Leita í fréttum mbl.is

Björgvin G. Sigurðsson er allur að koma til

Mér sýnist sem Björgvin Guðni hafi haft gott af því að losna út úr ríkisstjórn. Mér sýnist sem hann sé að verða afturbata.

Í dag birtist vefgrein eftir hann þar sem hann lýsir yfir harðri og einarðri andstöðu gegn kvótakerfinu. Hann hafði meira að segja gert sér ferð niður á bryggju til að hitta Ásmund Jóhannsson sem ríkisstjórnin braut á mannréttindi og kostaði nokkrum tugum milljóna upp á málavafstur til að halda við óréttlætinu, en mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks samt í óhag.

Ríkisstjórnin sem Björgvin studdi og sat í hirti síðan ekki um að virða álitið og hélt óhikað áfram að brjóta á ungnum sem öldnum sjómönnum, s.s. Ásmundi kallinum.

Batnandi mönnum er best að lifa. Nú er að vonast til þess að Björgvin sýni afstöðuna í verki, ekki bara í snakki við sjómenn heldur í kröftugum ræðum síðustu dagana fyrir þingslit þar sem hann krefur mannréttindabrjótinn Steingrím J. um að láta af brotastarfsemi sinni. Það eina sem Steingrímur þarf að byrja á er að gefa út reglugerð þar sem leyfðar eru handfæraveiðar. Þegar handfæraveiðarnar voru frjálsar og hvað mestar voru þær samt innan við 5% af heildarþorskafla.

Þessi afstaða ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna markast nánast af mannvonsku, að virða menn ekki viðlits og rétta ekki hlut þeirra sem hafa sótt réttlæti alla leið til útlanda þegar innlend stjórnvöld og dómstólar hafa gjörsamlega brugðist. Þá er nú gott til þess að vita að Björgvin er kominn með þeim á árarnar - nema þetta sé kosningaropi í honum.


Frjálslyndi flokkurinn er eina svarið

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram í 2. sætið á lista Frjálslynda flokksins í Norðvesturkjördæmi. Það kom vart annað til greina vegna þess að stefnumál flokksins í sjávarútvegsmálum eru forsenda fyrir jákvæðri byggðaþróun í Norðvesturkjördæmi. Það er ekki merkilegt, kerfið sem Frjálslyndi flokkurinn hefur barist gegn með oddi og egg þar sem ekkert af markmiðum kerfisins hefur náðst, s.s. svokölluð uppbygging þorskstofnsins. Kerfið hefur þvert á móti leitt atvinnugreinina í algjört skuldafen sem flestir málsmetandi menn eru sammála um að hafi verið upphafið að efnahagshruninu.

Kerfið hefur verið úrskurðað óréttlátt af sjálfri mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og að því beri að breyta. Öll stjórnmálaöfl sem vilja láta taka sig alvarlega ættu að setja það á oddinn að endurskoða kerfið - strax. Í stað þess hefur fjórflokkurinn slegið þagnarmúr um raunverulegar breytingar og dregið lappirnar árum saman. Steingrímur J. hefur núna tekið við kefli Einars Kristins Guðfinnssonar og heldur óhikað áfram að brjóta mannréttindi á sjómönnum og svipta dreifðar byggðir réttinum til atvinnu.

Ólíkt öðrum stjórnmálaöflum sér Frjálslyndi flokkurinn augljós tækifæri við endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins og verða þá hinar dreifðu byggðir mótorinn við að endurreisa efnahagskerfið og byggja upp nýtt og öflugt Ísland.

Framtíðin er björt ef - og aðeins ef - við breytum þeim kerfum sem hafa orðið okkur fjötur um fót. Guðjón Arnar Kristjánsson býr yfir gríðarlegri þekkingu á sjávarútvegsmálum og það er bráðnauðsynlegt að hún verði nýtt til þess að vinda ofan af kerfinu og koma á meiri sátt og skynsemi við stjórn fiskveiða.


Bloggfærslur 5. mars 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband