Leita í fréttum mbl.is

Falsspámennirnir í háskólunum

Hún kom mér ekki á óvart, greining Ingólfs Arnarssonar á íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu sem Magnús Þór endursegir á heimasíðu sinni í dag. Niðurstaða Ingólfs er í stuttu máli sú að kerfið sé gjaldþrota og verðlagning á veiðiheimildum hafi ekki með nokkru móti getað staðið undir sér.

Fyrir nokkrum árum stóð ég fyrir opnum fundi í Háskólanum á Bifröst þar sem ég fór yfir háa verðlagningu kvótans, helstu kostnaðarliði í útgerð og tekjur af veiðum. Niðurstaða mín þá var að dæmið gæti aldrei gengið upp, og vel að merkja, þá var verðlagningin á kvótanum helmingi lægri en þegar hún fór í hæstu hæðir.

Enginn fundarmanna dró í efa forsendur útreikninganna, ekki heldur reikninganna en samt sem áður varð niðurstaða einlægra kvótasinna að þetta væri ekki svona. Niðurstaðan sem þjóðin horfir upp á þessa dagana er því miður svona, við sitjum uppi með útgerðarfyrirtæki sem vilja að þjóðin borgi lánin sem tekin voru til að borga fyrir veiðiheimildir sem stjórnvöld veittu sumum í kringum árið 1990 án endurgjalds.

Það undarlegasta af öllu er að spillt stjórnvöld ljá máls á því að afskrifa skuldir og halda áfram með óbreytt kerfi.

Þegar maður horfir til baka og veltir fyrir sér hvers vegna ungt fólk sem hafði dæmin fyrir framan sig og var í viðskiptafræðinámi og í háskóla að tileinka sér gagnrýna hugsun skuli ekki hafa vaknað í meira mæli verður maður að átta sig á að áróðurinn með bullkerfinu var ógurlegur. Krakkarnir fengu áróðurinn um hagkvæmni kerfisins beint í æð úr Morgunblaðinu við morgunverðarborðið. Sumir slysuðust í ungliðahreyfingar stjórnmálaflokkanna þar sem messað var um árangur og hagkvæmni kerfisins, jafnvel í landshlutum sem voru brunarústir einar eftir framgang kerfisins. Ábyrgir stjórnmálaleiðtogar, eins og Halldór Ásgrímsson, Davíð Oddsson, Geir Haarde og Ingibjörg Gísladóttir, þvældu um stöðugleika og hagkvæmni kerfisins. Í háskólum héldu hagfræðideildir uppi linnulausum ómerkilegum áróðri um ábyrgð, hagkvæmni og skilvirkni kerfisins.

Falsspámenn eins og Ragnar Árnason héldu ráðstefnur með erlendum aðilum þar sem kerfi mannréttindabrota var blessað í bak og fyrir.

Í fyrra var síðasta tillaga Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sú að hætta þorskveiðum í nokkur ár því að þjóðarbúið stæði svo afskaplega vel og þess vegna væri rétti tíminn til að hætta tímabundið þorskveiðum og vona að í kjölfarið staflaðist þorskurinn upp á miðunum eins og vörur í pakkhúsi.

Merkilegt er núna að engin rödd berst úr háskólunum eða úr ráðandi stjórnmálaflokkum um að tímabært sé að endurskoða þessa vitleysu - nema hin einangraða rödd Kalla Matt.


Bloggfærslur 11. janúar 2009

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband