Leita í fréttum mbl.is

Hvort er Evrópusambandið himnaríki eða alræðisríki?

Sínum augum lítur hver á silfrið.

Samfylkingin lítur á Evrópusambandið sem frelsun. Manni er stundum brugðið við að horfa upp á gamalreynda þingmenn Samfylkingarinnar, t.d. Katrínu Júlíusdóttur, kikna í hnjáliðunum af lotningu fyrir Evrópusambandinu og telja að við það eitt að ganga í það breytist tilveran í allsherjarsælu og nánast jólahald alla daga ársins.

Svo eru það hinir sem sjá allt svart ef minnst er á bandalagið, s.s. rússneski andófsmaðurinn Vladimir Búkovksíj sem sér miklar hliðstæður með Sovétríkjunum sálugu og Evrópusambandinu. Hann greinir frá fáránlegu hlutverki Evrópuþingsins, segir að það minni um margt á löggjafarþing Sovétríkjanna og segir að framkvæmdaráð Evrópusambandsins sé mjög svipað og Politburo. Eini munurinn sé að framkvæmdaráðið hafi 25 fulltrúa en í Politburo hefðu venjulega verið helmingi færri, 13-15 fulltrúar. 80.000 blaðsíðna regluverk Evrópusambandsins minnti andófsmanninn óþægilega á margra ára áætlanir kommanna sem skipulögðu atvinnulífið út í smæstu skrúfur og bolta.

Gagnrýni andófsmannsins á Evrópusambandið er að mörgu leyti þörf. Evrópusambandið þarf að bregðast við henni þótt hún sé vissulega ýkt enda var nánast eini munurinn sem hann sá á ráðunum að það vantaði gúlagið í Evrópusambandið.

Samfylkingin þarf hins vegar að hugsa sinn gang. Hún segist vilja umræðu um Evrópumálin en býður þjóðinni í raun ekki upp á upplýsta umræðu. Hún minnir um margt meira á trúboð en að taka umræðu um kosti og galla á málefnalegan hátt.

Sjálfum finnst mér rétt að skoða hlutina frá öllum hliðum. Mér hefur löngum þótt Evrópusambandið ofvaxið regluverk og skrifræði þar sem hefur skort á raunveruleikatengingu. Sambandið líður einnig fyrir lýðræðishalla eins og andófsmaðurinn bendir á. Ég vinn mikið með reglur sem eru ættaðar frá Brussel og þykist vita um hvað ég er að tala. Á hitt ber þó að líta að ýmis réttarbót í íslensku samfélagi, og framþróun, t.d. á sviði samkeppnisreglna og aðhalds í íslenskri stjórnsýslu, að ég tali ekki um nýtt álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, er komin að utan. Ráðandi öfl í íslensku samfélagi hafa oft og tíðum tekið úrbótum í fyrstu mjög illa, s.s. sjálfstæðismenn taka áliti mannréttindanefndar SÞ um að virða rétt íslenskra sjómanna. Á endanum hafa þeir þó tekið því og kyngt eins og hverju öðru hundsbiti.


Bloggfærslur 14. apríl 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband