Leita í fréttum mbl.is

Er VG í gíslingu Tortólanna í Samfylkingunni?

Einhvern veginn kom það mér ekki á óvart að Gylfi Arnbjörnsson, leiðtogi alþýðunnar og Samfylkingarstrumpur, skyldi vera beintengdur Tortóla-eyjunni illræmdu. Eyjan hefur blóðmjólkað íslenskt samfélag og búið til flækjur í gegnum Lúxemborg sem erfitt er að greiða úr. Gylfi hefur nefnilega verið talsmaður þeirra kerfa sem eru hornsteinninn í spillingunni, s.s. kvótakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins.

VG lofaði kjósendum ákveðnum breytingum, gagnsæi, að hafa allt uppi á borðunum og að flæma spillingaröflin burt. Einhvern veginn hefur þetta allt snúist upp í andhverfu sína enda eru helstu samstarfsmennirnir í ríkisstjórninni og áhrifamenn ríkisstjórnarinnar illilega flæktir í fjármálasvikin. Guðbjartur Hannesson sat í bankaráði Landsbankans og enskum banka og segir nú afsakandi að hann viti ekkert hvað þar fór fram. Árni Páll sat í stjórn Búnaðarbankans og sá um að rétta Björgólfunum milljarða að láni til að þeir kæmust yfir eignir Landsbankans. Icesave-maðurinn Björgvin G. Sigurðsson er örugglega ekki áfjáður í að óstjórnin í Fjármálaeftirlitinu verði upplýst þar sem helsti hugmyndafræðingur um efnahagsstefnu Samfylkingarinnar lék lausum hala, Jón Sigurðsson. Hann gekk svo langt að vera eins konar fyrirsæta í auglýsingabæklingi Sigurjóns Árnasonar fyrir Icesave-reikningana í Hollandi.

Borgarstýran fyrrverandi var á prófkjörsspena hjá fjármálafurstunum og greiddi hún götu verktaka þeirra innan borgarmarkanna.

Núna berast hviksögur úr bönkunum af því að verið sé að afskrifa tugi milljarða á einstaka hrunamenn, s.s. þyrluvíkinginn úr Vestmannaeyjum, Magnús Kristinsson. Á sama tíma gefa ráðamenn það í skyn að allt fari á hliðina ef mögulega verður komið til móts við almenning sem hefur tekið gengistryggð lán í bönkunum.

Nú er það spurning hvað VG ætlar að taka mikinn þátt í að byggja velferðarbrúna fyrir Tortólana í Samfylkingunni.


Bloggfærslur 11. september 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband