Leita í fréttum mbl.is

Sjálfstæðisflokkurinn og Maó

Ég var að lesa ævisögu eftir Jung Chang og Jon Halliday um dekkri hliðarnar á valdabrölti einræðisherrans Maós. Það kom skýrt fram að Maó fyrirleit réttarríkið og vildi stjórna með tilskipunum flokksræðisins.

Nú þegar ég verð vitni að tómlætislegum viðbrögðum forsætisráðherra Geirs Haarde og ekki síður þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins Arnbjargar Sveinsdóttur við úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna um að fiskveiðilögin séu ósanngjörn og þeim beri að breyta svo að atvinnufrelsi og jafnræði þegnanna séu tryggð hvarflaði óneitanlega að mér að skeytingarlaus og í raun harðneskjuleg viðbrögð þeirra við úrskurðinum væru ekki sæmandi í flokki sem kennir sig við lýðræðið og grundvallar í orði kveðnu stefnu sína á mannréttindum þegnanna. Þau hljóma frekar eins og þau eigi heima í flokki Maós. Mér fannst orðræða þeirra miklu frekar eiga við fulltrúa alræðisflokks sem lætur grundvallarmannréttindi og reglur réttarríkisins lönd og leið.


Sjávarútvegurinn fórnarlamb hugmyndafræði

Á Íslandi má færa ítarleg rök fyrir því að sjávarútvegurinn og byggðirnar sem byggja á honum hafi orðið fórnarlömb hugmyndafræði þar sem ekkert mark hefur verið tekið á raunsæi og nytsemishyggju. Annars vegar má skipta þeirri hugmyndafræði í stjórn veiða með það að markmiði að byggja upp fiskistofnana. Þau fræði hafa hvergi gengið eftir í heiminum enda stangast þau á við viðtekna vistfræði eins og ég hef margoft bent á. Hins vegar hafa hagfræðingar gleypt þessi fræði og yfirfært á skortskenningar sínar og búið til framseljanlegt kvótakerfi þar sem viðkvæðið er að um takmarkaða auðlind sé að ræða.

Það er auðvitað vafasamt vegna þess að þessi auðlind er vissulega endurnýjanleg en ekki takmörkuð. Þessi fræði eru á góðri leið með að keyra sjávarútveginn og byggðirnar í kaf.

Í Færeyjum horfir málið öðruvísi við. Þar hefur verið þjóðarsátt um að leggja til hliðar reiknisfiskifræðin sem ganga út á að veiða minna til að veiða meira seinna. Ekkert hefur verið farið eftir þessum fræðum sem hafa líka hvergi gengið upp eins og áður segir. Helst hefur þó reiknisfiskifræðin átt hljómgrunn í Þjóðveldisflokknum, en faðir Högna er fiskifræðingur og flokkurinn sækir fylgi sitt m.a. til stofnanafólks.

Nýja stjórnin í Færeyjum hyggst leigja hæstbjóðendum fiskveiðiréttindin til þriggja mánaða í senn. Með því verður eflaust tryggður eignarréttur þjóðarinnar yfir auðlindinni eins og Frjálslyndi flokkurinn beitir sér fyrir. Það sem maður óttast þegar réttindin eru öll leigð út í svona skamman tíma er að erfitt geti verið að tryggja fjárfestingu í greininni. Þessi tilhögun býður upp á að menn hugsi sig tvisvar um áður en þeir fara út í miklar fjárfestingar í útgerð. Í öðru lagi má óttast að samkeppni og háar greiðslur fyrir leigu á aflaheimildum geti orðið til þess að launagreiðslurnar minnki til þeirra sem starfa í greininni.

Hér á Íslandi hafa kjör sjómanna versnað, og minni fjárfesting orðið í greininni þrátt fyrir að stjórnvöld hafi ætlað sér að úthluta aflaheimildum varanlega til útgerða. Það hefur orðið vegna þess að útgerðir hafa lagt í gríðarlegan kostnað til að króa af varanlegar aflaheimildir“.

Það sem öllu máli skiptir er að við stjórn fiskveiða hafi menn raunsæi og nytsemishyggju að leiðarljósi. Reynslan sýnir okkur að hingað til hafi Færeyingum lánast miklum mun betur en okkur Íslendingum að stjórna fiskveiðum af skynsemi í stað þess að láta stjórnast í blindni af einhverjum ismum. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvort núna verði breyting á því með nýrri stjórn.

Mér segir svo hugur að íslensk stjórnvöld - með sjálfan Einar Kristin í broddi fylkingar - muni ekki reyna að læra af reynslu Færeyinga enda búum við við besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“.


mbl.is Ólga í Þjóðveldinu vegna ráðherraskipunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. febrúar 2008

Bloggvinir

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband