Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn 2006-2008 - geggjaður málflutningur

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík býður þjóðinni upp á dellumeik. Það er ekki eitt, það er allt. Gamli góði Villi hóf vegferðina með því að taka snúning og plata Ólaf F. þegar hann átti trúnaðarsamtöl við Björn Inga Hrafnsson um myndun heilsteypts meirihluta sem byggður var á heilindum og trausti. Félagarnir áttu afar gott samstarf þar til upp úr sauð vegna REI-málsins en báðir mökuðu krókinn. Trúnaðurinn brást vegna þess að öðrum eða báðum fannst annar maka meira en hinn.

Við tók meirihluti framsóknarmanna og annarra og þá áttu sjálfstæðismenn ekki orð yfir óheilindum Björns Inga. Notuð voru stór orð um Björninn og svo stór að búast hefði mátt við krossfestingu. Þeir sáu sér leik á borði og skrifuðu án athugasemda undir kosningastefnu Ólafs F. Magnússonar og vörðu hana í 200 daga, hvort sem það var að punga út háum upphæðum fyrir gömlum húsum eða vera á móti Bitruvirkjun og brotthvarfi flugvallarins.

Skyndilega kom babb í bátinn þegar Hanna Birna skoraði ekki nógu hátt í skoðanakönnun. Þá ákvað hún að segja skilið við Ólaf þrátt fyrir að að hennar sögn hafi verið um mjög árangursríkt samstarf að ræða og taka upp samband við hirðsvein Björns Inga og skýringin er auðvitað sú að endurnýja samband við Framsóknarflokkinn sem var traust þangað til því lauk.

Í öllum þessum vaðli sem látinn er ganga úr barka sjálfstæðismanna yfir landsmenn er mikil hætta á því að orð í íslensku máli, s.s. traust, árangur og heilindi, missi upphaflega merkingu sína.


mbl.is Ólafur: Blekktur til samstarfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afstaða Marsibil skiljanleg

Þeir sem hafa unnið með eða nálægt borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins vita sem er að innan hans er gífurleg togstreita og spenna. Hefur hún hvað eftir annað komið upp á yfirborðið þrátt fyrir að borgarstjórnarflokkurinn njóti sérstakrar velvildar Fréttablaðsins þar sem fyrrum formaður flokksins ræður ríkjum. Hið sama má segja um Morgunblaðið og ríkissjónvarpið sem eru undir beinni stjórn varaformanns flokksins.

Það mun fljótt koma í ljós að nýi meirihlutinn mun tvístrast um leið og upp koma pólitísk álitamál. Hvað mun gamli góði Villi segja þegar Björn Ingi og Alfreð verða aftur komnir í Orkuveituna? Það skiptir kannski ekki öllu máli, heldur mun almenningi verða misboðið.

Hreinlegast væri fyrir Marsibil að segja sig af listanum. Það er óviðeigandi að þiggja laun sem varaborgarfulltrúi en taka svo ekki við störfum í nefndum og ráðum. Það kæmi mér ekki á óvart ef almennir framsóknarmenn hefðu fengið nóg af þessu ráðabruggi. Það þarf kosningar og nýtt blóð í borgarstjórn.


mbl.is Hleypir spennu í sambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. ágúst 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband