Leita í fréttum mbl.is

Sjómenn gerðir að glæpamönnum

Nú líður að sjómannadegi og þá er venjan að upphefja sjómenn svolítið, Rás 2 er með samkeppni í sjómannalögum og helstu ráðamenn stíga á stokk og tala um undirstöðu samfélagsins og mikilvægi sjómanna. Samt sem áður hafa þessir sömu menn látið hetjur hafsins búa við reglur sem glæpavæða stéttina, kvótakerfið hefur beinlínis hvatt til brottkasts og sjómenn eins og Níels Ársælsson sem hafa bent á það sem allir vita hafa hlotið þungan dóm.

Í vikunni rakst ég á ágætan kunningja minn, smábátasjómann, sem var á leiðinni fyrir dómara fyrir að hafa, að hans sögn, lagt tvo bala örlítið inn á friðuð svæði. Í þessari sömu viku las ég á ný frábæra bók eftir Ásgeir Jakobsson, Fiskleysisguðinn, sem kom út fyrir þó nokkrum árum þar sem hann fer rækilega í gegnum aðferðir og forsendur svokallaðrar fiskveiðiráðgjafar sem sjómaðurinn frá Skagaströnd braut gegn, þær hafa ekki gengið upp og geta ekki gengið upp. Staðreyndirnar tala sínu máli, þegar til stendur að veiða minna til að veiða meira seinna og markmiðið er 450.000 tonna jafnstöðuafli en árangurinn er þriðjungurinn af því sem lagt var upp er eitthvað ekki í lagi.

Ætli fiskni sjómaðurinn sem hefur verið drjúgur í gegnum tíðina við að afla þjóðinni gjaldeyris verði ekki að velta sömu spurningum fyrir sér og Sókrates forðum, hvort rétt sé að hlíta ranglátum dómi.


Gylfi og Villi eru sætir saman

Það hefur oft komið upp í hugann hvort sameining ASÍ og SA sé á næsta leiti. Forystumenn samtakanna voru báðir jafn grunlausir gagnvart gríðarlegri skuldasöfnuninni og æpandi teiknum um að ekki væri allt með felldu í íslensku fjármálalífi. Þeir virðast einlægir fylgismenn vonlauss kvótakerfis sem markaði upphaf hrunsins, hefur komið í veg fyrir nýliðun í greininni og svipt fólk lífsbjörginni.

Núna í kvöld komu þeir sameinaðir sem aldrei fyrr, að vísu eilítið daprir í bragði yfir því að Seðlabankinn kæmi í veg fyrir að þeir næðu að endurnýja heit sín þann 1. júlí nk.

Ég var þeim sammála efnislega hvað varðar nauðsyn þess að lækka stýrivextina en óneitanlega var sérkennilegt að sjá þá leiðast svona einlæglega í Kastljósinu í kvöld. Það mátti sjá að þeim var sárt um að þurfa mögulega að skiljast á miðju sumri...


Bloggfærslur 5. júní 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband