Leita í fréttum mbl.is

Davíð Oddsson birtir nýjar tölur

Ég skrifaði grein í gær sem birtist í DV í dag þar sem ég greindi frá því að hrein staða bankanna við útlönd væri neikvæð um 2.190 milljarða, en í dag birti Seðlabankinn nýjar tölur þar sem fram kom að staða bankanna hefði versnað frá þriðja ársfjórðungi 2007 til þess fjórða um rúma 600 milljarða. Fram kemur sömuleiðis að hrein staða þjóðarbúsins við útlönd væri neikvæð um 1.845 milljarða og hafði hún versnað um tæpa 500 milljarða sem samsvarar fimm Kárahnjúkavirkjunum.

Þessar miklu breytingar má eflaust rekja að miklu leyti til breytinga á mörkuðum og gengi íslensku krónunnar. Þetta eru skuggalegar sviptingar. Hér er greinin sem birtist í DV í dag:

Burt með verðtrygginguna   Mikil umræða er um blikurnar í efnahagsmálum þjóðarinnar og þrönga stöðu bankanna. Á einu ári hefur dæmið heldur betur snúist til hins verra fyrir bankana þar sem bankastjórar náðu vart að lenda þotunum sínum í fjármálamiðstöðvum heimsins áður en þeir tóku sig á loft á ný í enn einn víkinginn. Oftar en ekki voru tignir gestir með í för, s.s. forsætisráðherra og bóndinn á Bessastöðum. Þessi staða kom ráðamönnum í opna skjöldu og hafa viðbrögð forsætisráðherra verið að gera ekki neitt. Það fór nokkuð fyrir brjóstið á ungum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, þeim Illuga og Bjarna sem tóku af skarið og lögðu fram krampakenndar tillögur í efnahagsmálum svo vægt sé til orða tekið. Þeir vildu leysa málin með  því að hleypa verðbólgunni á hraðara skeið. Hið helsta sem Samfylkingin hefur lagt í púkkið við lausn mála er að skipta um mynt þótt allir sem eitthvað kynna sér málið ættu að vita að ekki er í myndinni að taka upp evru nema ná fyrst efnahagslegum stöðugleika. Í fyrsta lagi er Ísland ekki í Evrópusambandinu sem er skilyrði fyrir upptöku evrunnar en þótt Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu væri björninn ekki unninn. Aðrar kröfur sem settar eru fyrir upptöku evru eru þær að verðbólga sé ekki 1,5% hærri en í þeim þrem löndum Evrópusambandsins þar sem verðlag er hvað stöðugast. Sömu sögu er að segja um vexti, að þeir séu ekki 2% hærri en í fyrrgreindum löndum.

Íslendingar eru langt frá því að uppfylla þessi skilyrði þar sem vextir hér eru þeir hæstu í Evrópu og verðbólga er enn nálægt 7% en þyrfti að vera í kringum 2,5%. Það skiptir afar miklu við lausn mála að átta sig á ástæðunni fyrir rót vandans. Ein þeirra er án nokkurs efa gríðarleg erlend lántaka bankanna en þeir hafa borið inn í íslenskt efnahagslíf gríðarlegar upphæðir og endurlánað innlendum markaði. Í lok árs 2003 var hrein staða bankanna við útlönd neikvæð um 471 milljarð en fjórum árum síðar hafði staða þeirra versnað um 1.718 milljarða og var orðin neikvæð um 2.190 milljarða. Þetta eru gífurlegar sviptingar á örfáum árum. Bankarnir höfðu greiðan aðgang að erlendu lánsfé á lágum vöxtum sem þeir endurlánuðu á hæstu vöxtum í Evrópu og voru þar að auki gulltryggðir fyrir gengisbreytingum þar sem lánin voru verðtryggð til íslenskra lántakenda. Verðtryggingin hefur því átt gríðarlega stóran þátt í að skapa þá stöðu sem bankarnir eru nú í þar sem lítt hefur verið hvatt til innlends sparnaðar, einungis slegin lán í útlöndum sem dælt hefur verið inn á markaðinn.     

Við afnám verðtryggingar gæti lánveitandi ekki varpað allri ábyrgð á verðbólguáhættu á lántakandann og það mundi ýta undir ábyrga efnahagsþróun. Við breytinguna mundi einnig skapast þrýstingur til lækkunar vaxtastigs í landinu þar sem lánveitendur og lántakendur yrðu að taka mið af raunhæfum vaxtakröfum. Seðlabanki Íslands sem hefur af einhverjum óskiljanlegum ástæðum látið hjá líða að setja þak á hreina erlenda skuldastöðu bankanna þarf að fara að negla upp þak. Bönkunum er nauðugur sá kostur að grípa til aðhalds í rekstri til þess að eiga þess kost að endurfjármagna skuldasúpuna á sæmilegum kjörum. Sömuleiðis þurfa stjórnvöld að grípa til raunverulegra aðgerða, s.s. að gæta aðhalds og hvetja til sparnaðar. Í sjálfu sér ætti að vera greið leið fyrir íslenskt efnahagslíf að vinna sig út úr stöðunni en það verður ekki gert með einhverju froðusnakki um evru eða að hleypa verðbólgunni af stað heldur raunverulegum aðgerðum.


mbl.is Skuldatryggingarálag allra bankanna lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. mars 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband