Leita í fréttum mbl.is

Ísbirnir bitbein í fylkingadrætti

Ráðherrar Samfylkingarinnar reyndu að gera sér mat og jafnvel fjölmiðlaveislu úr ólánsama ísbirnunum sem endaði lífdaga sína hér í Skagafirði af völdum byssukúlna stjórnvalda í gær, á þjóðhátíðardaginn. Fyrst var það Björgvin ráðherra sem tilkynnti þjóðinni ábúðarfullur að hann ætlaði að gera allt sem í hans valdi stæði til að bjarga skepnunni og var m.a.s. búinn að redda sponsor.

Þegar Þórunn sá að Björgvin væri að slá sér upp á ísbirninum var hún fljót að breyta ferðaplönum sínum og mæta á svæðið. Þetta var allt mikið drama og fjölmiðlafár og er jafnvel uppi orðrómur hér í Skagafirði um að fárið hafi valdið því að ekki tókst betur til með björgunina en raun bar vitni.

Í eftirleik atburðanna blandast síðan þriðji ráðherra Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, sem segist vita nánast allt um ísbirni og hafa ætlað sér að skrifa bók um skepnuna en hafi ekki komið í verk vegna anna. Það er athyglisvert að iðnaðarráðherra gerði sér far um að hæla sérstaklega þætti Björgvins hins sunnlenska og vega síðan að æðsta embættismanni Þórunnar Sveinbjarnardóttur sem var fulltrúi hennar á staðnum.

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því hvers vegna Össur gerir sér far um að gagnrýna störf Þórunnar, en hann hafði áður látið í ljós að hann teldi að betur hefði mátt standa að málum þegar fyrri björninn var drepinn. Þórunn er gömul kvennalistakona en Björgvin gamall vopnabróðir úr Alþýðuflokknum. Svo má auðvitað vera að þeir standi saman, iðnaðarráðherra og maðurinn sem tók skóflustungu að nýju álveri, að því að veikja stöðu umhverfisráðherra sem mest þeir mega til þess að hún geti ekki sett fótinn fyrir stóriðjustefnu þeirra félaganna.


mbl.is Ísbjarna leitað úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. júní 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband