Leita í fréttum mbl.is

Áhugaverð ráðstefna Samfylkingarinnar

Í athugasemdum við síðasta pistil um kjaftstopp og ráðaleysi Samfylkingarinnar hafði ég látið flakka að ráðstefna Samfylkingarinnar á Grand Hóteli í dag sem bar yfirskriftina Kvótakerfi á krossgötum, væri sótthreinsuð athöfn, haldin svona fyrir siða sakir. 

Ég mætti á ráðstefnuna en gat einungis setið rétt upphaf hennar, en ég þurfti að víkja af fundi vegna áreiðandi barnaskutls í borginni.

Ég sat þó nógu lengi til þess að ég telji mér rétt og skylt að draga orð mín til baka um að ráðstefnan væri sótthreinsuð og er ástæðan sú að Lúðvík Kaaber flutti magnaða ræðu þar sem hann fór yfir dæmalaus afskipti stjórnvalda og hæstaréttar af mesta óréttlæti Íslandssögunnar.  Lúðvík greindi frá því hvernig ráðherrar ráku mál opinberlega utan réttarsala gegn þeim sem órétti voru beittir við  að sjá sér farborða og vildu ná fram réttlæti í Hæstarétti.  Hann greindi frá því að honum hefði þótt það sár upplifun sjá réttinn helst líkjast kjölturakka í fanginu á stjórnmálamönnum sem vildu viðhalda mannréttindabrotum. 

Vegna þessa ofríkis stjórnmálaleiðtoganna og ístöðuleysis hæstaréttar sitja stjórnvöld í þeim sporum að þurfa að bregðast við.  Í sjálfu sér ætti ekki líta á það verkefni sem þraut heldur tækifæri til að rétta af óréttlátt og gagnslaust kvótakerfi sem hvílir á líffræði sem stangast á við viðtekna líffræði.

Það verða erfiðir dagar hjá samfylkingarfólki framundan eins og ég hef haldið fram áður, ef það ætlar að sniðganga álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og vera á sama tíma að reyna að troða sér í sæti í öryggisráðinu til að tryggja mannréttindi.


Bloggfærslur 19. apríl 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband