski lítið við þessu að segja, sumt breytist ekki og það er einfaldlega eins og það er. Og oddviti Sjálfstæðisflokksins vill síður að við ræðum vandann.


Bloggfærslur 5. apríl 2010

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband