Leita í fréttum mbl.is

Pólitískar ráðningar - er ekki réttara að ganga hreint til verks?

Á umliðnum mánuðum hefur Samfylkingin gengið hart fram í að gagnrýna pólitískar ráðningar, sbr. gagnrýni þingflokksformanns Samfylkingarinnar á ráðningu ungs héraðsdómara á Akureyri. Össur sneri nauðvörn í sókn við ráðningu orkumálastjóra síns þegar hann benti á að Framsóknarflokkurinn hefði ráðið aðstoðarorkumálastjóra án þess að heimild væri í lögum fyrir ráðningu hennar og gefið var í skyn að ráðningin hefði verið pólitísk.

Maður hefði haldið að formaður Samfylkingarinnar myndi vanda sérstaklega til ráðningar á nýjum forstjóra Varnarmálastofnunar og væri sú ákvörðun það sem myndi kallast fagleg. Það orð fer reyndar oft í taugarnar á mér.

Sá umsækjandi sem var ráðinn í það starf er eflaust mætasta manneskja, hæf og allt það, rétt eins og orkumálastjórarnir og ferðamálastjórinn og héraðsdómarinn en þó er ekki hægt að horfa framhjá því að það er meira en lítið undarlegt að svo virðist sem viðkomandi hafi komið beint að samningu varnarmálafrumvarpsins, veitt umsögn um það og verið í nánu samráði við undirbúningsnefnd utanríkisráðherra um framgang málsins.

Viðkomandi umsækjandi var ráðinn sem breytingastjóri Ratsjárstofnunar sem átti væntanlega að breyta stofnuninni í varnarmálastofnun.

Það er erfitt að sjá að viðkomandi hafi staðið jafnfætis Stefáni Pálssyni eða einhverjum öðrum ágætum umsækjendum, eða voru sett saman skilyrði sem óskandi væri að hæfur umsækjandi uppfyllti?

Það sem kemur mest á óvart er að umsækjandinn sem Ingibjörg Sólrún valdi hefur reynslu af löggæslustörfum, en það kemur fram í ræðu Ingibjargar að markmið frumvarpsins séu að aðgreina annars vegar það sem kallast verkefni borgaralegs eðlis og hins vegar öryggismál sem snúa að landvörnum. Það hefði verið eðlilegra í því ljósi að velja einhvern sem hefði frekar þekkingu á sviði varnarmála og alþjóðlegs samstarfs.

Það voru nokkur hugtök í frumvarpi um Varnarmálastofnun þess eðlis að frægir spunameistarar Tonys Blairs - sem íslenska Samfylkingin lítur mjög upp til - gætu talist fullsæmdir af, s.s. loftrýmiseftirlit, loftrýmisgæsla og breytingastjóri, hvað sem það nú annars merkir.

Það sem maður fer óneitanlega að velta fyrir sér er hvort ekki sé hreinlegra að ráðandi stjórnmálaöfl komi sér saman um að ákveðin embætti séu með þeim hætti að viðkomandi ráðherra hafi geðþóttvald eða það sem kallast að ráða pólitískt í ákveðin embætti í stað þess að fara einhverjar krókaleiðir í ráðningum og rökstuðningi fyrir að koma sínum manni að. Ég held þessu ekki fram vegna þess að ég vorkenni ráðherrunum Ingibjörgu, Össuri og Árna Matt, svo að einhverjir séu nefndir, til þess að standa reglulega í einhverri aulavörn vegna mannaráðninga heldur vegna þess að það er verið að gera lítið úr fólki sem skilar inn vönduðum starfsumsóknum og hefur í þokkabót beðið hinar og þessar mætar manneskjur að skrifa upp á meðmæli.


Bloggfærslur 28. maí 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband