Leita í fréttum mbl.is

Ráðningin sýnir ráðaleysi Geirs

Það er augljóst að Geir Haarde ber ábyrgð á stöðu efnahagsmála á Íslandi hvað sem ýmsir vinir ríkisstjórnarinnar, s.s. Katrín Júlíusdóttir, reyna að bera blak af honum. Sumir reyna jafnvel að telja fólki trú um að George Bush eigi meginsökina vegna heimskreppunnar. Það er auðvitað ekki svo þar sem Geir hefur sýnt algjört andvaraleysi gagnvart erlendri lántöku viðskiptabankanna sem hafa dælt fé til viðskiptavina til að kaupa húsnæði og bíla. Í lok árs 2005 var staða þjóðarbúsins neikvæð við útlönd um 856 milljarða en hefur nú versnað gríðarlega, í vor var hún 2.212 milljarðar.

Til þess að komast út úr erfiðleikunum er ráðinn fyrrum forstöðumaður Hagfræðistofnunar HÍ sem hefur m.a. komið með það sérkennilega ráð að hætta þorskveiðum í nokkur ár í þeirri von að þorskurinn staflist upp á miðunum, og staflist síðan eftir það í enn stærri stæður.

Á vordögum 2006 skilaði nýi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar af sér skýrslu ásamt hagfræðingnum Mishkin þar sem meginefnið var að efnahagslífið á Íslandi stæði einkar styrkum fótum og var skýrsla hagfræðinganna ósammála varnaðarorðum Danske bank um íslenska fjármálakerfið. Ef meira mark hefði verið tekið á þeirri gagnrýni sem íslenska fjármálakerfið varð fyrir á haustdögum 2005 frá Danske bank væri staðan allt önnur og Geir léttari í skapi.

Það er eins og mig minni að nýráðinn efnahagsráðgjafi hafi einnig talið að skuldabréfaútgáfa í íslenskum krónum, svokölluð jöklabréf, sýndu styrk íslenska efnahagskerfisins og blásið þar með á þá gagnrýni að þetta gæti verið varasamt. Það kemur á óvart að Tryggvi stökkvi í þessa vinnu því að maður hefði haldið að fjárfestingarfyrirtækið Askar Capital sem Tryggvi stýrir þyrfti á öllu sínu að halda eftir að hafa tapað 800 milljónum króna í fyrra.

Það er ekki úr vegi að óska þeim Geir og Tryggva góðs gengis. Ekki veitir þeim af. En þeir verða þá að horfast í augu við og viðurkenna fyrri mistök.


mbl.is Nauðsynlegt að ná niður verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Bretinn kominn aftur á Íslandsmið?

Það er í tísku nú að kenna hlýnun jarðar um alla óvænta atburði og náttúrulegar sveiflur. Það á jafnt  við um mikil veður og breytingar á dýralífi. Í raun er sama hver breytingin er, alltaf er hlýnun jarðar fyrsta skýringin sem sett er fram. Fyrr í sumar syntu tveir ísbirnir á land hingað í Skagafjörðinn. Sá fyrri var vart stiginn á land fyrr en hann var talinn óræk staðfesting á hlýnun jarðar.

Í fyrra og hittiðfyrra kom fram í rannsóknum grafalvarlegt ástand sandsílastofnsins. Ástæðan hlaut að vera alvarlegar umhverfisbreytingar af völdum hlýnunar jarðar enda er það móðins.

Í gær bárust þær gleðifréttir í Viðskiptablaðinu að það hefði orðið mikill viðsnúningur á sandsílastofninum og hann sé í þann mund að ná sér á strik. Þessar fréttir hljóta að koma þeim sem trúa á ráðgjöf Hafró í blindni algerlega í opna skjöldu þar sem samkvæmt reiknisfiskifræðinni ætti helst að vænta mikillar nýliðunar og uppbyggingar þegar stofnar eru stórir og alls ekki ef þeir hafa verið í mikilli lægð um áraraðir. Samkvæmt framangreindu væri rökrétt að álykta að miklar breiður af hitaþolnu sandsíli hefði synt yfir Atlantsála og tekið sér bólfestu hér við land. 

Mér hefur alltaf þótt þessi kenning um að loftslagsbreytingar á meintu hvarfi sandsílisins af Íslandsmiðum æði langsótt þótt ekki væri fyrir annað en að tegundin lifir í miklum mun heitari sjó en hér er við land. Það er ljóst að sandsílið hefur mikil áhrif á lífsafkomu fjölda dýrategunda, s.s. lundans sem er landsmönnum kær. Það er miklu nærtækara að skýra sveiflur í magni sandsílis út frá stærð ýsustofnsins en hún er sólgin í sandsílið og slungin að ná því upp af botninum. Á undanförnum árum hefur ýsustofninn verið stór og hefur það án nokkurs efa komið niður á sandsílinu.

Aukningin á sandsíli er líklegast til marks um að ýsustofninn sé að gefa eftir, nema jú auðvitað að um sé að ræða hitakær bresk síli sem hafi stungið sér inn fyrir landhelgina.


Bloggfærslur 18. júlí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband