Leita í fréttum mbl.is

Simmi góður við Geir

Sigmar ræddi við drottninguna Geir í Kastljósinu í kvöld. Það verður að segjast eins og er að Sigmar spurði gagnrýninna spurninga án þess að vera með einhvern yfirgang.

Vandamálið var bara að Geir gat ekki svarað neinum spurningum um hvers vegna allt væri hér í efnahagslegri óvissu eftir svo góða stjórn hans á efnahagsmálum. Það eina sem Geir gat svarað með fullnægjandi hætti og útskýrt sannfærandi fyrir þjóðinni var hagkvæmni þess að leigja einkaþotu undir sig og sína til að fara til Búkarest á morgun. Hann sagði að þá tapaði hann ekki vinnudegi á því að kúldrast á hótelherbergi í London meðan hann biði eftir framhaldsflugi.

Það er vonandi að hann sofi vel heima hjá sér í nótt.


Frjálsir Vestfirðir

Hún hefur farið nokkuð hátt, sú umræða meðal Vestfirðinga og annarra þeirra sem er annt um byggðina að helsta ráðið til að snúa við byggðaþróuninni, eða réttara sagt byggðahnignuninni, sé að stofna fríríki eða sjálfstjórnarhérað. Mér er mjög annt um byggðirnar fyrir vestan og fannst á tíðum ferðum mínum sárt að koma til staða þar sem ég sá byggðunum greinilega hnigna frá ári til árs.
Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt eða árangursríkt fyrir þá sem vilja breytingu að leiða talið að einhverju sjálfstæði Vestfjarða og leiða þá talið frá meginmeinsemdinni sem er fiskveiðióstjórnin. Þá verður að segja eins og er að mikill meirihluti þeirra stjórnmálamanna sem hafa komið frá Vestfjörðum hefur stutt kvótakerfið sem hefur grafið undan byggðinni. Það hafa þeir gert þrátt fyrir loforð um annað fyrir kosningar og jafnvel eftir að hafa gengið undir borða á fjölmennum fundum þar sem á hefur verið letrað að orð skuli standa.
Eitt síðasta voðaverk stjórnmálamannanna var að setja minnstu bátana inn í alræmt kvótakerfi og það var gert þrátt fyrir viðvaranir og vissu um voveiflegar afleiðingar þess fyrir vestfirskar byggðir. Mun minna hefur heyrst frá bæjarstjórninni á Ísafirði um að verða við áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en að beita sér fyrir mögulegri byggingu olíuhreinsistöðvar innan einhverra ára. Samt sem áður liggur fyrir að íslensk stjórnvöld þurfa að bregðast við áliti Sameinuðu þjóðanna eftir örfáar vikur.
Skynsamleg breyting sem opnaði leið Vestfirðinga til sjávarins á ný yrði gríðarleg lyftistöng fyrir vestfirskar byggðir. Þá ríður mikið á að þeir sem óska Vestfjörðum og hinum dreifðu byggðum bjartrar framtíðar leggist á árar um breytingar í átt að frelsi til fiskveiða á Íslandi.

Grein sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn var.


Bloggfærslur 1. apríl 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband